Markmið lækkunarinnar að örva fyrirtækjalán

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó að kórónuveirufaraldurinn gangi niður og efnahagslífið kemst aftur að fullu í gang mun það taka hagkerfið tvö ár að ná sér aftur á sama stað og lengra verkefni fyrir ríkissjóð að greiða af skuldum sem nú safnast upp. Nú þarf að huga að því hvenær rétt sé að nýta það svigrúm sem Seðlabankinn hefur til að örva kerfið, en á sama tíma ekki eyða því öllu strax. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi um vaxtaákvörðun í dag.

„Ríkisfjármálakrísan er ekki byrjuð“

Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagði Ásgeir að ríkissjóður væri í dag ekki mikið skuldsettur. Þar stæðum við framar flestum öðrum þjóðum. Hins vegar væri nú hröð breyting á skuldastöðunni og að fjármál ríkisins verði stórt mál á næstu árum. „Við þurfum mikið fjármagn á skömmum tíma á næsta ári í ljósi tekjufalls og aðgerða ríkisins,“ segir Ásgeir. „Ríkisfjármálakrísan er ekki byrjuð,“ sagði Ásgeir á fundinum áður en hann bakkaði aðeins í orðavali og kallaði það ríkisfjármálaáskorun.

Segir hann verkefni framundan með stöðu ríkissjóðs, hvernig sem efnahagsbatinn verði. Spurður út í hvaða aðgerðir hann myndi vilja sjá segir hann við mbl.is: „Það væri mjög vel við hæfi að ríkissjóður leitaði á erlenda markaði“ til að fjármagna sig. Segir hann það bæði styrkja krónuna og örva kerfið. Þá segir hann að lífeyrissjóðir þurfi einnig að koma inn sem fjármögnunaraðili inn á ríkisskuldabréfamarkaðinn.

Munu beita sér af meiri þunga eftir vaxtalækkunina

Ásgeir segir að bankinn hafi aðeins setið á hliðarlínunni nú í haust þegar þrýstingur kom á krónuna og stór aðili var að selja út 45 milljarða. Sagði hann að sýn bankans þá hafi ekki verið að hjálpa þeim aðila eitthvað sérstaklega að selja út og því hafi bankinn beðið með inngrip. „En í kjölfarið á þessari vaxtalækkun munum við beita okkur af meiri þunga,“ segir hann.

Spurður hver tímarammi slíkra aðgerða sé segir Ásgeir að þar sé horft til langtímastöðuleika og að 1-2 ár sé mögulegt tímabil slíkra aðgerða. Þá bjóði inngripin einnig upp á að hægt sé að selja bréf til að kæla kerfið ef það stefni í of mikla þenslu.

Markmið lækkunarinnar að örva fyrirtækjalán

Í Peningamálum Seðlabankans, sem gefið var út samhliða vaxtaákvörðuninni, kemur fram að sparnaðarhlutfall heimila hafi aukist mjög mikið undanfarið. Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, benti á fundinum á að það væri þó mjög mismunandi hvaða hópar væru að ná að spara og margir ekki neitt. Sagði Ásgeir á fundinum að vaxtalækkunin í vor hafi að miklu leyti horft til þess að koma í veg fyrir frost á fasteigna- og byggingamarkaði og að svo virtist sem það hefði tekist. „Síðast þegar ég kíkti á fasteignamarkaðinn var hann í blússandi gangi – engin vandræði að koma peningastefnunni inn á fasteignamarkaðinn, engin,“ sagði Ásgeir á fundinum.

Spurður út í helstu markmið lækkunarinnar núna segir Ásgeir að bankinn telji fasteignamarkaðinn með nægjanlega örvun eins og er. Hins vegar þurfi að reyna að örva aðra atvinnustarfsemi „Við viljum fókusa á að bankarnir nýti efnahagsreikning sinn fyrir fyrirtækjalán,“ segir hann, en samkvæmt gögnum sem kynnt voru í Peningamálum telja 50% af stærstu fyrirtækjum landsins að þau muni fjárfesta minna á næsta ári, en aðeins 13% að þau fjárfesti meira.

„Ég held að ferðaþjónustan komi hratt aftur“

Ljóst er að ferðaþjónustan er eitt af mikilvægustu púslunum í að efnahagurinn taki við sér á ný. Í Peningamálum segir bankinn að ekki sé gert ráð fyrir að ferðaþjónustan taki við sér á ný almennilega fyrr en eftir mitt næsta ár, þegar bóluefni verði orðið algengt og útbreytt. Spurður nánar út í endurreisn greinarinnar segir Ásgeir að varðandi innviði sé ferðaþjónustan nokkuð vel sett. Þannig séu flest allir innviðir til staðar og fjöldi hótela til reiðu. Hann segir helsta vafamálið vera hversu langan tíma það gæti verið að koma upp fullum flugsamgöngum til landsins á ný ef allt fari af stað aftur og erlendir ferðamenn hyggi aftur á ferðalög eins og fyrir faraldurinn. Bætir Ásgeir þó við að enn sé óvissa með hversu fljótt fólk fari að telja ferðalög örugg.

Spurður hvort hann telji að ferðaþjónustan verði strax á árinu 2022 eins og árið 2019 segir Ásgeir það ólíklegt, en að búast megi við miklum uppgangi engu að síður. Þá muni lægra gengi krónunnar ef til vill skapa svigrúm og aukinn vilja hjá ferðamönnum að ferðast hingað. „Ég held að ferðaþjónustan komi hratt aftur. Allir vilja ferðast aftur,“ segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK