„Væri frábært ef þetta gengi upp“

Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík.
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Álverin eru og hafa verið opin fyrir því að skoða niðurdælingu kolefnis. Þetta kemur fram í svari Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, við fyrirspurn mbl.is. Tilefnin er frétt þess efnis að hægt sé að dæla koltvíoxíði, sem kemur upp, aftur niður í jörðina og þar verði það að grjóti.

Pétur segir að álverin hafi fengið kynningu og átt samtöl við fyrirtæki og sérfræðingi um það hvort þessi leið sé fær og það er enn til skoðunar. „Auðvitað væri frábært ef það gengi upp en ekki er ljóst hvort það er raunhæft eða gerlegt,“ segir Pétur.

Hann segir að vandinn þessu tengdur sé tvíþættur. Í fyrsta lagi er ekki víst að aðstæður séu til fyrirmyndar en berggrunnurinn fyrir austan er gamall og þéttur og ólíklegt að þetta sé mögulegt þar.

Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal. mbl.is/Golli

Í öðru lagi segir Pétur að afsogskerfið í álverum sé afar kraftmikið, sem þýðir að búið er að þynna verulega styrk kolefnis á rúmmál. Það hlutfall er mun lægra en í þeim verkefnum þar sem leið niðurdælingar hefur verið farin hingað til. 

„Það má segja að afsogskerfið sé eins og ryksuga á heimilum. Ef hún er lágt stillt, þá nærðu ekki rykinu. Ástæðan fyrir þessu öfluga afsogskerfi er að mikilvægt er að ná afgasinu inn í hreinsivirkin, þannig að hægt sé að hreinsa út flúor og ryk,“ segir Pétur.

Flúorinn fer í hringrás og er endurnýttur í framleiðsluferlinu. Pétur segir að þetta kerfi hafi lagt grunninn að því að tekist hafi að draga úr losun flúors frá álverum hér á landi um yfir 90% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990. „Fyrir vikið er búið að blanda svo miklu lofti í útblásturinn, að styrkur kolefnis er í raun orðinn lítill á rúmmál.

„Það er stöðugt verkefni hjá álverum á Íslandi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og náðst hefur markverður árangur á því sviði, en hvergi í heiminum er álframleiðsla með lægra kolefnisfótspor,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK