Bílakaup staðgreidd að stórum hluta

Bílaumboð eru á einu máli um skuldsetningu við bílakaup.
Bílaumboð eru á einu máli um skuldsetningu við bílakaup.

Skuldsetning einstaklinga vegna bílakaupa er mun minni en hún var fyrir áratug og fáir nýta sér lánshlutfallið sem fjármálastofnanir bjóða upp á til fulls. Þetta kemur fram í svörum þriggja bílaumboða við fyrirspurn mbl.is. 

„Almennt hefur innborgun og eigið fé í bílum aukist töluvert síðustu ár en það er misjafnt milli bíltegunda,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju. Hann segir að staðgreiðsla sé algengari við kaup á lúxusbílum en að jafnaði sé staðgreitt í helmingi tilvika. Með staðgreiðslu er einnig átt við það þegar notaður bíll er tekinn upp í.

„Fyrir áratug var mikið lánað og algengt að fólk tæki 90% lán en síðan hafa fjármálafyrirtæki hert reglur varðandi fjármögnun á bílum, til dæmis með því að krefjast greiðslumats fyrir bílalán sem eru hærri en tvær milljónir króna.“

4 af 66

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssölu hjá Heklu, hefur svipaða sögu að segja. 

„Við sjáum að það er mikið um að bílar séu staðgreiddir og að notaðir bílar séu teknir upp í. Notaði bílamarkaðurinn er erfiður og fólk á erfitt með að selja þá,“ segir María Jóna. 

Hún spurði einn sölumann í fljótu bragði um stöðuna á fjármögnun bílakaupa. Hann selur bíltegund sem er verðlögð í kringum 4-5 milljónir króna og í ljós kom að 4 af 66 kaupendum tóku á sig lán við kaupin og aðeins 2 voru með 90% lán. Restin var staðgreidd. 

Rekstarleigan jafngildi láns

Í sama streng tekur Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar. 

„Það er mun lægri skuldsetning við bílakaup í dag heldur en fyrir hrun,“ segir Egill og bætir við að lítið sé um að kaupendur séu að fullnýta 90% lánshlutfall sem sumar lánastofnanir bjóða upp á, nær sé að kaupendur séu að nýta 60 til 70%. 

„Það sem menn gleyma líka að tala um er að fyrir hrun var rekstrarleiga mjög algeng, bæði til fyrirtækja og einstaklinga. Hún er nánast ekki til í dag og hún var í raun 100% lán. Fólk lagði ekkert út, borgaði mánaðargreiðslur og skilaði bílnum til baka.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir