Síminn lækkar eftir tilkynningu SKE

Míla er dótturfélag Símans.
Míla er dótturfélag Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gengi bréfa í Símanum hafa lækkað um tæp 6% það sem af er degi. Lækkunina má rekja til þess að rétt fyrir hádegi birti Samkeppniseftirlitið tilkynningu á vef sínum þar sem athugasemdir keppinauta Mílu, dótturfélags Símans, eru birtar og óskað eftir frekari sjónarmiðum frá sömu aðilum vegna sölu Mílu til franska fjárfestingasjóðsins Ardian.

Sumir keppinauta Símans og Mílu telja að fyrirliggjandi einkakaupasamningur á milli Símans og Mílu, sem á að gilda til 17 ára, feli í sér skaðleg áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja til að gildistími samningsins verði styttur til muna. Ljósleiðarinn, sem er opinbert fyrirtæki í samkeppni við Mílu, leggur til að öll ákvæði um einkakaup verði felld út.

Fram kom í byrjun júlí að Samkeppniseftirlitið hygðist að öllu óbreyttu ekki samþykkja kaup Ardians á Mílu. Samkeppniseftirlitið hefur þó ekki lagt fram nein skilyrði fyrir kaupunum heldur er það í höndum Símans og Ardians að komast að samkomulagi sem eftirlitsstofnunin síðan samþykkir. Í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins var kaupverðið á Mílu lækkað um fimm milljarða króna.

Ardian hefur einnig skilað inn umsögn þar sem sjónarmiðum keppinautanna er mótmælt og bendir meðal annars á að þjónustusamningur við Símann sé ekki til þess fallinn að útiloka keppinauta Mílu. Félagið bendir á að Síminn, sem nú er eigandi Mílu, hafi sem slíkur hagsmuni af því að versla eingöngu við Mílu og hvatinn til að eiga viðskipti við keppinauta Mílu sé svo gott sem enginn.

„Aðgengi keppinauta Mílu að viðskiptum við Símann er þannig mun takmarkaðra nú en að viðskiptum þessum frágengnum,“ segir í umsögn Ardians.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK