Er þessi fúla ferðatýpa sem getur ekki gist í tjaldi

Sævar Þór Jónsson er mikill veiðimaður. Hann gerir mikið af …
Sævar Þór Jónsson er mikill veiðimaður. Hann gerir mikið af því að vera úti í náttúrunni á sumrin og veiða fisk.

Sævar Þór Jónsson lögmaður og eigandi lögmannsstofunnar Sævar Þór & Partners hefur gaman að því að ferðast. Hingað til hefur hann yfirleitt notað íslenska sumrið til að veiða fisk og verður það þannig í ár. Þótt hann komist ekki til útlanda ætlar hann ekki að gerast svo djarfur að taka fram tjaldið. Hann segist vera búinn með sinn kvóta af slíkum ferðalögum. 

„Þetta sumar verður svo sem ekkert frábrugðið öðrum sumrum hjá mér enda nýti ég þau hér heima í veiði. Ég veiði mikið á sumrin enda veit ég ekkert betra en að vera einn með sjálfum mér í náttúrunni að eiga við laxinn. Sólin, lyktin og niðurinn í ánni er eitthvað sem ég vil alls ekki missa af á sumrin. Þetta er reyndar eina fríið sem ég tek á sumrin en svo reyni ég líka að ferðast alltaf eitthvað innanlands. Það er til dæmis fastur liður hjá mér að fara austur á land á hverju ári enda eru Austfirðirnir í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir Sævar Þór. 

Röskuðust þín ferðaplön eitthvað vegna kórónuveirunnar?

„Einu ferðaplönin sem röskuðust vegna kórónuveirunnar þetta árið var páskaferðin en þá var ætlunin að fara til Möltu. Ég varð að fresta þeirri ferð um ótiltekinn tími eins og gefur að skilja. Ég áætla að ferðast til útlanda í haust en það hefur verið venja hjá mér að fara stutta utanlandsferðir á haustin og yfir vetrartímann. Þá fer ég í óperuhúsin og á aðra menningarviðburði og reyni að drekka í mig alla þá menningu sem fyrir finnst í erlendum stórborgum.“

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Ég er frekar fúl ferðatýpa. Ég er alveg hættur að nenna að vera í tjaldi og kýs frekar að gista á hótelum eða gistiheimilum þegar ég ferðast um landið. Ég er ekki alveg lengur að fíla vosbúðina í tjaldinu en það kemur þó enn fyrir að ég tjalda. Ég tek með mér góða bók, vindla og fartölvuna með góðum sjónvarpsþáttum sem ég hef ekki haft tíma til að horfa á. Ég reyni að hlúa að mér þegar ég ferðast og reyni að gera sem minnst þegar kemur að vinnu og öðru hversdagslegu. Ég leyfi mér að gleyma mér og vera í því umhverfi sem ég er í hverju sinni. Þá finnst mér t.d. mjög gaman að kúra uppi á hótelherbergi á kvöldin og horfa á sjónvarpsefni sem ég hef ekki áður haft tíma til að horfa á.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig dreymir að fara til Ástralíu og kafa með hvítháfum sem er stærsta og hættulegasta hákarlategundin sem syndir í sjónum. Þetta er á „bucket“ listanum mínum um ferðalög og hluti sem ég vil gera.“

Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir á Íslandi?

„Það eru margir eftirminnilegir staðir sem ég hef heimsótt á Íslandi en sá staður sem hefur einhvern veginn gripið mig mest að undanförnu er Drangsnes á Ströndum og umhverfið allt þar í kring. Ég veit ekki hvað það er en ég fór þangað fyrir tveim árum og umhverfið þar og firðirnir eru ótrúlegt fyrirbrigði.“

Hvað er nauðsynlegt að taka með í ferðalagið?

„Það er lífsnauðsynlegt að hafa góða ferðafélaga með sér á ferðlögum, algjört möst.“

Hvað borðar þú á ferðalögum?

„Ég reyni að borða eitthvað nýtt og framandi á öllum ferðalögum, sérstaklega erlendis. Annars finnst mér ómissandi að hafa lakkrís og Ópal með sér á ferðalögum innanlands.“ 

Hér er Sævar Þór ásamt nafna sínum, Sævari Karli Ólasyni …
Hér er Sævar Þór ásamt nafna sínum, Sævari Karli Ólasyni og eiginmanni sínum, Lárusi Sigurði Lárussyni í Munich.
Hér er Sævar Þór Jónsson í Bayreth þar sem hann …
Hér er Sævar Þór Jónsson í Bayreth þar sem hann var að fara á tónleika.
mbl.is