Fólk með verðtryggð lán hefur tapað

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu á fundinum …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn sem komið er bendir ekkert til þess að heimilin í landinu séu komin í vanda. Vanskil hafa aldrei verið lægri og í raun hefur greiðslubyrði marga heimila lækkað vegna þess að fólk hefur hækkað það mikið í launum.

Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Hann kvaðst hafa meiri áhyggjur af fólki á leigumarkaði heldur en fólki sem býr í eigin húsnæði.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, í miðjunni, þingmaður Flokks fólksins, óskaði eftir …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, í miðjunni, þingmaður Flokks fólksins, óskaði eftir fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir sagði íslenska hagkerfið hafa vaxið töluvert á síðasta ári og hagvöxtur hafi verið rúmlega 7%, sem sé mjög mikið og að Íslendingar hafi komið vel út úr kórónuveirufaraldrinum. Ísland sé sérflokki vegna þess hve vel gengur í efnahagslífinu.

Hann sagði verð á okkar helstu útflutningsafurðum hafa hækkað, fjárfestingu vaxið og heimilin eytt meiri peningum. „Þetta er dæmigerð íslensk uppsveifla en hún er ekki fjármögnuð með lántökum heimilanna, sem er ekki dæmigert,“ sagði hann og nefndi að skuldir heimilanna hafi staðið í stað og séu mun lægri en á hinum Norðurlöndunum. Hvorki hafi skuldir heimila né fyrirtækja aukist.

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar áhyggjur af skuldastöðu heimila

Ásgeir sagði verðbólguskellinn núna ekki hafa komið eins illa niður á heimilunum þar sem stór hluti þeirra sé ekki með verðtryggð lán. Þeir sem tóku nafnvaxtalán hafi komið mun betur út úr verðbólgunni en þeir sem eru með verðtryggð lán, því raunvextir hafi verið neikvæðir. „Þeir sem hafa tapað á þessari verðbólgu eru þeir sem hafa verið með verðtryggð lán,“ sagði Ásgeir.

„Við höfum ekki áhyggjur af skuldastöðu fyrirtækja og heimilanna en við höfum gríðarlegar áhyggjur af verðbólgunni,“ bætti Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu við og sagði verðbólguna vera eins og öfugan skatt sem bitni mest á þeim sem eru með lægstu tekjurnar. Hún sagði jafnframt verðtryggð lán núna vera um 45% af lánastaflanum. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, stjórnaði …
Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, stjórnaði fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir sagði að litið sé á það erlendis að Íslendingar hafi staðið sig betur frekar en verr miðað við aðrar þjóðir undanfarin misseri. „Við erum, miðað við aðrar þjóðir, í mjög góðri stöðu að mörgu leyti,“ sagði hann og nefndi að hér væri næg atvinna og að laun hafi hækkað umtalsvert.

Kerfið hér væri þrátt fyrir allt stöðugt og að hér hafi engin lánabóla verið. „Þetta er í fyrsta skipti síðan ég veit ekki hvenær sem við sjáum uppsveiflu sem er ekki fjármögnuð af yfirdráttarlánum,“ bætti hann við og sagði lífskjör fólks hafa batnað ótrúlega mikið. Seðlabankinn þurfi aftur á móti að hemja eftirspurnina og passa upp á að allt gerist ekki á sama tíma.

Þjóðin þurfi að vinna saman

Ásgeir sagðist hafa trú á því að í framtíðinni væri hægt að byggja upp nafnvaxtakerfi hérlendis þar sem fólk festi vexti til lengri tíma. Til þess að það tækist þyrfti aðhald fjármála og að þjóðin vinni saman að því að tryggja stöðugleika.

Hann sagði verðbólguna að einhverju leyti stafa af gríðarlegum hagvexti. Ef hægt verði að ná verðbólgunni niður, vonandi af einhverju marki á þessu ári, og langtímakjarasamningar náist næsta haust, gæti orðið grundvöllur að nafnvaxtakerfi á Íslandi. Hann sagði fólk jafnframt alltaf geta farið aftur í verðtryggð lán ef hlutirnir gengu ekki upp hvað varðar óverðtryggð lán.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK