365 flytji úr Skaftahlíð með tímanum

Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kaup Fjarskipta á tilteknum rekstri 365 miðla eru í samræmi við þróun fjarskiptageirans á heimsvísu að sögn Stefáns Sigurðssonar forstjóra. Hann segir engar hópuppsagnir vera í vændum vegna samrunans og að stefnt sé að því að flytja rekstur 365 úr Skaftahlíð með tímanum. 

„Það er að verða samþætting milli fjarskipta og fjölmiðlunar um allan heim. Auk þess höfum við náð miklum árangri síðustu ár í að selja sjónvarpsþjónustu til okkar viðskiptavina en það hefur verið hraðast vaxandi tekjustofninn,“ segir Stefán, spurður um hvers vegna fyrirtækið réðst í kaup á 365 miðlum. 

Sam­keppnis­eft­ir­litið heim­ilaði í gær kaup Fjar­skipta, móður­fé­lags Voda­fo­ne á Íslandi, á öll­um eign­um og rekstri 365 miðla, að und­an­skild­um eign­um er varða út­gáfu Frétta­blaðsins og tíma­rits­ins Glamour. 

„Það mun mikið gerast á fyrstu sex mánuðunum en gerum ráð fyrir að ná fullu hagræði eftir 12-18 mánuði,“ segir Stefán. „Árið 2019 verður komin mynd á nýja fyrirtækið.“

Enn svigrúm í Skaftahlíð

Fjarskipti fluttu í nýj­ar höfuðstöðvar sín­ar að Suður­lands­braut 8 í maí en Stefán segir að markmiðið sé að sameina fyrirtækin á einn stað.  

„Á Suðurlandsbraut erum við með eina lausa hæð þar sem auðvelt verður að koma fyrir 100 manns í það minnsta. Hugmyndin er að reyna að sameina fyrirtækið hér á Suðurlandsbraut eða í nágrenni með tímanum,“ segir Stefán og bætir við að enn sé svigrúm fyrir rekstur í Skaftahlíð þar sem 365 miðlar eru nú til húsa. Eitt sé að færa fólk en annað að færa stúdíó og tækni, það þurfi betri undirbúning. 

Aðspurður segir hann að engar hópuppsagnir vegna samrunans séu ráðgerðar. „Við sjáum hins vegar hagræðingu í starfsmannaveltu yfir lengri tíma.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir