Baráttu Bændasamtakanna ekki lokið

Bændasamtökin segja eðlilegt að enn verði heimilt að beita sérstökum ...
Bændasamtökin segja eðlilegt að enn verði heimilt að beita sérstökum aðgerðum varðandi innflutning dýraafurða til að vernda heilsu manna og dýra. AFP

Bændasamtök Íslands telja bæði eðlilegt og sanngjarnt að íslensk stjórnvöld fari fram á það við Evrópusambandið að áfram verði heimilt að „beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu manna og dýra“ hér á landi, enda standi til þess „full rök“ sem ekki hafi verið hrakin.

Þetta kemur fram í viðbrögðum Bændasamtakanna  við niðurstöðu Hæstaréttar, sem í dag staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2016 um að ríkið sé skaðabótaskylt vegna förgunar á nautakjöti sem fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. flutti inn frá Hollandi árið 2014.

Bændasamtökin segja niðurstöðuna ekki víkja að ýmsum mikilvægum sjónarmiðum sem íslenska ríkið hafi sett fram í málsvörn sinni, meðal annars því að ákvarðanir stjórnvalda hafi verið í samræmi við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.

Þá hafi ekki verið tekið tillit til þess að sjúkdómastaða íslensks búpenings sé óvenjuleg í samanburði við önnur ríki, vegna aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna. Þessi einangrun þýði að dýrin hafi lítið ónæmi fyrir fjölmörgum smitefnum, sem algeng eru erlendis, en aldrei hafi orðið vart við hér á landi.

Bændasamtökin segja að ekki hafi heldur verið vikið að þessum rökum – og fleirum, í dómi EFTA-dómstólsins frá því í nóvember.

Á vef samtakanna er haft eftir Sindra Sigurgeirssyni formanni þeirra að baráttu samtakanna sé hvergi lokið með með þessu máli og að verndun íslensku búfjárkynjanna sem menningarverðmæta og erfðaauðlindar sé mál sem varði alla.

„Bændasamtök Íslands munu ekki láta hér staðar numið og heita á alla málsmetandi að veita því liðsinni áfram,“ segir í tilkynningu Bændasamtakanna.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir