Leita að bestu matarsprotum landsins

Frá kynningu fyrirtækisins Feed the Viking á uppskerudeginum árið 2019.
Frá kynningu fyrirtækisins Feed the Viking á uppskerudeginum árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir viðskiptahraðalinn „Til sjávar og sveita“ og er umsóknarfrestur til 1. nóvember. Óskað er eftir fyrirtækjum sem eru langt komin í vöruþróun, tilbúin með vöru á markað eða hafa hafið markaðssókn.

„Aðeins fimm fyrirtæki verða tekin inn í hraðalinn og er því leitað er að bestu matarsprotum landsins sem munu í gegnum hraðalinn fá öflugan undirbúning og stuðning fyrir markaðssókn innanlands og utan,“ segir í tilkynningu.

Hraðallinn hefst 15. nóvember og lýkur með uppskerudegi 10. desember.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við keyrum hraðal með áherslu á markaðssókn og útrás og erum við spennt fyrir verkefninu. Markmiðið er skýrt, við viljum styðja við útrás íslenskra matvæla og teljum þetta vera rétta leið. Svona markaðshraðlar eru sannprófaðir og við gerum þetta með góðum stuðningi frá GAN,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, í tilkynningunni.

Frá kynningu Pure Natura á uppskerudeginum árið 2019.
Frá kynningu Pure Natura á uppskerudeginum árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Icelandic Startups hafa síðastliðin tvö ár keyrt viðskiptahraðalinn „Til sjávar og sveita“ í samstarfi við Íslenska sjávarklasann og hafa 19 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn á þeim tíma. Í ár verður hraðallinn keyrður sem sérstakur markaðshraðall að erlendri fyrirmynd og er hann unnin í samstarfi við GAN - Global Accelerator Network.

Nettó eru bakhjarl hraðalsins annað árið í röð og tekur fyrirtækið virkan þátt í allri framkvæmd hraðalsins og deila þar sinni þekkingu og reynslu þegar kemur að markaðssetningu á matvöru. Verkefnið fékk einnig styrk frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK