Ásgeir líkti hækkun launa við öfugmælavísur

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðað við stöðu verðbólgu og framtíðarhorfur lítur út fyrir að hagvaxtaraukinn sem samið var um í kjarasamningum árið 2019 verði virkjaður. Slíkar hækkanir í núverandi ástand þar sem verðbólga hefur aukist, til viðbótar við kjarasamningsbundnar launahækkanir um áramót gætu kallað hörmungar yfir þjóðina að mati seðlabankastjóra sem jafnframt líkti mögulegum launahækkunum við öfugmælavísur. Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi peningastefnunefndar í morgun, en nefndin tilkynnti í dag um 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, fór á fundinum yfir spá bankans og sagði þar meðal annars að allt útlit væri á að hagvaxtaraukinn yrði virkjaður vegna þess hagvaxtar sem hefði verið síðasta ár. Sagði hann að bankinn gerði nú ráð fyrir að laun myndu hækka meira en áður var von á og að verðbólga gæti jafnframt orðið þrálátari. 

Undir þessi orð Þórarins tóku þau Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri sem bæði sátu einnig fundinn.

Hlutverk bankans að viðhalda kaupmætti

Ásgeir var á fundinum spurður hvort að bankinn hefði átt samtal við verkalýðshreyfinguna í ljósi stöðunnar. Sagði Ásgeir að Seðlabankinn væri sjálfstæður og gæti ekki farið í slíkt samtal. Hlutverk bankans væri að bregðast við ríkisfjármálum og því sem gerðist á vinnumarkaði með það að leiðarljósi að viðhalda 2,5% verðbólgu og viðhalda kaupmætti launa í landinu og þannig passa að laun sem samið væri um „brenni ekki upp.“

Ásgeir sagði að það eina sem hann gæti sagt við aðila vinnumarkaðarins væri að bankinn myndi reyna að tryggja verðgildi þess sem samið væri um, „að svo miklu leyti sem við getum.“

„Eins og að vatn renni upp í móti“ 

Sagði hann orð verkalýðsforystunnar um að virkja ætti ákvæði í kjarasamningum um hagvaxtaraukann vegna mikils hagvaxtar, ofan á kjarasamningsbundnar launahækkanir um áramót, vera eins og verstu öfugmælavísur. „Eins og að vatn renni upp í móti,“ sagði hann og bætti við að hagvöxturinn núna væri að koma í kjölfar mikils samdráttar á síðasta ári vegna faraldursins. Benti hann á að þrátt fyrir hagvöxtinn undanfarið væri landsframleiðslan enn minni en fyrir faraldur. „Hagkerfið er að fá á sig launahækkanir sem ekki eru studdar af aukinni framleiðslu,“ sagði Ásgeir á fundinum.

Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri.
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þannig að það er bara verið að kalla hörmungar yfir þjóðina ef snúa á þessu upp í einhverjar öfugmælavísur,“ sagði Ásgeir og vísaði til þess ef fara ætti í miklar launahækkanir á sama tíma og verið væri að reyna að bregðast við verðbólgunni.

Enginn gerði ráð fyrir hagvaxtarauka eftir 6,5% samdrátt

Rannveig tók undir þetta og sagði að tæknilega væri ekkert sem kæmi í veg fyrir að hagvaxtaraukinn kæmi inn. Hins vegar þyrfti samtalið að eiga sér stað á vinnumarkaði um hvort rétt væri að fara þá leið. „Það var enginn sem gerði ráð fyrir þessu höggi þegar kjarasamningar voru gerðir,“ sagði hún og benti á að enginn hafi gert ráð fyrir að hagvaxtarauki yrði tekinn út eftir 6,5% samdrátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK