Raforkuverð enn leyndarmál

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag viðauka að raforkusamningi fyrirtækjanna tveggja vegna álversins í Straumsvík. Viðaukinn gildir til 2036, rétt eins og fyrri samningur.

Fyrirtækin tvö hafa átt í deilum um raforkuverð síðustu misseri og hafði Rio Tinto gefið út í fyrra að fyrirtækið skoðaði að loka álverinu vegna slæmra rekstrarskilyrða og tapreksturs síðustu sjö til átta ár. 

Rio Tinto hafði kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins vegna meintrar markaðsmisnotkunar og talið sig bera skarðan hlut frá borði. „Við get­um ekki haldið áfram að fram­leiða ál á Íslandi sé verðlagn­ing ork­unn­ar ekki gagn­sæ, sann­gjörn og alþjóðlega sam­keppn­is­hæf,“ var haft eftir Alf Barri­os, for­stjóa  Rio Tinto á heimsvísu, í tilkynningu.

Þrátt fyrir að fyrirtækið og Landsvirkjun hefðu bæði lýst yfir vilja sínum til að aflétta trúnaði af raforkusamningnum síðasta sumar, var það aldrei gert. Landsvirkjun óskaði síðar formlega eftir því að trúnaði yrði aflétt, en ekki var orðið við því.

Í viðaukanum sem undirritaður var í dag er enn að finna trúnaðarákvæði og því ekki hægt að segja til um hver breytingin er á milli samninga, þótt öllum megi vera ljóst að raforkuverð hefur lækkað. Samkvæmt fréttatilkynningu aðilanna, sem send var út í morgun, er raforkuverð áfram í bandaríkjadölum og tengt banda­rískri vísi­tölu neyslu­verðs (CPI) og að litlum hluta álverði. Verðgrunnurinn hafi þó tekið breytingum. Samhliða fellur Rio Tinto frá kæru til Samkeppniseftirlitsins.

Rannveig Rist og Hörður Arnarson undirrituðu viðauka við raforkusamning Landsvirkjunar …
Rannveig Rist og Hörður Arnarson undirrituðu viðauka við raforkusamning Landsvirkjunar og Rio Tinto í dag. Ljósmynd/Aðsend

Enn þeirrar skoðunar að aflétta eigi trúnaði

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra segir í samtali við mbl.is að hún sé ánægð með að Landsvirkjun og Rio Tinto hafi náð saman um gerð nýs raforkusamnings. „Það er mikill léttir að samningar hafi náðst sem báðir aðilar eru ánægðir með,“ segir hún. Rio Tinto sé fyrirtæki sem sé mikilvægt íslensku efnahagslífi.

Aðspurð segist Þórdís ekki telja að Landsvirkjun sé með samkomulaginu að lúffa fyrir Rio Tinto. „Ég hef enga trú á öðru en að Landsvirkjun sé að vega og meta sína hagsmuni sem fyrirtækis og um leið sinna sínum viðskiptavinum,“ segir hún, en segist þó ekki hafa séð samninginn.

Í viðtali við mbl.is síðasta sumar sagði Þórdís að nauðsynlegt væri að trúnaði væri aflétt af raforkusamningum til að „vitræn umræða“ gæti átt sér stað um stöðu fyrirtækisins. Þórdís segist enn þeirrar skoðunar. „Ég er áfram á þeirri skoðun að aukið gagnsæi sé af hinu góða einmitt vegna þess hversu stórir viðskiptavinir þetta eru og hversu mikilvægt fyrirtæki Landsvirkjun er sem fyrirtæki í eigu almennings,“ segir hún. 

Ekki að vinna að lagabreytingu

Hins vegar þurfi alltaf að líta til viðskiptalegra hagsmuna. „Til dæmis held ég að það yrði ekki þannig að allir samningar yrðu birtir opinberlega strax og þeir eru gerðir. Það er munur hvort það er þá eða síðar, enda þarf Landsvirkjun að halda uppi viðræðum við ýmis fyrirtæki eins og samningatækni gengur út á.“

Þórdís segist telja að aukið gagnsæi fáist með tímanum, en fyrirtæki verði þó að vega og meta sín á milli og Landsvirkjun og Rio Tinto þurfi að svara fyrir það hvers vegna trúnaðarákvæðinu hafi ekki verið aflétt.

En telur Þórdís eðlilegt að löggjafinn eða hún sem ráðherra beiti sér fyrir því að raforkusamningar Landsvirkjunar séu aðgengilegir?

„Ég hef beitt mér fyrir því og talað fyrir því að aukið gagnsæi sé af hinu góða, og maður sér það sérstaklega þegar einstaka erfið mál koma upp þar sem verið er að ræða um hluti sem ekki liggja fyrir. Þá er erfiðara að staðsetja sig og taka afstöðu,“ segir hún.

„En ég er ekki að vinna að lagafrumvarpi sem bannar trúnað á einhverjum samningum yfir ákveðinni stærð. Ég er ekki að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK