Fékk samúðarbumbu á meðgöngunni

Lalli töframaður segist hafa orðið betri maður í alla staði …
Lalli töframaður segist hafa orðið betri maður í alla staði þegar hann varð faðir. Ljósmynd/Aðsend

Lárus Blöndal, betur þekktur sem Lalli töframaður, segir að það að verða faðir hafi gert hann að betri manni í alla staði. Lalli og eiginkona hans Heiðrún eiga fjögur börn saman en þau giftu sig um síðustu jól.

Lalli hefur töfrað bæði unga og aldna upp úr skónum með líflegri sviðsframkomu, óvæntum uppátækjum og mögnuðum töfrabrögðum. Hann er einnig mikill músíkant og safnar núna fyrir útgáfu jólaplötu á vefsíðunni sinni Lalli.is. 

Hvernig hefur föðurhlutverkið breytt þér?

„Það að verða faðir gerði mig að betri manni í alla staði. Núna er ekki hægt að gera alla þessa vitleysu sem maður gerði hér áður fyrr því það eru fjögur líf sem treysta á mann. Hlutur eins og að fara í belti í bíl er ekki eitthvað sem maður má hafa skoðun á sem foreldri því maður er ekki bara að fara í belti fyrir sjálfan sig heldur er maður að fara í belti fyrir börnin sín.“

Lárus segir að meðgöngurnar hafi haft mikil áhrif á hann …
Lárus segir að meðgöngurnar hafi haft mikil áhrif á hann og undir lokin hafi hann varla getað séð auglýsingu um bleyjur án þess að þess að fara gráta. Ljósmynd/Aðsend

Meðgang­an hef­ur mik­il áhrif á kon­ur lík­am­lega og and­lega, fannst þú ein­hverj­ar breyt­ing­ar á þér á meðgöng­unni?

„Það er til svolítið sem heitir „samúðarólétta“ og ég get með sanni sagt að það er 100% alvöruhlutur. Eina við það er að bumban á Heiðrúnu hvarf með barninu en bumban mín er ekki enn þá farin. Annars var maður orðinn frekar tilfiningamikill á lokametrunum og mátti varla sjá bleyjuauglýsingu án þess að fara að grenja.“

Yngstu synir Lárusar og Heiðrúnar.
Yngstu synir Lárusar og Heiðrúnar. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var að vera á hliðarlín­unni í fæðingu?

„Það var hreinlega ótrúlegt. Ég gerði allt sem ég gat til að vera kletturinn hennar Heiðrúnar á meðan hún stóð sig eins og hetja. Fæðingin fyrir tveim árum gekk mjög brösuglega og tók mikið á en þar sá ég hversu mikil ljónynja hún Heiðrún mín er. Ég er nokkuð viss um að ég gæti þetta ekki sem hún er núna búin að gera fjórum sinnum en væntanlega var fjórða barnið það síðasta… en það á samt aldrei að segja aldrei.“

Þú tekur að þér barnaskemmtanir, hvernig hefur það nýst í barnauppeldinu?

„Ég hef unnið með börnum nánast frá því ég var barn sjálfur, á leikjanámskeiðum, sem stuðningsfulltrúi í skólum, skólaliði og svo að sjálfsögðu sem töframaður og skemmtikraftur og það hefur svo sannarlega hjálpað til með að ala upp alla krakkana mína. Þegar ég kynntist Heiðrúnu minni átti hún þegar tvö dásamleg börn og það að vera Lalli töframaður skemmdi alls ekki fyrir til að ná til þeirra.“

Ljósmynd/Aðsend

Finnst þér eitthvað mikilvægara en annað að kenna börnunum þínum?

„Það sem Örn Árnason sagði alltaf í lokin á þáttunum sínum „Með afa“ er eitthvað sem ég hef haft með mér í lífinu og börnin mín munu svo sannarlega fá að taka það mér sér inn í sitt líf líka, „verið góð við allt og alla því þá gengur allt svo miklu betur“.“

Lárus segir það hafi verið ótrúlegt að vera á hliðarlínunni …
Lárus segir það hafi verið ótrúlegt að vera á hliðarlínunni í fæðingu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is