Erlend fyrirtæki „ekki sú ógn sem látið er uppi“

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd telur ekki bráðnauðsynlegt að koma á fæti innlendu …
Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd telur ekki bráðnauðsynlegt að koma á fæti innlendu greiðslumiðlunarkerfi. mbl.is/​Hari

„Að okkar mati er sú staðreynd að erlend fyrirtæki séu þátttakendur í íslenskri smágreiðslumiðlun ekki sú ógn sem látið er uppi.“

Þetta segir Jónína Ingvadóttir markaðsstjóri Rapyd á Íslandi um áform Seðlabankans um að koma á fót innlendu greiðslumiðlunarkerfi.

Í vikunni greindi mbl.is frá því að Seðlabanki Íslands teldi þjóðhagslega ógn stafa af fyrirkomulagi smágreiðslumiðlunar á Íslandi þar sem langstærstur hluti miðlunar færi í gegn um erlenda aðila.

Seðlabankinn hyggst koma á fót greiðslumiðlunarkerfi sem myndi halda öllum færslum innan íslenskra innviða og óskar eftir því að gera það samstarfi við banka, greiðslugáttir og aðra hlutaðeigandi.

Rapyd er ísraelskt greiðslumiðlunarfyrirtæki sem hefur starfað á Íslandi síðan það keypti íslensku greiðslugáttina Valitor. Stór hluti greiðslna á íslandi fer í gegnum kerfi Rapyd og, þar af leiðandi, í gegnum erlenda liði í miðlunarkerfinu.

Ekki boðið í umræðuna

„Við höfum upplýst Seðlabankann um áhuga okkar á að taka þátt í samtalinu varðandi öryggi og virkni innlendrar greiðslumiðlunar,“ segir Jónína en bætir við að fyrirtækið hafi þó ekki verið þátttakandi í „því samtali sem sem nú virðist eiga sér stað milli Seðlabankans og bankanna.“

Rapyd segir að seðlabankinn hafi hafið umræðu við samkeppnisaðila þeirra …
Rapyd segir að seðlabankinn hafi hafið umræðu við samkeppnisaðila þeirra um málin án þess að hleypa þeim að borðinu. AFP

„Það hefur vakið ákveðna furðu hjá okkur enda er um samkeppnismarkað að ræða og sumir bankanna beinir samkeppnisaðilar Rapyd og Valitor í greiðslumiðlun,“ segir Jónína. Hún segir að starfsmenn fyrirtækisins búi yfir verðmætri þekkingu á öllum hliðum greiðslumiðlunar.

Fyrirtækinu hefur aftur á móti ekki verið boðið að taka þátt í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað milli Seðlabankans og bankanna, sem hafa m.a. gert ráð fyrir að innlendar lausnir þyrftu að skjóta undir innlenda greiðslumiðlun.

Vilja kynna eigin lausnir

Seðlabankinn kynnti sínar hugmyndir að lausnum. Annars vegar hefur Seðlabanki lagt fram svokallaða RÍR-lausn (reikningur í reikning) og hins vegar „co-badged“ debetkort.

Að mati Rapyd eru fleiri leiðir til að tryggja öryggi og hagkvæmni en þær sem hafa verið ræddar, og fyrirtækið er tilbúið að kynna slíkar lausnir fyrir Seðlabankanum og öðrum. Því þykir þeim miður að hafa ekki fengið að taka þátt í samtalinu sem þeim sýnist vera að eiga sér stað á milli Seðlabankans og samkeppnisaðila sinna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK