Hálfsárstap Icelandair 11 milljarðar

Icelandair hefur birt uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung. Kyrrsetning Boeing …
Icelandair hefur birt uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung. Kyrrsetning Boeing 737 MAX vélanna litar það verulega.

Icelandair tapaði um 89,4 milljónum bandaríkjadala, um 11 milljörðum króna, á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt hálfsársuppgjöri félagsins sem birt var í kvöld. Eykst tap félagsins frá sama tímabili í fyrra því um nærri 50%.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segir í fréttatilkynningu að staðan með MAX-vélarnar frá Boeing sé „fordæmalaus“ og hafi haft „veruleg áhrif á rekstur og afkomu félagins.“

MAX-áhrifin sex milljarðar króna

Heildartekjur Icelandair voru 402,8 milljónir bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi og hækkuðu um 1% á milli ára. EBIT var neikvætt um 24,1 milljón dala og lækkar um 4,3 milljónir dala á milli ára, en félagið segir að þegar að áætluð áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna séu tekin með í reikninginn sé EBIT jákvæð um 25,9 milljónir dala.

Félagið metur þannig neikvæð áhrif af kyrrsetningu MAX-vélanna til 50 milljóna dala, eða um það bil sex milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi. Án þessara áhrifa, hefði þannig orðið rekstrarbati frá sama tímabili í fyrra.

Félagið flutti 39% fleiri farþega til Íslands á öðrum ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra.

Fréttatilkynning um afkomu annars ársfjórðungs

Hálfsársuppgjör Icelandair

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftirfarandi er haft eftir Boga Nils í fréttatilkynningu félagsins:

„Fyrirhugað var að MAX vélarnar myndu samsvara 27% af sætaframboði félagsins á árinu 2019 og því er sú staða sem komin er upp vegna kyrrsetningar MAX vélanna fordæmalaus og hefur veruleg áhrif á rekstur og afkomu félagsins. Í þessum aðstæðum höfum við lagt höfuðáherslu á að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu með því að bæta leiguvélum við flota félagsins í sumar. Þá hefur það verið forgangsverkefni hjá okkur að tryggja flugframboð til og frá Íslandi og þannig hefur farþegum Icelandair til Íslands fjölgað um 39% á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Þrátt fyrir þessar mótvægisaðgerðir, sem hafa komið í veg fyrir stórfelldar niðurfellingar á flugi, hefur orðið talsverð röskun á flugáætlun okkar og starfseminni allri. Þetta hefur haft áhrif á farþega okkar og valdið flóknum úrlausnarefnum innan félagsins. Starfsfólk Icelandair á mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína við mjög erfiðar aðstæður á háannatíma þar sem allir hafa lagst á eitt að leysa eins farsællega úr málum og mögulegt er.

Markmið félagsins er áfram skýrt – að bæta arðsemi og rekstur félagsins til framtíðar. Við höfum ráðist í fjölmargar aðgerðir á síðustu misserum sem eru þegar byrjaðar að skila árangri en afkoma félagsins, án þegar áætlaðra áhrifa MAX kyrrsetningarinnar, hefur batnað milli ára. EBIT er jákvætt um 25,9 milljónir USD, án þegar áætlaðra áhrifa kyrrsetningar MAX véla, og eykst á milli ára um 45,7 milljónir USD.

Þá gekk reynslumikill alþjóðlegur fjárfestir, PAR Capital Management, til liðs við hlutahafahóp félagsins í apríl og þar að auki undirrituðum við kaupsamning vegna sölu á Icelandair Hotels og tengdum fasteignum í júlí. Hvort tveggja styrkir stöðu Icelandair Group enn frekar og er mikilvæg staðfesting á góðum langtímahorfum félagsins og framtíðartækifærum í íslenskri ferðaþjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK