Svona er hægt að næla í frímiða hjá Play

Leiðbeiningar hafa verið sendar á þá sem skráðu sig á …
Leiðbeiningar hafa verið sendar á þá sem skráðu sig á póstlista Play um hvernig hægt verður að nálgast 1.000 frímiða í bókunarkerfi flugfélagsins þegar opnað verður fyrir sölu. mbl.is/Hari

Flugfélagið Play hefur sent tölvupóst á þá sem hafa skráð sig á póstlista hins nýstofnaða flugfélags þar sem finna má leiðbeiningar hvernig freista má þess að fá frímiða þegar flugfélagið opnar fyrir sölu. 

Fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag að flugfélagið sé tilbúið að hefja sig til flugs og greindi Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, frá því í síðustu viku að stefnt er á jómfrúarferð í desember. 

Ekki hefur verið gefið upp hvenær sala á flugmiðum hefst en í póstinum sem sendur var í dag segir að póstur verði sendur á þá sem hafa skráð sig á póstlista Play um leið og sala hefst. „Það verður fljótlega – svo ekki örvænta,“ segir í póstinum sem sendur  var í dag. 

Þegar opnað hefur verið fyrir sölu verður hægt að fara inn á heimasíðu Play, www.flyplay.com, og „bóka flug á undan öllum öðrum“. Vert er þó að benda á að mörg þúsund manns hafa skráð sig á póstlistann en í bókunarvélinni eru 1.000 frímiðar og um þá gildir að fyrstur kemur, fyrstur fær.

Frímiðarnir eru á víð og dreif um bókunarvélina og verða í boði til allra áfangastaða á völdum dagsetningum. Áfangastaðirn­ir sex sem Play horf­ir til þess að fljúga til í upp­hafi eru Kaupmanna­höfn, London, Par­ís, Berlín, Alican­te og Teneri­fe.

Til að eiga möguleika á frímiða þarf að setja inn brottfarar- og áfangastað og velja dagatalið. Þar birtast þær dagsetningar sem flogið verður á og verð fyrir neðan hverja dagsetningu. Ef verðið er 0 kr. er um að ræða frímiða. 

Í póstinum er bent á að fleiri en einn gætu verið að skoða sömu dagsetningar og þarf því að ganga frá bókun til að tryggja sér frímiðann.

Þetta er þó ekki alveg svona einfalt. Í „smáa letrinu“ má finna frekari upplýsingar um fyrirkomulag frímiðanna: 

  • Þú gætir fengið frímiða aðra leið og þurft að borga fyrir hina (ef þú ætlar að fara báðar leiðir). Frímiðarnir eru á völdum dagsetningum. 
  • Þú gætir fengið frímiða báðar leiðir. Frímiðarnir eru á völdum dagsetningum. 
  • Í bókunarferlinu þarft þú að búa til notendaaðgang inn í “Mitt Play”. Það er nauðsynlegt skref svo hægt sé að bóka flug. Í greiðsluskrefinu þarf svo að skrá kreditkortanúmer. Ekki örvænta! Við munum að sjálfsögðu ekki rukka þig fyrir þá miða sem þú færð frítt. 
  • Ákveðinn fjöldi miða eru í boði á hverri dagsetningu. Það gæti því skipt máli hvað þú ert að bóka fyrir marga, hvort að frímiði birtist á þeirri dagsetningu sem að þú ert að skoða.
  • Athugið að það er ekki hægt að breyta dagsetningu, áfangastað né gera nafnabreytingu á frímiðum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK