Samherji hafi orðið fyrir margföldu tjóni

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt lögmanninum Garðari Guðmundi Gíslasyni …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt lögmanninum Garðari Guðmundi Gíslasyni í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður Samherja sagði í aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur að mál Seðlabanka Íslands gegn fyrirtækinu hafi valdið því bæði fjárhagstjóni og miska. Allur málareksturinn sem Samherji þurfti að standa í í framhaldinu hafi verið á ábyrgð Seðlabankans og vegna saknæmrar og ólögmætrar framgöngu bankans. Málareksturinn hafi verið „fullkomlega tilefnislaus“ allt frá upphafi.

Lögmaðurinn Garðar Guðmundur Gíslason sagði húsleit og haldlagningaraðgerð í fyrirtækjum Samherja 27. mars 2012 hafi verið þá stærstu sem farið hefur fram hér á landi. Hann gagnrýndi að fyrsta frétt RÚV um aðgerðirnar hafi birst 21 mínútu eftir að þær hófust og að Seðlabankinn hafi sent út um allan heim fréttir í gegnum RSS-veitu til 601 viðtakanda um að hann hefði farið í aðgerðirnar.  

Hann sagði allt benda til þess að starfsmenn RÚV hafi verið upplýstir um aðgerðirnar fyrirfram. Þeir hafi verið mættir á staðinn á undan starfsmönnum Samherja og að teknar hafi verið myndir af starfsmönnunum á leið inn í fyrirtækið. Einnig sagði hann fréttaskýringaþáttinn Kastljós hafa verið sýndan um kvöldið. Hann hafi ekki verið unninn á einum degi.

Hann sagði ásakanirnar í garð Samherja „gríðarlega alvarlegar“. Fyrst er krafist skaðabóta að fjárhæð 289 milljónir króna og í öðru lagi eru skaðabótakröfur upp á 58 milljónir króna. Miskabætur hljóða upp á 10 milljónir króna.

Kristinn Magnússon

Garðar sagði Seðlabankann hafa valdið stefnanda margföldu tjóni. Komið hafi í ljós að aðgerðirnar hafi verið tilgangslausar. Eftir þær hafi smátt og smátt komið í ljós „skýrar vísbendingar um að háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt og viðhöfð af ásetningi“. Hann bætti við að menn hafi vitað að þeir máttu ekki ráðast í aðgerðirnar og að minnsta kosti hafi verið um stórkostlegt gáleysi að ræða.

Lögmaðurinn vísaði í bókina Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason frá árinu 2016. Af bókinni megi ráða að enginn rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi.

Stjórnvaldið í veiðiferð

Einnig nefndi hann að Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi í þrígang á síðasta ári sagt að stjórnvöld hefðu ekki haft rökstuddan grun um refsivert brot þegar ráðist var í húsleitirnar. Átti hann við bréf til forsætisráðherra, viðtal við Morgunblaðið og skýrslu sem hann gaf fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Sagði Garðar þetta bera merki um að stjórnvaldið hafi verið í veiðiferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK