Samherji hefur selt uppsjávarskipið Margréti EA 710 til Færeyja og verður skipið afhent strax upp úr áramótum.
Það er hlutafélagið Christian í Grótinum sem kaupir Margréti og kemur hún í staðinn fyrir samnefnt skip sem selt hefur verið til Grænlands, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Nýr Christian í Grótinum er í smíðum hjá Karstensens-skipasmíðastöðinni í Skagen í Danmörku og er væntanlegur til Færeyja í byrjun árs 2022. Fram kemur í færeyska Kringvarpinu að Margréti sé ætlað að brúa bilið þangað til nýja skipið kemur. Margrét EA var smíðuð í Flekkefjord í Noregi 1996 fyrir útgerð í Hvalsey á Hjaltlandseyjum og bar þá nafnið Antares.