Íslandsbanki hagnaðist um 8,5 milljarða

Hagnaður Íslandsbanka á síðasta ári nam tæplega 8,5 milljörðum, en það er lækkun um 20% milli ára, en árið 2018 var hagnaðurinn 10,6 milljarðar. Arðsemi eiginfjár var 4,8% í fyrra, samanborið við 6,1% árið 2018. Arðsemi af reglulegri starfsemi var hins vegar 6,6%, en í tilkynningu vegna uppgjörsins segir að það sé undir markmiði um langtíma arðsemi, en ásættanlegt í ljósi aðstæðna á markmiði.

Vaxtatekjur bankans voru 33,7 milljarðar og hækkuðu úr 31,9 milljörðum árið áður og var vaxtamunur 2,8%. Hreinar þóknanatekjur hækkuðu úr 12,2 milljörðum í 13,4 milljarða í fyrra.

Virðisbreyting útlána var neikvæð um 3,7 milljarða á árinu, en árið áður hafði hún verið jákvæð um 1,6 milljarða.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Golli

Stjórnunarkostnaður bankans hækkaði um 1,7% milli ára og var 28,1 milljarður. Fram kemur að hækkunin stafi af launakostnaði vegna starfsloka sem áttu sér stað á árinu 2019 og aukinna afskrifta á grunnkerfum.

Kostnaðarhlutfall bankans var 62,4%, en hafði verið 66,3% árið áður.

Útlán til viðskiptavina hækkuðu um 6,3% frá árinu 2018 og voru 900 milljarðar í árslok 2019. Ný útlán voru 226 milljarðar, samanborið við 239 milljarða árið 2018. Innlán viðskiptavina námu 618 milljörðum og hækkuðu um 6,8% milli ára.

Af þeim 8,5 milljarða hagnaði sem bankinn skilar leggur stjórnin til að greiddur verði 4,2 milljarða arður til hluthafa, en ríkið er 100% eigandi bankans. Svarar það til um 50% af hagnaði ársins.

Í tilkynningunni er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að afkoman hafi verið ásættanleg þegar horft sé til að hægt hafi á hagvexti á árinu. Segir hún að rekstur eins dótturfélags hafi haft neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar, en að með nýrri stefnu bankans og skilvirkari rekstri sé bankinn betur í stakk búinn til að ná arðsemismarkmiðum sem hafi verið sett.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK