Hækkun stýrivaxta sé ekki dauðadómur

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Himinn og jörð eru ekki að farast þótt Seðlabankinn sé að fara hækka vexti. Yfirlýsingar af því tagi eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands sem fór fram í morgun.

„Gagnrýni frá vinnumarkaðnum um að við höfum lækkað vexti of mikið eða gert of mikið er í raun ósvífin og fáránleg því við vorum fyrst og fremst að einblína á vinnumarkaðinn, félagsmenn verkalýðsfélaganna og að tryggja atvinnu í landinu.“

Núll prósent tákn um dauða og aumingjaskap

Á fundinum, sem bar yfirskriftina „Er vinnumarkaðurinn týndi hlekkurinn?“ færði Ásgeir rök fyrir því að hækkun stýrivaxta væri þvert á móti merki um líf.

„Það er að einhverju leyti jákvætt að við þurfum að hækka vexti. Núll prósent vextir eru tákn um dauðann, stöðnun, atvinnuleysi og aumingjaskap. Á Íslandi er eðlilegt að raunvextir séu jákvæðir. Neikvæðir raunvextir eru aðeins fyrir fyrirtæki sem hafa í raun ekki rekstrargrundvöll,“ sagði hann.

Segir Samtök atvinnulífsins hafa samið af sér

Þá bætti hann því við að hagvaxtarákvæði kjarasamninga kæmi afar illa við verðstöðugleika, enda væri markmiðið fyrst og fremst að ná til baka þeim hagvexti sem tapast hefur í kórónuveirufaraldrinum. Hins vegar hafi um þetta verið samið á sínum tíma og því sé ekkert óeðlilegt við það að verkalýðsfélögin vilji fá það sem þau sömdu um.

„Samtök atvinnulífsins mættu hins vegar hugsa um hvernig þau semja því það er klárt að þau sömdu af sér hér.“

„En er þetta hagfræðileg skynsemi? Svarið er nei. Það er alveg ljóst að á þessum tímapunkti er erfitt að fá launahækkanir inn í kerfið og þær eru að valda verðbólgu sem er óheppilegt miðað við það sem við erum að gera. Þær valda því að við þurfum mögulega að hækka stýrivexti,“ bætti hann við.

Sagði hann Íslendinga alltaf hafa hækkað nafnlaun hærra en aðrir og að það þurfi að ræða.

„Við þurfum að geta rætt um það af hverju við teljum okkur þurfa að hækka launin okkar um 6% á hverju ári, án þess að það sé farið yfir í fúkyrði eða skammir. Hver sá sem hefur farið í gegnum hagfræði 101 hlýtur að geta séð að 6% launahækkun þýðir ekki 6% hækkun á kaupmætti. Það er þetta sem er að leiða til hærri vaxta og verðbólgu.“

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óboðlegt að skella skuldinni á verkalýðsfélög

Auk Ásgeirs ávarpaði Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs fundinn. Þá tóku Konráður Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Magnea Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu og Ragnar Þór Ingólfsson, formanni VR einnig þátt í pallborðsumræðum á fundinum.

Ragnar Þór var ekki á sama máli og Ásgeir og sagði vaxtahækkanirnar vonbrigði. Þá sagði hann óboðlegt að skella skuldinni á verkalýðsfélögin í þessum efnum.

„Allar tölur sýna að það er fasteignamarkaðurinn sem hefur keyrt þessa verðbólgu upp. Seðlabankinn hefði átt að grípa fyrr inn, með því að breyta veðsetningarhlutföllum og stytta lánstíma. En skaðinn var skeður. Það er ekki boðlegt að stíga síðan fram og kenna verkalýðsfélögunum um,” sagði Ragnar Þór. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK