Fékk greiddar 135 milljónir króna

Jón Óttar Ólafsson.
Jón Óttar Ólafsson. Ljósmynd/Úr myndskeiði Samherja

Jón Óttar Ólafsson, sem hefur starfað fyrir Samherja, skrifaði út reikninga fyrir 135 milljónir króna vegna vinnu sinnar fyrir Samherja í tengslum við málarekstur Seðlabanka Íslands gegn fyrirtækinu.

Hann sagðist í aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur hafa safnað gögnum víða að úr heiminum þegar málarekstur Seðlabankans hófst gegn fyrirtækinu og verið löngum stundum frá fjölskyldu sinni.

Hann kvaðst hafa unnið með lögmönnum á nokkrum íslenskum lögmannsstofum, ásamt lögmanni innanhúss hjá Samherja.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, við upphaf aðalmeðferðar.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, við upphaf aðalmeðferðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði gagnasöfnunina hafa tekið langan tíma og mikið verið um ferðalög. „Við þurftum að fara erlendis og ná í þau gögn sem Seðlabankann vantaði,“ sagði hann og nefndi að skoða þurfti rekstur á dótturfélögum á Kýpur og Las Palmas. „Það var nauðsynlegt hjá okkur að sýna fram á það, það var mjög mikill „substance“ í þessum rekstri erlendis,“ sagði hann.

Jóni Óttari voru sýndir reikningar upp á yfir 135 milljónir króna sem hann sendi frá sér vegna vinnu sinnar og staðfesti að þeir væru frá honum komnir. Lögmaður sagði kröfurnar í málinu af hálfu Samherja að stærstu leyti snúast um hans vinnu, 38 til 40 reikninga. Hann var spurður nánar út í vinnu hans og hvort um allsherjarúttekt á starfsemi Samherja hefði verið að ræða. Jón Óttar sagði eina leiðina til að sjá vitleysur eða meinbugi á þeim ásökunum sem voru bornar á félagið hafa verið að fara í þessa rannsóknarvinnu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður út í Kötlu Seafood

Hann var spurður út í starfsemi fyrirtækisins Kötlu Seafood á Kýpur, þar á meðal hverjir hafi starfað fyrir það og sagði Jón Óttar þá hafa verið fáa. Þetta væri ástæðan fyrir því að Samherji þurfti að leggjast í svona mikla rannsóknarvinnu. Hann hafi þurft að vera fjarverandi fjölskyldu sinni mánuðum saman í mörg ár til að skoða starfsemi fyrirtækja erlendis. Spurður hvað fyrirtækið hafi verið að gera sagði hann það hafa verið að selja fisk sem var veiddur undan ströndum Afríku og seldur þar.

Var kominn á slæman stað andlega

Sigursteinn Ingvarsson, fjármálastjóri Samherja, bar næst vitni. Hann var spurður út í sína vinnu fyrir fyrirtækið og hvers vegna hann hafi hætt störfum þar. Kvaðst hann hafa verið kominn á slæman stað andlega eftir ásakanir um fjármálamisferli og hann hafi tekið ákvörðun um að láta heilsuna hafa forgang. Sagðist hann hafa verið í sálfræðimeðferð og taki geðlyf.

Sigursteinn fékk síðar meir sent bréf um að hann væri ekki með réttarstöðu sakbornings í málinu. Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari spurði hvort hann hefði íhugað að höfða persónulegt bótamál og sagðist hann klökkur ekki hafa hugleitt það.

Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, bar næst vitni og var hann spurður út í fund sem hann átti með Haraldi Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóra, og fleirum. Snerist fundurinn um að búist var við holskeflu mála frá Seðlabankanum vegna brota á gjaldeyrislögum, að því er hann minnti. Taldi Haraldur að þörf væri á auka fjárveitingu vegna þess.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK