Mjög spennt fyrir sumrinu í Berlín

Ágústa Sveinsdóttir býr í Berlín ásamt fjölskyldu sinni.
Ágústa Sveinsdóttir býr í Berlín ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Ágústa Sveinsdóttir, vöruhönnuður og markaðs- og áfangastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík, flutti til Berlínar í ágúst í fyrra ásamt syni sínum og manni. Hún nýtur þess að búa í stórborginni auk þess sem hún sinnir starfi sínu í fjarvinnu frá Berlín. 

„Það er búið að vera mjög ljúft,“ segir Ágústa spurð út í lífið í Þýskalandi. „Þetta eru náttúrulega samt nokkuð undarlegir tímar til að flytja til annars lands vegna kórónuveirufaraldursins en hér er búið að vera hálfgert útgöngubann í marga mánuði. En núna er allt að opna aftur. Við erum því mjög spennt fyrir sumrinu.“

Hvernig ert þú í þýskunni? 

„Fer svolítið eftir aðstæðum. Ég er til dæmis orðin ágæt í að panta mat og kaffi á veitingastöðum. Ég á einnig oft í skemmtilegum samræðum við börn á leikvöllum borgarinnar með syni mínum.“

Ljósmyndaklefar eins og þessi sem fjölskyldan fór í eru algengir …
Ljósmyndaklefar eins og þessi sem fjölskyldan fór í eru algengir í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Nágrannarnir koma færandi hendi með mat

Ágústa býr á mörkum hverfanna Neukölln og Kreuzberg. „Þetta svæði er stundum kallað Kreuzkölln og er mjög skemmtilegt og litríkt svæði. Hér er svolítið tvískipt menning. Hér búa mikið af aðfluttum listamönnum, námsmönnum og öðru ungu fólki og því fylgir að hér er alltaf nóg um að vera. Til dæmis er mikið af skemmtistöðum, veitingastöðum, hönnunarverslunum og sjálfsreknum galleríum hér allt í kring. Mikil nýsköpun og menning.“

Ágústa segist enn vera hálfgerður ferðamaður í Berlín.
Ágústa segist enn vera hálfgerður ferðamaður í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

„En síðan eru sennilega flestir í hverfinu af miðausturlenskum uppruna til dæmis frá Tyrklandi, Palestínu, Líbanon og margir Kúrdar. Enda er hluti hverfisins stundum kallað litla Istanbúl. Heilu göturnar hérna samanstanda einungis af miðausturlenskum veitingastöðum, verslunum og skemmtistöðum þar sem reyktar eru shisha-vatnspípur.

Ég er einnig mjög heppin með nágranna. Fólkið í mínu húsi eru flest Kúrdar og ótrúlega hlýtt og gott fólk. Þau banka jafnvel stundum upp á hjá okkur og koma færandi hendi með mat. Gestrisni og gjafmildi er hér því í hávegum höfð. Ég fer stundum varla inn í verslun eða sjoppu án þess að syni mínum sé boðið eitthvað sælgæti eða bakkelsi í boði hússins.“

Áttu þér uppáhalds veitingastað eða kaffihús?

„Nei í rauninni ekki. Við erum bara alltaf að prufa eitthvað nýtt og það klikkar mjög sjaldan. Hverfið okkar er þekkt fyrir einstaklega fjölbreytta matargerð og hér eru margir bestu veitingastaðirnir og kaffihúsin í Berlín.“

Skemmtilegt að búa í stórborg

Hvernig er draumadagurinn í Berlín?

„Þetta er í raun nokkuð tvískipt eftir árstíðum. Að sumri myndi ég fara og eyða deginum úti við eitthvað af vötnunum í Berlín með fjölskyldu og vinum. Liggja á „ströndinni“ og fara á bát. Grilla í sólinni. Á öðrum árstíðum myndi ég byrja daginn á að fara í einhvern geggjaðan bröns. Svo myndi ég kíkja á einhverja skemmtilega markaði, jafnvel á safn. Fara svo út að borða og enda kvöldið á skemmtilegum bar í kokkteilum.“

Þrjú saman í Berlín.
Þrjú saman í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Ágústa segir að það sé að mörgu leyti hagstæðara að búa í Berlín en á Íslandi. Hún bendir á að borgin sé ein ódýrasta höfuðborg í Vestur-Evrópu. Verðlagið er þó ekki eina sem er jákvætt. „Það hefur verið ótrúlega skemmtileg reynsla að prufa að búa í stórborg. Fjölbreytnin er svo mikil og maður er alltaf að sjá eitthvað nýtt á hverjum degi. En ég er náttúrulega svo nýflutt að maður er enn þá hálfgerður túristi hérna. Hér er líka mikil hjólamenning og það er ótrúlega frelsandi að geta bara hoppað á hjólið og ferðast um þannig. Ég er mjög fegin að vera nánast laus við það að ferðast í bíl en maður er oft mun háðari því heima á Íslandi vegna veðurs.“

Fjölskyldan saknar þó Íslands, fólksins og sundlauganna. „Það sem ég sakna mest við Ísland er náttúrulega fyrst og fremst fjölskyldan og vinirnir sem eru þar. En ég sakna þess einnig mikið að fara í sund. Ég og maðurinn minn vorum fastagestir í sundlaugum Reykjavíkur! Það eru svo mikil lífsgæði falin í því að komast í sund. Og sjórinn og fjöllin. Það er mjög skrítið að sjá ekki sjó í svona langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert