Má helst rekja til komu Costco

Úr vöruhúsi Costco við Kauptún.
Úr vöruhúsi Costco við Kauptún. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verri afkomu Haga og lækkanir á bréfum félagsins í Kauphöllinni má helst rekja til komu Costco hingað til lands. Þetta er mat hagfræðinga hjá Arion banka og Landsbankanum sem mbl.is ræddi við í dag.

Hagar sendu frá sér afkomuviðvörun í gær þar sem fram kom að breytt samkeppnisumhverfi hafi haft áhrif á rekstur og markaðsstöðu félagsins og að það hafi leitt til verri afkomu.

Markaðurinn brást nokkuð harkalega við í morgun og lækkuðu bréf Haga um tæp 10% við opnun markaða. Nú þegar þetta er skrifað nemur lækkunin 4,37%.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka segir að afkomuviðvörunin sem Hagar sendu frá sér í gær hafi ekki komið á óvart þar sem versnandi afkoma var gefin í skyn í síðasta uppgjöri. Hann telur það nokkuð ljóst að það sé koma smásölurisans Costco sem hefur haft áhrif á þessa verri afkomu Haga en verslunin var opnuð í Kauptúni 23. maí.

„Ég held að það sé alveg borðleggjandi að það er Costco sem hefur þessi áhrif. Ég veit ekki hvað annað ætti að gera það,“ segir Konráð  í samtali við mbl.is. „Eftir að Costco var opnað byrjuðu bréfin að síga svolítið niður hjá þeim.“

Viðbrögð markaðarins eðlileg

Arnar I. Jónsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, tekur í sama streng. „Fyrst og fremst eru þetta áhrif vegna komu Costco, hvort sem þetta eru bein áhrif, þ.e. Costco að taka sölu frá Högum eða áhrif í gegnum verðlagningu, það að Hagar hafi þurft að leggja minna á sínar vörur vegna Costco.

Hann bendir þó á að eflaust komi einnig inn í þetta styrking krónunnar þar sem innkaupaverð lækkar og útsöluverð sömuleiðis.

Að mati Arnars eru viðbrögð markaðarins í morgun eðlileg. „Í afkomuviðvörun Haga frá því í gær kemur fram að magnminnkun í matvöruverslun hjá þeim hefur verið 9,4% sem er töluvert mikið. Þarna sjáum við hversu mikið minna af einingum er verið að kaupa í búðunum.“

Hann segir ljóst að titringur hafi verið á markaðinum vegna komu Costco og bendir á að bréf Haga hafi verið á niðurleið frá því í vor. „Ég held að innkoma Costco hafi haft meiri áhrif en fólk sá fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK