Nokkur orð um sléttbakinn

Blástur. Sléttbakurinn, sem sást við Reykjanes síðastliðinn mánudag.
Blástur. Sléttbakurinn, sem sást við Reykjanes síðastliðinn mánudag. Ljósmynd/Guðlaugur Ottesen Karlsson

Guðmundur Falk, skipstjóri hjá fyrirtækinu Whale Watching Reykjanes, uppgötvaði sléttbak í Faxaflóa á mánudagsmorgun, 23. júlí. Tíðindin bárust hratt út, enda merkileg. Undanfarna áratugi höfðu ekki sést við Ísland nema örfá dýr, teljandi á fingrum annarrar handar – eitt árið 1987, móðir og kálfur árið 1989, og svo tvö árið 1995.

En landsmenn þekktu vel til sléttbaks á öldum áður, eins og fjöldi nafna hans á íslensku gefur til kynna. Þau eru m.a. biskayahvalur, hafkikki, hafurfiskur, hafurhvalur, hafurkekki, hafurketta, hafurketti, hafurkétti, hafurkikki, hafurkitti, hafurkytti, hoddunefur, hraunhvalur, höddunefur, íslandssléttbakur, norðkaprari, slettbakur, sléttbaka, sléttibaka, vaðfiskur og vatnshvalur.

Sléttbakur var fyrsta tegundin sem hvalveiðimenn gerðu út á fyrir alvöru, því hann var algengur, nema í allra heitustu sjóum, í öðru lagi hægsyndur og í þriðja lagi svo feitur að hann sökk ekki þótt hefði verið drepinn. Megintilgangurinn var öflun lýsis (úr fitunni) sem var mikilvægur ljósgjafi en það var einnig notað í kerta- og sápugerð og margt fleira. Þá voru skíðin eftirsótt í lífstykki og krínólínur hefðarkvenna og auk þess við gerð regnhlífa og veiðistanga, að eitthvað sé nefnt.

Og sökum mikillar ágengni í stofna hans, e.t.v. allt frá 9. öld, er lítið orðið eftir. Fyrst var honum eytt á Biskajaflóa en síðan fóru menn norður á bóginn þegar ekki var meira að fá sunnar og héldu þar áfram, m.a. við Írland. Baskar voru nánast einráðir á þessu sviði allt frá því um árið 1000 og til aldamótanna 1600.

En þá bættust Danir, Englendingar og Hollendingar í kompaníið, eftir að auðug hvalamið uppgötvuðust enn norðar í kjölfar landkönnunarleiðangra, og svo Frakkar og Bandaríkjamenn. Um aldamótin 1700 var stofninn að mestu hruninn í austanverðu Atlantshafi og um 100 árum seinna við Norður-Ameríku. Og á 19. öldinni einni og sér voru um 100.000 dýr felld.

Alfriðaður frá árinu 1935

Sléttbakurinn hefur verið alfriðaður frá árinu 1935 en þó er lítil batamerki að sjá. Talið er að við austurströnd Norður-Ameríku, þar sem vesturstofninn heldur sig að mestu leyti, séu einungis 300–450 dýr og í austurstofninum ekki nema fáeinir tugir dýra, sem e.t.v. eru þó bara flakkarar úr hinum. Er óvíst hvort þetta nægi til að dýrin nái að rétta úr kútnum.

Eina þekkta kelfingarsvæðið er út af ströndum Flórída- og Georgíuríkis.

Kýrnar bera á 3–5 ára fresti, meðgangan varir í um 12 mánuði og kálfarnir, sem eru gjarnan ljósari en hinir fullorðnu, eru um 4–5 m að lengd við fæðingu. Þeir er svo næstu 6–12 mánuði á spena en eru þó líklega jafnframt byrjaðir að taka aðra fæðu við lægri mörkin. Kynþroska er náð við 6–12 ára aldur. Samband móður og afkvæmis er afar sterkt og náið.

Háhyrningar eru sennilega afræningjar og e.t.v. hákarlar líka. Þótt fáir hafi orðið vitni að slíkum árásum bera mörg dýr merki sem rakin hafa verið í þá átt. Vera má að ástæðan fyrir því að sléttbakskýr eignist kálfa sína á grunnsævi og dvelji þar næstu vikur og mánuði en ekki dýpra sé hugsað til að gera hvítháfum og öðrum kollegum þeirra erfiðara með að ráðast að bráð sinni neðan frá.

Þá eru ótaldir árekstrar við skip og drukknun í veiðarfærum, s.s. krabbagildrum, og mun þetta vera ein meginorsök vanhalda fullorðinna dýra við strendur Bandaríkjanna og Kanada, eða um 80%. Banamein 17 dýra þar í fyrra má rekja til framannefnds.

Getur vegið um 100 tonn

Sléttbakurinn er nú á tímum oftast 13–16 m að lengd fullvaxinn og 40–50 tonn að þyngd en getur þó orðið 18,5 m og vegið um 100 t. Kýrnar eru ívið stærri en tarfarnir.

Hvalurinn er svartur að meginlit, þótt stundum geti það farið út í brúntón, en aftarlega á kviðnum og umhverfis kynfæri og endaþarmsop eru að auki oft hvítir reitir. Ofan á þetta bætist að á ákveðnum árstímum flagnar húðin á baki a.m.k. sumra einstaklinga svo að þeir verða flekkóttir.

Líkaminn er afar gildvaxinn; ummálið þar sem hann er sverastur getur verið meira en 60% af heildarlengdinni. Fitulagið á það til að vera allt að 60 cm þykkt.

Kjafturinn er, eins og flest annað á þessum hval, líka gríðarlega stór og munnlínan ákaflega bogadregin. Beggja vegna úr efri skolti hanga 200–270 skíði eða í það heila 400–540. Þau eru dökkleit eða svört að lit og geta náð allt að 3 m lengd. Innra borð þeirra er alsett fíngerðum hárum. Og tungan er líka geysimikil, vegur um 1,5 tonn.

Bægsli eru alllöng (allt að 1,7 m), breið og ávöl. Og þríhyrningslaga sporðblaðkan er einnig mikil um sig, getur verið allt að 7 m breið og er áberandi klofin í miðju.

Dálítið bil er á milli útblástursopanna og aukinheldur vísa þau aðeins til hliðanna þannig að súlan myndar V-form séð framan eða aftan frá. Hún getur náð allt að 5 m hæð.

Fæðan nánast eingöngu dýrasvif

Sléttbakurinn er talinn éta nánast eingöngu dýrasvif þar sem krabbaflóin Calanus finmarchicus virðist afar mikilvæg en einnig ungviði ýmissa ljósátutegunda auk vængjasnigla, möttuldýra og hrúðurkarla á lirfustigi. Veiðiaðferðin er sundsíun, ólíkt því sem reyðarhvelin flest nota; synt er með opið ginið, stundum við yfirborðið en þó yfirleitt miðsjávar eða við botn, uns nóg hefur safnast í það til að kyngja.

Þetta er grunnsjávarhvalur að mestu leyti en hefur þó einnig fundist dýpra úti. Hann fer mest um á 4–7 km/klst. og oftast 1–2 dýr saman þótt fyrir komi stærri hópar, einkum í sambandi við tímgunaratferli. Kýrnar leggja nefnilega stund á fjölveri og allt að 30 tarfar geta safnast um eina kú og tekið þátt í sæðiskeppni, þ.e. hún makast við einn af öðrum, eða jafnvel tvo á sama tíma, og venjulegast með stuðningi hinna.

Slíkt atferli er í gangi allan ársins hring en ber þó aðeins ávöxt á veturna, einkum á tímabilinu desember og fram í mars. Talið er að kvendýrin geti á einhvern hátt notfært sér reynslu af frammistöðu karldýranna á ófrjóa tímabilinu og átt auðveldara með að velja þegar að alvörunni kemur. Í þessu sambandi mætti nefna að eistu sléttbakstarfa eru þau langstærstu og þyngstu í gjörvöllu dýraríkinu, vega um eða yfir 500 kg hvort um sig og kannski ekki að undra miðað við annað. Til samanburðar eru þau „ekki nema“ um 50 kg í langreyði og um 70 kg í steypireyði.

Sléttbakurinn getur verið líflegur í yfirborðinu, m.a. barið sporðinum ítrekað, og er líka þekktur fyrir að stökkva mikið, gjarnan hvað eftir annað; er sagt að dynkurinn heyrist úr allt að kílómetra fjarlægð. Einnig á hann það til að nálgast skip og báta.

Ekki er vitað hversu gamlir sléttbakar verða að jafnaði en lengi var talið að þeir gætu náð því að lifa í a.m.k. 30 ár. Sá elsti þekkti varð 67 ára gamall. Eflaust mætti hækka þá tölu í 100 ár og jafnvel 200 eins og í dæmi frændtegundarinnar norðhvals, öðru nafni grænlandssléttbaks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 9.9.20 961,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 27.11.20 365,30 kr/kg
Þorskur, slægður 27.11.20 465,58 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.11.20 225,54 kr/kg
Ýsa, slægð 27.11.20 275,25 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.11.20 140,94 kr/kg
Ufsi, slægður 26.11.20 185,74 kr/kg
Djúpkarfi 10.11.20 209,00 kr/kg
Gullkarfi 27.11.20 257,46 kr/kg
Litli karfi 27.10.20 0,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.11.20 Hafrafell SU-065 Lína
Steinbítur 8 kg
Ýsa 5 kg
Samtals 13 kg
27.11.20 Halla Daníelsdóttir RE-770 Þorskfisknet
Ufsi 81 kg
Karfi / Gullkarfi 64 kg
Þorskur 45 kg
Skarkoli 42 kg
Ýsa 28 kg
Samtals 260 kg
27.11.20 Fjóla SH-007 Plógur
Pílormur 1.030 kg
Samtals 1.030 kg
27.11.20 Harðbakur EA-003 Botnvarpa
Ufsi 8.721 kg
Karfi / Gullkarfi 1.478 kg
Samtals 10.199 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 9.9.20 961,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 27.11.20 365,30 kr/kg
Þorskur, slægður 27.11.20 465,58 kr/kg
Ýsa, óslægð 27.11.20 225,54 kr/kg
Ýsa, slægð 27.11.20 275,25 kr/kg
Ufsi, óslægður 27.11.20 140,94 kr/kg
Ufsi, slægður 26.11.20 185,74 kr/kg
Djúpkarfi 10.11.20 209,00 kr/kg
Gullkarfi 27.11.20 257,46 kr/kg
Litli karfi 27.10.20 0,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.11.20 Hafrafell SU-065 Lína
Steinbítur 8 kg
Ýsa 5 kg
Samtals 13 kg
27.11.20 Halla Daníelsdóttir RE-770 Þorskfisknet
Ufsi 81 kg
Karfi / Gullkarfi 64 kg
Þorskur 45 kg
Skarkoli 42 kg
Ýsa 28 kg
Samtals 260 kg
27.11.20 Fjóla SH-007 Plógur
Pílormur 1.030 kg
Samtals 1.030 kg
27.11.20 Harðbakur EA-003 Botnvarpa
Ufsi 8.721 kg
Karfi / Gullkarfi 1.478 kg
Samtals 10.199 kg

Skoða allar landanir »