Auka gæðin með þjálfun og upplýsingagjöf

Heiða á góðri stundu í fiskvinnslunni. Stutt er á miðin …
Heiða á góðri stundu í fiskvinnslunni. Stutt er á miðin en ferðalagið langt frá Vestfjörðum til Keflavíkur svo að saxast á hillulíf ferska fisksins.

Forvitnilegt er að skoða þau skref sem hafa verið tekin hjá Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf. í átt að því að auka gæði hráefnisins. Hefur fyrirtækið ekki aðeins tekið þátt í þróun nýs og betri kælibúnaðar heldur leggur HG einnig mikið upp úr fræðslu, þjálfun og upplýsingagjöf til alls starfsfólks.

Heiða Jónsdóttir, gæðastjóri HG, fjallaði um þetta í erindi sem hún flutti á Sjávarútvegsráðstefnunni fyrr í mánuðinum. „Við höfum áttað okkur á að mikil og góð samskipti eftir allri virðiskeðjunni hjálpa okkur að gera betur, og jafnframt aðlagast sveiflum í verði og eftirspurn,“ segir hún en við veiðar og vinnslu er þess gætt að safna gögnum samviskusamlega og er helstu upplýsingum miðlað á stórum skjám til starfsmanna á gólfi í vinnslusal.

„Við fylgjumst vel með hvaða afli kemur inn, skráum hjá okkur þá meðferð sem aflinn fær, teljum í körin og pössum vandlega að ísprósentan sé rétt. Með góð gögn um fjölda og stærð fiska er hægt að taka betri ákvarðanir í vinnslunni, og með því að varpa lykilupplýsingum upp á skjá geta allir séð hvað er í gangi og unnið saman að því að ná sem mestum árangri,“ útskýrir Heiða.

Allir hlekkir mikilvægir

HG rekur í dag tvo ísfisktogara og einn frystitogara. Bolfiskvinnsla fyrirtækisins er í Hnífsdal, niðursoðin þorsklifur framleidd í Súðavík og unnið að þróun sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi.

Að sögn Heiðu gegnir starfsfólkið lykilhlutverki við að hámarka gæði, en til að geta staðið jafnfætis fiskútflytjendum á SV-horninu þurfi að vanda mjög til verka því þó að stutt sé á miðin þá er ferðalagið lengra frá fiskvinnslunni suður á Keflavíkurflugvöll svo að gengur á geymsluþol fisksins sem nemur nærri heilum degi. Hún segir alla hlekki keðjunnar skipta máli, og þannig sé ekki bara mikilvægt að fiskurinn fái rétta meðferð strax og hann er kominn um borð, heldur líka hvernig sjálfum veiðunum er háttað:

Nýr Páll Pálsson ÍS.
Nýr Páll Pálsson ÍS. Ljósmynd/Gusti Productions

„Nýjasta skipið í flotanum, Páll Pálsson ÍS 102, er með óvanalega stóra skrúfu sem skilar mikilli togspyrnu og getur dregið tvö troll í einu. Það þýðir að hægt er að veiða minna í hvort troll fyrir sig áður en það er dregið um borð, og fiskurinn þá búinn að vera skemmri tíma í trollinu og ekki undir jafnmiklu fargi þegar veiðarfærin eru hífð um borð,“ segir hún. „Með aukinni veiðigetu eru gerðar auknar kröfur til skipstjórans svo að hann er oft ekki öfundsverður af því að þurfa að skila ákveðnum skammti á ákveðnum tíma sama hvernig viðrar og sama hve mikið fiskurinn í sjónum lætur hafa fyrir sér.“

Auk þess að geta farið betur með fiskinn við veiðar er Páll Pálsson búinn svokölluðum RoteX-snigli frá Skaganum 3X. „Við erum stolt af því að hafa fengið að koma að þróun og prófunum á tæknilausnum Skagans 3X - Stál, og leggjum mikið upp úr því að kælingin sé órofin í gegnum alla virðiskeðjuna, frá veiðum í endanlegar pakkningar.“

Uppsöfnuð þekking

Þjálfun og fræðsla styrkir starfsfólk HG í að meðhöndla fiskinn sem best en nýtist líka, að sögn Heiðu, við að færa fyrirtækið smám saman inn í framtíðina með aukinni sjálfvirknivæðingu. Hún segir þjálfun bæði tímafreka og kostnaðarsama, en ávinningurinn skili sér til lengri tíma.

„Við höfum átt í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Fiskvinnsluskólann, bæði með grunnnámskeiðum í fiskvinnslu og einnig framhaldsnámskeiðum á borð við nám í meðferð matvæla sem sextán starfsmenn HG hafa núna lokið,“ segir Heiða og bendir á að betri fræðsla þýði að starfsfólkið skilji betur hvaða máli hvert handtak skiptir. „Þau átta sig á öllu ferlinu og skilja ástæðuna fyrir því að það skiptir svona miklu máli að fjarlægja orma og bein; að fiskinum sé pakkað rétt, skráningar séu nákvæmar og merkingar í lagi.“

Þegar fram í sækir munu sjálfvirkar vélar vinna æ fleiri handtök í fiskvinnslunni og segir Heiða að rík áhersla á þjálfun almennra starfsmanna sé liður í að undirbúa allt fyrirtækið fyrir þessar spennandi breytingar, sem á endanum koma. „Við stefnum að því að reisa mjög tæknivædda fiskvinnslu á Ísafirði en ætlum ekki að skilja allt góða fólkið okkar eftir heldur taka það með yfir í nýju vinnsluna, og það er lykilatriði í árangri félagsins til frambúðar að þekkingin sem starfsmannahópurinn býr yfir fylgi okkur áfram.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.4.24 393,93 kr/kg
Þorskur, slægður 26.4.24 307,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.4.24 202,84 kr/kg
Ýsa, slægð 26.4.24 78,20 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.4.24 110,49 kr/kg
Ufsi, slægður 26.4.24 133,49 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 26.4.24 156,12 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

26.4.24 Ísak AK 67 Grásleppunet
Þorskur 256 kg
Grásleppa 149 kg
Samtals 405 kg
26.4.24 Emilía AK 57 Grásleppunet
Grásleppa 1.303 kg
Þorskur 303 kg
Samtals 1.606 kg
26.4.24 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Þorskur 1.304 kg
Ýsa 696 kg
Steinbítur 171 kg
Keila 77 kg
Samtals 2.248 kg
26.4.24 Högni ÍS 155 Grásleppunet
Grásleppa 1.435 kg
Þorskur 54 kg
Rauðmagi 33 kg
Skarkoli 4 kg
Samtals 1.526 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.4.24 393,93 kr/kg
Þorskur, slægður 26.4.24 307,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.4.24 202,84 kr/kg
Ýsa, slægð 26.4.24 78,20 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.4.24 110,49 kr/kg
Ufsi, slægður 26.4.24 133,49 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 26.4.24 156,12 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

26.4.24 Ísak AK 67 Grásleppunet
Þorskur 256 kg
Grásleppa 149 kg
Samtals 405 kg
26.4.24 Emilía AK 57 Grásleppunet
Grásleppa 1.303 kg
Þorskur 303 kg
Samtals 1.606 kg
26.4.24 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Þorskur 1.304 kg
Ýsa 696 kg
Steinbítur 171 kg
Keila 77 kg
Samtals 2.248 kg
26.4.24 Högni ÍS 155 Grásleppunet
Grásleppa 1.435 kg
Þorskur 54 kg
Rauðmagi 33 kg
Skarkoli 4 kg
Samtals 1.526 kg

Skoða allar landanir »