Benedikt toppar Lilju og Birnu

Bankastjórarnir fjórir sem stýrðu stóru íslensku viðskiptabönkunum á árinu. Lilja …
Bankastjórarnir fjórir sem stýrðu stóru íslensku viðskiptabönkunum á árinu. Lilja Björk Einarsdóttir hjá Landsbanka (t.v.) og Birna Einarsdóttir hjá Íslandsbanka (t.h.) lækkuðu báðar í launum á milli ára, Birna þó meira. Í miðjunni sjást þeir Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Höskuldur H. Ólafsson forveri hans, sem fékk 150 milljón króna starfslokagreiðslu er hann lét af störfum í lok apríl. mbl.is/Samsett mynd

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, er launahæstur af bankastjórum stóru viðskiptabankanna þriggja, rétt eins og Höskuldur H. Ólafsson forveri hans í starfi hafði verið árum saman.

Samkvæmt ársreikningi Arion banka var Benedikt með 28,1 milljón króna í laun á þeim sex mánuðum sem hann starfaði sem bankastjóri, en hann var ráðinn frá og með 1. júlí í fyrra. Hann er því með tæpar 4,7 milljónir á mánuði, sem á ársgrundvelli gera um 56,2 milljónir króna.

Benedikt tók við starfinu af Höskuldi H. Ólafssyni, sem lét af störfum í lok apríl. Þá hafði Höskuldur þegar fengið 22,6 milljónir greiddar í laun og var því með 5,65 milljónir í mánaðarlaun á fyrstu fjórum mánuðum ársins, hartnær milljón meira en Benedikt fær nú.

Einnig fékk Höskuldur fengið 4,8 milljónir króna greiddar í árangurstengdar greiðslur áður en hann lét af störfum, en þær árangurstengdu greiðslur voru byggðar á rekstrarreikningi ársins 2015. Árslaun Höskuldar árið 2018 voru 67,5 milljónir króna og svo fékk hann 150 milljónir króna við starfslok sín hjá bankanum.

Birna og Lilja lækka og standa í stað eftir umdeildar hækkanir

Bankastjórar ríkisbankanna tveggja, Birna Einarsdóttir hjá Íslandsbanka og Lilja Einarsdóttir hjá Landsbankanum, standa bankastjórum Arion banka nokkuð að baki varðandi launakjör og lækka þær raunar báðar í launum frá árinu 2018.

Eins og margir muna eflaust eftir vöktu miklar launahækkanir til þeirra á árinu 2018 nokkuð fjaðrafok í stjórnmálaumræðu hér á landi í kjölfar þess að bankarnir birtu uppgjör sín.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sendi meðal annars fyrirspurn til Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhlut um það hvernig á því stæði að launin hefðu hækkað svona mikið eftir að ákvörðun um launakjör bankastjóra fluttist frá kjararáði til stjórnar bankanna árið 2017. Fyrirmæli stjórnvalda höfðu nefnilega verið á þá leið að fjármálafyrirtækin ættu að „tileinka sér hófsemi“ varðandi launakjörin.

Samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka námu laun Birnu 50,9 miljónum króna í fyrra eða 4,24 milljónir á mánuði. Laun hennar námu alls 63,5 milljónum króna á mánuði árið 2018 og hafa því lækkað um rúmlega tólf og milljón á milli ára. Til viðbótar fékk Birna 4,1 milljónir króna í árangurstengdar greiðslur á síðasta ári, en þær greiðslur eru til komnar vegna kaupauka sem ávannst árið 2015. Íslandsbanki aflagði árangurstengdar greiðslur árið 2017.

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans, sem skilaði langmestum hagnaði af viðskiptabönkunum þremur á síðasta ári, er með lægstu launin af bankastjórunum þremur, eða 43,6 milljónir króna í árslaun samkvæmt ársreikningi bankans sem birtur var í síðustu viku.

Laun hennar stóðu þannig nánast í stað á milli ára, en árið 2018 námu þau 44 milljónum króna. Mánaðarlaun Lilju Bjarkar námu 3,63 milljónum króna að meðaltali á síðasta ári.

Ársreikningur Landsbankans

Ársreikningur Íslandsbanka

Ársreikningur Arion banka

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK