Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum þurfa að passa sig

Færslurnar voru allar með sömu myllumerkin, #krónan, #17sortir, #aðeinsíkrónunni og …
Færslurnar voru allar með sömu myllumerkin, #krónan, #17sortir, #aðeinsíkrónunni og #jól2016. Skjáskot af Instagram

„Svona duldar auglýsingar eru að aukast, það er engin spurning,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, en í gær greindi Neytendastofa frá því að Krónan og 17 sortir hefðu notað duldar auglýsingar í markaðssetningu í gegnum áhrifavalda á samfélagsmiðlum.  

„Okkar afstaða er náttúrulega sú að auglýsingar eiga að vera auðkenndar. Fólk á að vita hvenær er verið að auglýsa og um þetta gilda ákveðnar reglur. Það er mjög ánægjulegt þegar þeim er framfylgt,“ segir Ólafur.

14 stöðufærslur á þremur dögum

Í ákvörðun Neytendastofu segir að um hafi verið að ræða 14 stöðufærslur frá 12 einstaklingum sem birst hafi yfir helgina 9.-11. desember 2016. Í færslunum var vara 17 sorta, sem var sérstakt kökudeig, dásamað og sérstaklega tekið fram að deigið fengist aðeins í verslunum Krónunnar. Færslurnar voru allar með sömu myllumerkin,  #krónan, #17sortir, #aðeinsíkrónunni og #jól2016. Engin af færslunum hafi hins vegar verið merkt sem auglýsing eða með öðrum skýrum hætti gefið til kynna að um auglýsingu væri að ræða að mati Neytendastofu. Þar af leiðandi komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Krónan og 17 sortir hafi brotið gegn lögum frá árinu 2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Ólafur segir mikilvægt að taka á svona málum og gera fólki það ljóst að duldar auglýsingar brjóta fyrrnefnd lög.  „Ég get ímyndað mér að flestir sem taka þátt í svona geri sér ekki almennilega grein fyrir því að þeir séu að brjóta lög.“

Ákveðinn iðnaður að myndast

Í ákvörðun Neytendastofu segir að Krónan hafi tekið tilboði fyrirtækisins Ghostlamp í herferð áhrifavalda með vörur 17 sorta en Ghostlamp er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þeirri þjónustu sem um ræðir og velji og sjái um samskipti við þá aðila sem birti stöðuuppfærslurnar.

Ólafur segir að ákveðinn iðnaður sé risinn í þessum málum. „Hann þarf ekkert að vera ólöglegur og mér dettur ekki í hug að allir sem séu í þessum bransa séu að nota duldar auglýsingar. En það þarf að segja með skýrum hætti að þetta sé auglýsing.“

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Golli

Oft vinsælt fólk með ákveðið traust

Auglýsingum á samfélagsmiðlum er oft beint að ungu fólki og segir Ólafur það oft viðkvæmast fyrir ákveðinni markaðssetningu. Hann segir að áhrifavaldar á samfélagsmiðlum þurfi að passa sig og að þeir beri einnig ákveðna ábyrgð.

„Þetta er oft vinsælt fólk með ákveðið traust og fyrirtæki reyna að nýta sér það. Við bregðumst allt öðruvísi við þegar einhver sem maður treystir mælir með einhverju frekar en þegar við sjáum auglýsingu í sjónvarpi. Þessir bloggarar eða áhrifavaldar verða nú að passa sig að vera ekki að plögga eitthvað bara fyrir peninga. Þá missa þeir eflaust fylgjendur og trúverðugleika,“ segir Ólafur.

Hann segir einnig mikilvægt að fyrirtæki fari varlega í þessar aðferðir. „Ég held að það sé ekkert jákvætt fyrir fyrirtæki að neytendur fái það á tilfinninguna að þeir séu að beita vafasömum aðferðum við að koma vörum á framfæri.“

Á við alla markaði

Neytendasamtökin hafa að sögn Ólafs fengið til sín ábendingar vegna duldra auglýsinga áhrifavalda en segir þær helst eiga heima hjá Neytendastofu sem er eftirlitsaðilinn.

„En við látum okkur ekkert neytendatengt óviðkomandi og við verðum auðvitað vör við það að þetta er að aukast,“ segir Ólafur og bætir við að svo virðist sem þessar duldu auglýsingar séu á öllum mörkuðum.  „Maður sér þetta í matvöru, snyrtivöru og svo eru þau oft að auglýsa einhver tæki sem eiga sérstaklega við yngri kynslóðina. Mér sýnist þetta eiga við alla markaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK