Vextir komnir niður fyrir 3%

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hef­ur ákveðið að lækka vexti bankans. Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því 2,75%. Þetta eru lægstu meginvextir bankans frá því verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001. 

Meginvextir bankans hafa lækkað um 1,75 prósentur frá því í maí í fyrra. Vextir á húsnæðislánum hafa í meginatriðum lækkað í takt við lækkun vaxta Seðlabankans en þó má sjá merki um að munur vaxta húsnæðislána viðskiptabankanna og meginvaxta Seðlabankans hafi tekið að aukast undir lok síðasta árs.

Nokkrir lífeyrissjóðir hafa einnig þrengt útlánareglur sínar undanfarna mánuði. Eftir lækkun sl. sumar tóku vextir nýrra útlána viðskiptabankanna til fyrirtækja að hækka á ný og jókst vaxtamunur nýrra fyrirtækjalána og meginvaxta Seðlabankans talsvert undir lok árs. Hærra vaxtaálag endurspeglar líklega að hluta endurmat á áhættu á sama tíma og hratt hefur dregið úr útlánum til atvinnufyrirtækja með breyttri stöðu þjóðarbúsins og breytingu á framboði fyrirtækjalána.

Hagvöxtur verði einungis 0,8% í ár

Vísbendingar eru um að hagvöxtur í fyrra hafi verið heldur meiri en áður var talið en horfur fyrir þetta og næsta ár versna samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála. Þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði einungis 0,8% í ár en í nóvemberspá bankans var búist við 1,6% vexti. Lakari horfur má fyrst og fremst rekja til erfiðari stöðu útflutningsatvinnugreina og versnandi fjármögnunarskilyrða innlendra fyrirtækja.

Verðbólga minnkaði hratt er leið á síðasta ár og var komin í verðbólgumarkmið á síðasta fjórðungi ársins. Hún hélt áfram að minnka í janúar og var 1,7% sem er minnsta verðbólga sem mælst hefur síðan haustið 2017. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað og er nú við verðbólgumarkmið eins og flestir mælikvarðar á verðbólguvæntingar. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans verður verðbólga minni en spáð var í nóvember og verður undir markmiði á meginhluta spátímans.

Taumhald peningastefnunnar, eins og það er mælt með raunvöxtum bankans, hefur því heldur aukist frá síðasta fundi nefndarinnar. Hækkun vaxtaálags á lánsfjármögnun fyrirtækja hefur aukið taumhaldið enn frekar.

Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmið hefur gert peningastefnunni kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum. Verkefni hennar er að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma en jafnframt að beita því svigrúmi sem hún hefur til að styðja við eðlilega nýtingu framleiðsluþátta.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK