„Sigurgangan er að hefjast“

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið Play er komið með flugrekstrarleyfi fyrir eina af flugvélum sínum. Fyrirhugað er að fyrsta flug þess verði um 24. júní til Stansted-flugvallar í London. Opnað verður fyrir bókanir á allra næstu dögum.

Forstjóri Play, Birgir Jónsson, segir við mbl.is að félagið verði komið með rekstraleyfi fyrir þrjár vélar í lok júlí og lendingartíma á helstu flugvöllum í Evrópu, þar á meðal í Kaupmannahöfn, París, Berlín, London, Alicante og Tenerife. 

Þannig nú er þrautaganga ykkar á leið í loftið loks á enda, eða hvað, Birgir?

„Nei, sigurgangan er að hefjast.“

Flókið og langt ferli

Segja má að komið sé að vatnaskilum í rekstri Play nú þegar flugrekstrarleyfi er í höfn, fyrir a.m.k. eina flugvél – það voru allnokkrir sem trúðu ekki að þessi stund rynni nokkurn tímann upp. Þrátt fyrir að horfa greinilega fram á veginn kemst Birgir ekki hjá því að viðurkenna að stofnun nýs flugfélags sé langt og strangt ferli.

„Þetta er svo sem ekkert óeðlilegt ferli við að stofna flugfélag. Þetta er auðvitað bara flókið, langt og dýrt ferli og þess vegna er ekkert skrýtið að þetta taki rúmlega eitt og hálft ár. Auðvitað kemur Covid þarna á milli, en það eru alveg sömu kröfurnar sem gerðar eru til nýs flugfélags og eru gerðar til British Airways eða Lufthansa, regluverkið er alveg eins,“ segir Birgir. 

Bókanir hefjast á næstu dögum

Eins og fyrr segir er eitt af þremur fyrirhuguðum flugrekstrarleyfum Play í höfn og því von á fyrstu vél félagsins til landsins strax í næsta mánuði. Aðspurður segir Birgir að Play verði komið í „fullt swing“ innan skamms. 

„Það sem gerist núna er að fyrsta vélin er skráð með flugrekstrarleyfi og kemur til landsins núna í júní. Svo dettur önnur vélin inn þarna í byrjun júlí og sú þriðja þarna um miðjan júlí. Þannig að auðvitað er þetta Covid enn þá núna en við munum skala starfsemina upp í sumar og undir lok sumars verðum við komin í full afköst á þremur vélum.“

Þeir sem vilja vera með þeim fyrstu til að fljúga með nýju flugfélagi verða að fara að setja sig í viðbragsstöðu.

„Já, fólk getur byrjað að bóka bara alveg á allra næstu dögum,“ segir Birgir. 

Flugtímar um alla Evrópu og starfsliðið klárt

Birgir segir að undirbúningurinn fyrir lokahnykkinn í stofnun Play hafi gengið mjög vel. Flugrekstrarleyfið sem nú er í höfn sé ákveðin forsenda fyrir því að opna megi fyrir bókanir. Hann segir jafnframt að Play sé komið með flugtíma (e. slot) í flestum þeim borgum er Íslendingar ferðast mest til og að starfslið Play sé klárt í slaginn.

„Já, þetta eru þessi staðir sem Íslendingar þekkja vel; Köben og París og Berlín, London, Alicante og Tene og svona. Þannig að það liggur allt fyrir.“

„Það eru 50 manns núna búnir að vinna hjá Play í eitt og hálft ár. Hluti af því eru flugmenn og áhafnir og það hefur þurft að halda þjálfun við og svona. En núna erum við augljóslega bara að ráða inn fleira fólk og erum að nota bara fyrrverandi WOW-fólk, það er fólkið sem er með þjálfun á þessa vélartegund. Þannig að það er flott aðgengi að vel þjálfuðu og flottu fólki.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK