Íslandsbanki hagnaðist um 8,5 milljarða

Hagnaður Íslandsbanka á síðasta ári nam tæplega 8,5 milljörðum, en það er lækkun um 20% milli ára, en árið 2018 var hagnaðurinn 10,6 milljarðar. Arðsemi eiginfjár var 4,8% í fyrra, samanborið við 6,1% árið 2018. Arðsemi af reglulegri starfsemi var hins vegar 6,6%, en í tilkynningu vegna uppgjörsins segir að það sé undir markmiði um langtíma arðsemi, en ásættanlegt í ljósi aðstæðna á markmiði.

Vaxtatekjur bankans voru 33,7 milljarðar og hækkuðu úr 31,9 milljörðum árið áður og var vaxtamunur 2,8%. Hreinar þóknanatekjur hækkuðu úr 12,2 milljörðum í 13,4 milljarða í fyrra.

Virðisbreyting útlána var neikvæð um 3,7 milljarða á árinu, en árið áður hafði hún verið jákvæð um 1,6 milljarða.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Golli

Stjórnunarkostnaður bankans hækkaði um 1,7% milli ára og var 28,1 milljarður. Fram kemur að hækkunin stafi af launakostnaði vegna starfsloka sem áttu sér stað á árinu 2019 og aukinna afskrifta á grunnkerfum.

Kostnaðarhlutfall bankans var 62,4%, en hafði verið 66,3% árið áður.

Útlán til viðskiptavina hækkuðu um 6,3% frá árinu 2018 og voru 900 milljarðar í árslok 2019. Ný útlán voru 226 milljarðar, samanborið við 239 milljarða árið 2018. Innlán viðskiptavina námu 618 milljörðum og hækkuðu um 6,8% milli ára.

Af þeim 8,5 milljarða hagnaði sem bankinn skilar leggur stjórnin til að greiddur verði 4,2 milljarða arður til hluthafa, en ríkið er 100% eigandi bankans. Svarar það til um 50% af hagnaði ársins.

Í tilkynningunni er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að afkoman hafi verið ásættanleg þegar horft sé til að hægt hafi á hagvexti á árinu. Segir hún að rekstur eins dótturfélags hafi haft neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar, en að með nýrri stefnu bankans og skilvirkari rekstri sé bankinn betur í stakk búinn til að ná arðsemismarkmiðum sem hafi verið sett.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK