Fimmta mesta samdráttarskeiðið

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gangi spá Seðlabankans um 8% samdrátt á þessu ári eftir verður það mesti samdráttur á einu ári síðan 1920. Þegar horft er á samdráttinn sem varð í kjölfar fjármálahrunsins fyrir rúmlega áratug var samdrátturinn hins vegar meiri og í rauninni yrði þetta fimmta mesta samdráttarskeið frá því að mælingar hófust. Þetta kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun.

Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, fór yfir nýútkomna spá bankans á fundinum og sagði að þrátt fyrir að spáð væri kröftugum hagvexti á næsta ári væri landsframleiðslan samt sem áður um 180 milljörðum lægri í lok spátímabilsins, árið 2022, en spáð hefði verið áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Mikil óvissa er um spá bankans og var sett upp bjartsýn og svartsýn spá, auk þeirrar miðjuspár sem bankinn gerir ráð fyrir. Í svartsýnni spánni er gert ráð fyrir að faraldurinn komi aftur upp og viðspyrnan verði minni á næsta ári. Það myndi þýða allt að 10% samdrátt í landsframleiðslu. Hins vegar ef efnahagurinn kemst fyrr í gang og jafnvel ef tekst að komast fyrir faraldurinn telur bankinn að samdrátturinn verði 6%. Miðjuspáin er sem áður segir 8%.

Þórarinn rifjaði því næst upp fyrri samdráttarskeið, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sýndi mestu samdráttarskeið Íslandssögunnar síðan mælingar …
Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sýndi mestu samdráttarskeið Íslandssögunnar síðan mælingar hófust á fundinum í morgun. Graf/Seðlabankinn

Mestur samdráttur varð á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, en þá varð 17,9% samdráttur. Árin 1882-3 var svo 16,1% samdráttur og árið 1920 var samdrátturinn 14%. Í kjölfar efnahagshrunsins fyrir um áratug var samdrátturinn 2009-10 um 10%.

Samdrátturinn á árunum 1949-52 varð hins vegar minni en þau 8% sem Seðlabankinn gerir núna ráð fyrir, eða 7,1% og árin 1967-8 varð samdrátturinn 6,7%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK