Lilja Katrín ritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, nýr ritstjóri miðla Frjálsrar fjölmiðlunar, meðal annars ...
Lilja Katrín Gunnarsdóttir, nýr ritstjóri miðla Frjálsrar fjölmiðlunar, meðal annars DV og dv.is. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., en félagið á meðal annars og rekur DV, dv.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, Birtu og 433.is. Lilja er annar tveggja ritstjóra sem ráðnir verða til félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem send var fjölmiðlum.

Lilja Katrín hefur starfað í fjölmiðlum síðustu fimmtán árin. Hún hóf ferilinn á Fréttablaðinu og hefur meðal annars verið ritstjóri Séð og Heyrt, umsjónarmaður innblaðs Fréttablaðsins og Lífsins á Vísi og vefstjóri Mannlífs. Þá hefur hún einnig unnið sem dagskrárgerðarkona í Íslandi í dag og starfað sem kynningarstjóri framleiðslufyrirtækisins Sagafilm.

Hún er með BA gráðu í leiklist fyrir sjónvarp og kvikmyndir og hefur leikið í sjónvarpi, talsett auglýsingar, skrifað handrit að gamanþáttum og samið einleik. Fram kemur í tilkynningunni að Lilja muni vinna náið með Guðmundi Ragnari Einarssyni, markaðs- og þróunarstjóra DV, að þróun DV og undirmiðla.

Einar Þór Sigurðsson verður áfram aðstoðarritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.

Haft er eftir Karli Garðarssyni, framkvæmdastjóra Frjálsrar fjölmiðlunar að mikill fengur sé í Lilju. Hún sé bæði reynslumikil í fjölmiðlun og hafi skýra sýn á hvert stefna skuli með miðla félagsins.

Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir