Japan grípur til örvunaraðgerða

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Þar óttast sérfræðingar m.a. að það …
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. Þar óttast sérfræðingar m.a. að það geti valdið niðursveiflu þegar byggingaframkvæmdum tengdum Ólympíuleikunum lýkur seint á næsta ári. AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur fyrirskipað að stjórnvöld grípi til aðgerða til að örva hagkerfi landsins. Eru fjögur ár liðin síðan japönsk yfirvöld beittu síðast örvunaraðgerðum en ákvörðun ríkisstjórnar Abe kemur til af ótta við þau neikvæðu áhrif sem það gæti haft á atvinnulíf landsins að tekið hefur að hægja á alþjóðahagkerfinu, auk þess að skattar á neysluvörur voru nýlega hækkaðir. Eins óttast sérfræðingar mögulegar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Tókýó á næsta ári, en markaðsgreinendur hafa bent á að hagkerfið kunni að missa úr slag í lok næsta árs þegar byggingaframkvæmdum tengdum Ólympíuleikunum á að vera lokið.

Að sögn FT fela aðgerðirnar m.a. í sér að stjórnvöld taki lán á mjög lágum vöxtum til að fjármagna ýmis opinber verkefni. Örvunaraðgerðirnar verða gerðar að lögum með viðauka við fjárlög ríkisins, og eiga að standa yfir allt fram til ársins 2021.

Ekki liggur enn fyrir hversu umfangsmiklar örvunaraðgerðirnar verða en þó hefur verið upplýst að þær muni m.a. fela í sér að bæta það tjón sem varð af völdum fellibylsins Hagibis sem olli miklum skaða í austurhluta Japans í síðasta mánuði. Þá verða flóðavarnir lagaðar og flóðavarnakerfi landsins stækkað.

FT hefur eftir hátt settum embættismanni að ríkisstjórnin muni jafnframt leita leiða til að bæta afköst smáfyrirtækja og þeirra sem stunda landbúnað.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK