90% af þeirri raforku sem gagnaver á Íslandi nota er ráðstafað í vinnslu rafmynta, samkvæmt nýrri skýrslu KPMG um íslenska gagnaversiðnaðinn. Þetta háa hlutfall er talið endurspegla gríðarstóran áhættuþátt fyrir atvinnugreinina.
„Hátt hlutfall af raforku sem er notuð til vinnslu rafmynta er gríðarmikil áhætta fyrir fyrir gagnaversiðnaðinn á Íslandi vegna þess að hann er þar af leiðandi berskjaldaður gagnvart markaðsþróun rafmynta samanborið við gagnaversiðnað annarra landa,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur fram að að Ísland sé að tapa samkeppnisforskoti í gagnaversiðnaði. Engu að síður búast fyrirtæki í gagnaversiðnaði á Íslandi við allt að 300% vexti í greininni á þessu ári, aðallega vegna vinnslu rafmynta.
Í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins vegna skýrslunnar segir að á undanförnum árum hafi gagnaversiðnaður vaxið talsvert á heimsvísu. Gögn séu helsta hrávara fjórðu iðnbyltingarinnar sem snýst að miklu leyti um söfnun gagna og úrvinnslu.
„Það verður því vaxandi þörf fyrir gagnaver og stjórnvöld í hinum ýmsu ríkjum hafa keppst um að laða til sín slíka starfsemi með markvissri stefnumótun og ýmsum aðgerðum henni tengdri. Hér á landi skortir stjórnvöld framtíðarsýn um gagnaversiðnaðinn og ef ekkert verður að gert mun Ísland dragast aftur úr í samkeppni ríkja og missa af tækifærum á þessu sviði.“
Lagt er til að stjórnvöld móti skýra stefnu og að ráðist verði í margvíslegar aðgerðir til að efla umhverfi þessa mikilvæga iðnaðar, sambærilegt því sem best gerist í samkeppnislöndum Íslands á þessu sviði. Þannig verði byggður upp iðnaður tengdur fjórðu iðnbyltingunni sem skapar verðmæti og eykur fjölbreytni í útflutningi.