Töluverðir erfiðleikar fram undan

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hefur dregið mjög úr nýbókunum og spurningin núna er í raun og veru hversu lengi þetta bókunarfrost muni vara inn í sumarið,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is um áhrif kórónuveirunnar og efnahagssamdráttar víða um heim á ferðaþjónustuna hér á landi.

Hljóðið í ferðaþjónustunni er ansi þungt eins og stendur og ljóst að töluverðir erfiðleikar eru fram undan inn í háönnina.

„Ef það varir fram í apríl/maí eigum við möguleika á að vinna eitthvað gegn áhrifunum en því lengur sem það varir þeim mun meiri verða áhrifin á fyrirtækin, því meirihlutinn af tekjum þeirra yfir árið kemur yfir háönnina.“

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar mikilvæg

Ríkisstjórnin kynnti fyrr í dag aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum af kórónuveirunni sem eru þegar orðin umtalsverð víða um heim. Meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar er tímabundin niðurfelling gjalda á ferðaþjónustufyrirtæki. Horft er til þess að veita fyrirtækjum sem lenda í tíma­bundn­um rekstr­ar­erfiðleik­um vegna tekju­falls lengri frest til að standa skil á skött­um og op­in­ber­um gjöld­um.

Þá er einnig til skoðunar að fella niður tekju­öfl­un sem er íþyngj­andi fyr­ir fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu, t.d. gistinátta­skatt sem verður af­num­inn tíma­bundið. Auk þess á að hleypa af stokkunum markaðsátaki eftir að farið verður að birta til eftir faraldurinn til að kynna Ísland sem áfangastað.

Vill að ríkisstjórnin leiti til atvinnulífsins varðandi útfærsluna

„Það er mjög jákvætt að ríkisstjórnin er að koma út með aðgerðapakka en það náttúrulega vantar útfærslur á því, sem verður áhugavert að sjá hvernig verða. Atvinnulífið er fullbúið til að vinna með stjórnvöldum að útfærslu á þessu,“ segir Jóhannes spurður um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar.

„Það sem er mikilvægast í þessu er þessi skýra yfirlýsing ríkisstjórnarinnar að stjórnvöld ætli að vinna með atvinnulífinu til þess að vinna á móti þeim efnahagslegu og samfélagslegu áhrifum sem þetta mun hafa. Það er lykilatriði – en spurningin er hversu langt þarf að ganga og ég held að menn þurfi að halda öllum dyrum opnum,“ tekur hann fram.

„Getum snúið við erfiðri stöðu“

Að hans mati skiptir mestu máli að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sé verið að horfa til tímabundins afnáms sértækra skatta á ferðaþjónustufyrirtæki og telur að það mætti jafnvel horfa til fleiri atriða í því sambandi.

Annað sem hann nefnir að sé mikilvægt er að lífvænleg fyrirtæki sem lendi í tímabundnum rekstrarerfiðleikum fái fyrirgreiðslu til að halda lífi í rekstrinum yfir erfiðasta tímann.

„Það skiptir miklu máli að við getum náð vopnum okkar aftur eins hratt og mögulegt er þegar þetta tímabil er liðið. Allt gengur þetta yfir á einhverjum tíma og þá skiptir máli að við getum snúið við erfiðri stöðu eins og við höfum áður gert,“ segir hann að lokum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK