„Sennilega bestu fréttir sem ég hef fengið lengi“

Þetta er falleg sjón fyrir aðdáendur
Þetta er falleg sjón fyrir aðdáendur "Popp og kók"

Frá og með 1. febrúar verður hægt að fá Coca-Cola í Smárabíó á ný en síðustu ár hefur aðeins verið hægt að fá vörur frá Ölgerðinni í bíóinu, eins og t.d. Pepsi. Greint er frá þessu á Facebook síðu Coca-Cola á Íslandi og láta viðbrögðin ekki á sér standa.

„Þetta eru sennilega bestu fréttir sem ég hef fengið lengi,“ skrifar einn aðdáandi Coca-Cola. Þá segir einn Facebook-notandi frá kærustunni sinni sem hefur neitað að fara með sér í Smárabíó í áraraðir sökum þess að ekki hefur verið boðið upp á Coca-Cola.

Á heimasíðu Smárabíós kemur fram að bíóið hafi tekið tilboði Vílfells um sölu drykkja í kvikmyndahúsinu frá og með 1. febrúar n.k.. Breytingin á þó ekki við Háskólabíó, en bæði kvikmyndahúsin eru í eigu Senu. 

„Frá þeim tíma verður Coca-Cola aðaldrykkurinn í bíóinu á ný og fleiri vinsælir drykkir á borð við Fanta, Sprite og Víking Bjór verða einnig í boði,” segir á vef bíósins. „Samningar við Ölgerðina vegna Smárabíós runnu út fyrir stuttu en gott samstarf Senu, eiganda Smárabíós, við Ölgerðina heldur áfram á öðrum sviðum, svo sem í Háskólabíói og hvað varðar sölu á sælgæti.“

Að minnsta kosti sex ár eru síðan að Smárabíó samdi við Ölgerðina og í mars 2015 var sagt frá því í Morgunblaðinu að aðeins tvö kvikmyndahús á landinu væru ennþá með hina frægu blöndu, „Popp og kók“. Það voru Laugarásbíó og Bíó Paradís en Sambíóin sömdu við Ölgerðina árið 2013 og hafa aðeins boðið upp á drykki þaðan síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK