Draumafrí á Norðurlandi

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Berglind Hreiðarsdóttir, mat­ar- og æv­in­týra­blogg­ari á Gotterí og gersemar, fór í skemmtilegt ferðalag um Norðurland í sumar. Ferðalag Berglindar og fjölskyldu var algjört ævintýrafrí en auk þess að spóka sig um á Húsavík og Akureyri nutu þau þess að vera í sveitinni hjá frændfólki. Berglind skrifar um ferðalagið í nýjum pistli: 

„Við yfirgáfum yndislega Austurlandið á sólríkum degi eftir að hafa dvalið þar í nokkrar nætur og skoðað ýmislegt áhugavert. Leiðin lá næst til Húsavíkur og byrjuðum við á því að stoppa við Dettifoss og ganga upp að þessum magnaða fossi. Krafturinn er svo svakalegur að maður hreinlega fær í magann bara við að standa og horfa á hann. Eftir að hafa skoðað Dettifoss fórum við í Ásbyrgi í stutta göngu niður að Botnstjörn. Það er ævintýri líkast að ganga um í Ásbyrgi, klettarnir, gróðurinn og friðsældin er engu lík,“ segir Berglind. 

Húsavík

„Við komum inn á Húsavík að kvöldi til, fengum okkur að borða og höfðum það síðan kósý á hótelherberginu okkar eftir ævintýralegan dag. Stelpurnar horfðu á Eurovision myndina því næsta dag átti sko sannarlega að fara í leiðangur og finna álfahúsið, Jaja-Ding-Dong barinn og fleira skemmtilegt.

Við vorum svo heppin næsta dag að það var akkúrat verið að vinna í Eurovision safninu á Jaja-Ding-Dong barnum og okkur var leyft að kíkja aðeins inn fyrir. Stelpunum þótti það mjög gaman og við þurfum klárlega að kíkja á þetta safn síðar þegar það hefur opnað og allt verður tilbúið,“ skrifar Berglind og segir að Hulda Sif dóttir sín hafi verið mjög spennt að sjá álfahúsið og segir hana hafa verið frekar spælda þegar í ljós kom að leikararnir voru ekki í húsinu. 

Álfahúsið á Húsavík.
Álfahúsið á Húsavík. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Næst lá leiðin í Hvalasafnið á Húsavík en þangað höfum við komið áður. Þar eru beinagrindur af hvölum í fullri stærð og margt áhugavert að skoða. Stelpunum þótt samt sorglegt hversu mikið af plasti fer í sjóinn og verður mörgum sjávardýrum að bráð. Það er svo mikilvægt að setja rusl réttu leiðina og aldrei að henda því út í náttúruna!

Við urðum auðvitað að halda áfram að prófa alla nýju sundstaðina og kíktum í GeoSea. Þar er ótrúlega fallegt og notalegt að slaka á. Hulda Sif elskar reyndar mest af öllu að kafa í sundi og var hún ekki alveg nógu sátt með saltvatnið. 

Eftir bað og síðbúinn hádegisverð yfirgáfum við Húsavík og stoppuðum við Gullfiskatjörnina á leiðinni út úr bænum. Þessi yltjörn er hluti af Kaldbakstjörnum en í hana rennur heitt vatn svo hún er ylvolg allt árið og í henni lifa villtir gullfiskar. Við sáum marga, stóra gullfiska sem stelpurnar reyndu að ná í háfana sína en þeir voru ekki alveg tilbúnir í það og létu hafa fyrir sér. Það voru því aðeins annars konar síli veidd þennan dag en mikið sem þær skemmtu sér vel og virkilega gaman að sjá alla þessa gullfiska í vatninu.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Öðruvísi tjaldferð

„Næsti næturstaður var heldur betur ævintýralegur! Stelpurnar vildu svo mikið fá að gista í tjaldi í ferðalaginu en við erum ekki beint útilegufólk. Það er hins vegar hægt að bóka gistingu í tjaldi sem er upphitað með uppábúnum rúmum hjá Original North. Við duttum inn á þennan gistimöguleika fyrir algjöra tilviljun og vissum að þetta myndi slá í gegn hjá okkar dömum. Það var því mikil spenna sem ríkti yfir „tjaldútilegunni“ sem framundan var.

Við vorum í fjölskyldutjaldi svo það var nóg pláss fyrir alla. Staðsetningin og útsýnið á þessum stað í Þingeyjarsveitinni, maður minn! Þetta er engu líkt og svo friðsæll og fallegur staður. Ekki skemmdi góða veðrið fyrir og það er alveg klárt mál að við munum heimsækja þennan stað aftur síðar.

Við skelltum okkur síðan í rafmagnshjólaferð á fjallahjólum um Fosselsskóg og gengum að Ullarfossi. Þetta var mögnuð upplifun og helst langar okkur bara að eiga svona hjól þetta var svo gaman. Boðið var upp á flatkökur með heimareyktum silungi í skóginum og var þessi ferð dásamleg í alla staði. Ullarfoss er náttúruperla og er við gljúfur Skjálfandafljóts.“

Öðruvísi tjöld á Norðurlandi.
Öðruvísi tjöld á Norðurlandi. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Sveitin

„Áður en við fórum inn í bæinn tókum við klassíska hringinn og kíktum í Kaffi Kú og í Jólahúsið. Það eru skyldustopp þegar farið er norður og mjög mikilvægt að fá sér karamelluepli og karamellupopp í Jólahúsinu og anda að sér ilminum af arineldi og jólunum, ó svo dásamlegt. 

Næst héldum við af stað inn í bæ og eyddum deginum á Akureyri áður en haldið var út á Árskógsströnd að gista hjá frændfólki okkar. Það er alltaf gaman að vera á Akureyri og ætli það sé kannski rétt sem Norðlendingarnir segja með að það sé alltaf gott veður á Akureyri? Ég bara spyr. Það er síðan alltaf best í sveitinni! Þar má hoppa, leika, veiða, tína ber og síðan er mjög mikilvægt að elda og borða nóg af góðum mat í sumarfríi.

Á meðan við dvöldum í sveitinni kíktum við í hvalaskoðun með stangveiði frá Hauganesi og það var alveg geggjað. Að komast svona nálægt hvölum á svona flottum hvalaskoðunarbáti og draga glænýjan þorsk upp úr sjónum var alveg magnað. Krakkarnir elskuðu þetta og toppurinn var síðan að fá heimabakaða kanilsnúða og heitt kakó á miðri leið.“

Eftir bátsferð var síðan farið í heitu pottana á Hauganesi …
Eftir bátsferð var síðan farið í heitu pottana á Hauganesi og þar var sko fjör. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is