Mikilvægast að vera faðir

Ben Affleck tekur föðurhlutverkið alvarlega. Hér er hann með Jennifer …
Ben Affleck tekur föðurhlutverkið alvarlega. Hér er hann með Jennifer Lopez kærustu sinni. AFP

Hollywood-leikarinn Ben Affleck leggur áherslu á mikilvægi þess að eiga tvö foreldri. Sjálfur segir hann að mikilvægasta hlutverkið sé föðurhlutverkið en faðir hans var ekki alltaf til staðar fyrir hann. 

„Það er mikilvægt að eiga tvö foreldri þegar kemur að uppeldi barns. Mér er mikilvægast að vera góður faðir. Það þarf að kenna strákum. Hvernig á að hegða sér, hvernig á að koma fram. Hver gildin eiga að vera,“ sagði Affleck í viðtali við tímaritið WSJ. Affleck er einlægur í viðtalinu og talar út frá sinni reynslu en gagnrýnisraddir hafa heyrst um að hann taki ekki tillit til einstæðra foreldra. 

Leikarinn sagði að faðir sinn hefði kennt sér mikið en sagði um leið að faðir hans hefði líka verið fjarlægur. Faðir Affleck var barþjónn og hitti Affleck hann oft á barnum. „Pabbi minn fór ekki í háskóla en hann var vel lesinn og langaði að verða rithöfundur þrátt fyrir að það gekk ekki eftir. Alkahólismi kom í veg fyrir það. Að sumu leyti getum við verið okkar verstu óvinir,“ sagði leikarinn. 

„Áður en hann varð edrú var hann til staðar með hléum. Svo ég veit hvernig ferðalagið er. Flestir drengir vilja að feður þeirra séu hetjur,“ sagði Affleck sem leikur mann í kvikmyndinni The Tender Bar sem á ýmislegt sameiginlegt með Affleck. 

Sagan á það til að endurtaka sig og hefur Affleck glímt við áfengisvandamál eins og faðir sinn. Hann á einn son og tvær dætur með fyrrverandi leikkonunni, Jennifer Garner, sem hefur stutt við barnsföður sinn í bataferlinu. Hann elur upp börnin í samvinnu við Garner og reynir að vera til staðar fyrir börnin. 

Ben Affleck á þrjú börn.
Ben Affleck á þrjú börn. AFP
mbl.is