Útlit fyrir 600 milljarða halla á Covid-árunum

Útlit er fyrir að halli ríkissjóðs verði um 326 ma.kr …
Útlit er fyrir að halli ríkissjóðs verði um 326 ma.kr á þessu ári. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Fjárlög ársins 2020 voru á sínum tíma samþykkt með tæplega 10 milljarða króna halla en eftir samþykkt fimm fjáraukalaga á árinu lítur nú út fyrir að halli ársins 2020 verði um 270 ma.kr. Kemur þetta fram í Hagsjá Landsbankans.

Þegar fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 var lagt fram í haust var gert ráð fyrir um 264 ma.kr. halla en hann hefur aukist um 62 ma. kr. í meðferð Alþingis, eða um 23%. Áætlaður halli ríkissjóðs verður 42% af tekjum ársins, samanborið við 35% í fyrra.

Sviptingarnar í ríkisfjármálum voru miklar á síðasta ári og verða væntanlega minni á þessu ári, þótt erfitt sé að spá fyrir um hve lengi faraldurinn mun hafa afgerandi áhrif á þróun efnahagsmála.

Árið 2020 var erfitt til viðmiðunar, að því er fram kemur í Hagsjánni, en ef fjárlög ársins 2021 eru miðuð við ríkisreikning ársins 2019 má sjá að heildartekjur verða um 11% lægri á þessu ári en var 2019 og heildargjöldin 21% hærri. Þetta er heildarmyndin sem blasir við, nær allir tekjupóstar lækka og nær allir útgjaldapóstar hækka.

Umhugsunarefni hversu langt ríkissjóðir Vesturlanda hafa gengið

Í Hagsjánni er fjallað stuttlega um hlutverk ríkissjóðs í kreppum og segir þar:

„Það hefur um áratugaskeið verið deiluefni meðal hagfræðinga og í hagstjórn hversu stórt hlutverk ríkissjóður eigi að taka á sig í kreppum. Breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes var talsmaður mikilla ríkisafskipta í kreppum og hefur löngum verið deilt ötullega um skoðanir hans, sem m.a. komu fram í höfuðriti hans The General Theory of Employment, Interest and Money frá 1936.

Í þessu riti tók Keynes dæmi um að stjórnvöld gætu prentað peningaseðla, komið þeim fyrir í fullnýttum námum og svo fyllt þær af rusli. Síðan gætu þau boðið út námugröft til einkafyrirtækja þar sem þau myndu grafa eftir seðlunum. Keynes taldi að svona verkefni væri betra en að gera ekki neitt á krepputímum. Margir voru ósammála honum og töldu hann algerlega galinn. Það er hins vegar umhugsunarefni hversu langt ríkissjóðir Vesturlanda í dag eru frá þessari gömlu sviðsmynd Keynes þegar litið er til þess hlutverks sem þau hafa tekið á sig.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK