Segja málflutning Ólafs rangan

mbl.is/Styrmir Kári

Landssamtök sláturleyfishafa segja að málflutningur framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í tengslum við tollkvóta byggi á röngum upplýsingum. Rangt sé að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ætli einhliða að skerða innflutning með stuðlum fyrir bein í kjöti. 

Þetta kemur fram í svarbréfi Steinþórs Skúlasonar, varaformanns Landssamtaka sláturleyfishafa, til Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Ólafur sendi á dögunum bréf til Kristjáns Þórs Júlí­us­sonar, land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, þar sem hann mótmælti áformum ráðherra um „einhliða“ skerðingu á tollkvóta kjöts. Þá sagði hann að við fyrstu úthlutun á tollkvótum hefði enginn greinarmunur verið gerður á kjöti með eða án beins. 

Í bréfi Steinþórs egir að stjórnvöld hafi tilkynnt hvaða stuðla þau hyggjast nota við útreikning á innflutningskvóta. 

„Það er rangt hjá Félagi Atvinnurekenda að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið ætli einhliða að skerða innflutning með stuðlum. Um er að ræða gagnkvæma, eins framkvæmd af hálfu Evrópusambandsins og Íslands þar sem sömu stuðlar eiga að gilda í báðar áttir.“

Enn fremur segir í bréfinu að Evrópusambandið hafi alla tíð notað stuðla við mat á útflutningi á kjöti frá Íslandi. Í þessu felist að beinlaust kjöt sé reiknað með stuðlum til að finna ígildi kjöts með beini. Gefi augaleið að með þessu skerðist magnið sem Ísland getur flutt út. 

„Samningur við Evrópusambandið um tollamál er gagnkvæmur samningur þar sem Ísland eykur innflutningsheimildir meðal annars á kjötvörum gegn því að fá auknar heimildir til útflutnings til markaða Evrópusambandsins. Þetta er tvíhliða samningur þar sem sömu reglur hljóta að gilda í báðar áttir.“

Þá segir Steinþór að framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda að enginn sé að hafa neitt af neinum heldur sé um að ræða samræmda framkvæmd á gagnkvæmum samningi. „Gæta verður hagsmuna Íslands í þessum efnum, ekki bara hagsmuna heildsala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK