„Þetta redd­ast“ bæði á Íslandi og á Ítal­íu

Sara Barsotti og Matteo Meucci og börnin þeirra þrjú, Riccardo, …
Sara Barsotti og Matteo Meucci og börnin þeirra þrjú, Riccardo, Bruno og Ederu. Amma barnanna var í heimsókn frá Ítalíu þegar ljósmyndara bar að garði. Haraldur Jónasson/Hari

Í klass­ísku stein­húsi með grænu þaki í Gerðunum er alltaf líf og fjör en þar býr ít­alska Bar­sotti/​Meucci-fjöl­skyld­an; Sara Bar­sotti, Matteo Meucci og börn­in þeirra Riccar­do 11 ára, Edera 9 ára og Bruno 7 ára. Edera er svo­lítið hissa á komu blaðakon­unn­ar og for­vitn­ast um er­indi henn­ar. Mamma henn­ar út­skýr­ir fyr­ir barn­inu til hvers hún er kom­in og hvað sé að fara að ger­ast. Það dug­ar og Edera stekk­ur út til bræðra sinna sem, af hljóðunum úr garðinum að dæma, eru að hoppa á trampólíni og leika sér með bolta enda sum­arið komið og eng­in ástæða til að vera inni. Það er spenn­ing­ur í fjöl­skyld­unni, amma er í heim­sókn frá Ítal­íu og fjöl­skyld­an er að und­ir­búa ferðalag á Snæ­fells­nes og ætl­ar að gista í Grund­arf­irði.
Við setj­umst við stofu­borðið og blaðakona ber upp fyrstu spurn­ing­una sem hlýt­ur að vera þessi: „Af hverju í ósköp­un­um fluttuð þið til Íslands?“

Ísland­s­æv­in­týrið byrjaði með Eyja­fjallagos­inu

„Jú sko, þetta byrjaði allt með Eyfjalla­jök­uls­gos­inu árið 2010 eins og svo margt annað. Ég starfaði sem eld­fjalla­fræðing­ur á Ítölsku jarðvís­inda- og eld­fjalla­stofn­uninni og mín sér­grein m.a. var eld­fjallaaska í and­rúms­loft­inu og fleira þannig að eld­gosið kom beint inn á mitt fag­svið. Eld­gosið var al­ger stórviðburður og ég varð mjög áhuga­söm um Ísland og jarðfræði þess,“ seg­ir Sara sem er með doktors­próf í jarðeðlis­fræði með eld­fjalla­fræði sem sér­grein og starfar nú sem fag­stjóri eld­fjalla­vár hjá Veður­stofu Íslands. Árið 2012 aug­lýsti Veður­stofa Íslands eft­ir starfs­manni í eld­fjall­a­rann­sókn­um og vakti auglýsingin mikla at­hygli Söru. Hún benti Matteo á aug­lýs­ing­una og sagði að þarna væri akkúrat verið að aug­lýsa eft­ir starfs­manni á henn­ar fagsviði og það á Íslandi. Hjón­in ræddu fram og til baka hvort hún ætti að sækja um en þá voru börn­in eins, þriggja og fimm ára. Matteo hvatti sína konu til að sækja um, þau komust að þeirri niður­stöðu að það væri betra að dvelja lang­dvöl­um í öðru landi með ung börn en ung­linga og hvað sem gerðist þá tapaði hún engu við að sækja um.

Ítalska fjölskyldan vinnur við eldfjöll og jökla, sækir nám í …
Ítalska fjölskyldan vinnur við eldfjöll og jökla, sækir nám í Breiðagerðisskóla og sinnir ýmsum tómstundum. Haraldur Jónasson/Hari

„Við hugsuðum þetta sem svo að þetta mætti ganga vel en samt ekki of vel,“ sagði Matteo þegar hann hugs­ar til baka. Málið var að um­sókn­in mátti gjarna setja þrýst­ing á þáver­andi vinnu­veit­anda henn­ar hjá jarðvís­inda­stofn­un­inni en hún var á tíma­bundn­um samn­ingi og vildi gjarna fá fa­stráðningu og betri kjör. Til að gera langa sögu stutta sótti Sara um skömmu fyr­ir loka­skila­frest í ág­úst 2012 og átti í raun ekki von á að fá starfið enda ljóst að fjöldi eld­fjalla­fræðinga um víða ver­öld sótti um stöðuna. Hún var boðuð í viðtal í des­em­ber og var í kjöl­farið boðin staðan. Hjón­in fóru út í janú­ar 2013 og skoðuðu sig um og voru flutt með börn og buru í júlí sama ár til Íslands, lands elds og ísa, eins og gjarna kem­ur fram í ferðamanna­bækling­um um Ísland en svo skemmti­lega vill til að Matteo er með masters­gráðu í jökla­fræði og starfar núna sem leiðsögumaður með göngu­hópa á jökl­um og í ís­klifri. Það var ekki eins aug­ljóst hvað hann myndi taka sér fyr­ir hend­ur á Íslandi en hann hafði starfað sem kaðalmaður, starf sem erfitt er að finna hlið­stæðu fyr­ir á Íslandi, en hann sér­hæfði sig í að klifra hátt upp þar sem þess var þörf. Mögu­lega til að lag­færa hluti, þvo glugga, klifra upp í mjög há tré og fleira. Eina hliðstæðan hér­lend­is eru fá­ein­ir of­ur­hug­ar sem klifra upp há­hýsi og þrífa eða sinna viðhaldi á há­hýs­um. En með vax­andi ferðaþjón­ustu á jökl­um lands­ins og öll­um þeim köðlum og út­búnaði sem þarf til að ganga á jökl­um og klífa ís­veggi var ljóst að Matteo átti heil­mikla framtíð í ferðaþjón­ust­unni enda varð sú reynd­in. 

En hvað skyldi þeim finn­ast ólík­ast við að vera fjöl­skylda á Íslandi miðað við Ítal­íu? Hjón­in líta spyrj­andi hvort á annað og skella upp úr.

Mun­ur á mennt­un barn­anna á Íslandi og Ítal­íu

„Það er svo ótrú­lega margt. Það sem er senni­lega erfiðast er fjar­vera stór­fjöl­skyld­unn­ar og tengslanets­ins. Þó svo við eig­um góða vini hér­lend­is og vinnu­fé­laga þá er það ekki það sama og við sökn­um þess oft að börn­in séu í tengsl­um við stór­fjöl­skyld­una. Stund­um væri líka ósköp gott að fá til dæm­is þá aðstoð með börn­in sem við mynd­um fá heima á Ítal­íu. En fyr­ir utan aug­ljós­an mun á nátt­úru land­anna, veðurfari, tungu­máli og menn­ingu segja þau að börn­in fái tölu­vert öðru­vísi mennt­un hér en þau fengju á Ítal­íu.
„Börn­in eru mun sjálf­stæðari en þau væru á Ítal­íu. Á Íslandi er til að mynda óhefðbundn­um grein­um gert mun hærra und­ir höfði en á Ítal­íu, þar sem þær lenda alltaf í öðru sæti eða er jafn­vel sleppt. Hér erum við að tala um grein­ar eins og smíði, tex­tíl­mennt, heim­il­is­fræði, lífs­leikni og fleira. Við erum í raun ánægð með þetta því þessi leið gef­ur miklu fleiri börn­um kost á því að plumma sig í ýms­um grein­um og líða þar með vel í skól­an­um fyll­ast þar með sjálfs­trausti yfir eig­in getu. Þó svo þér gangi illa í, segj­um stærðfræði, þá geng­ur þér kannski vel í smíði. Þannig efl­ast börn­in til sjálf­stæðrar og krea­tífr­ar hugs­un­ar. Á hinn bóg­inn erum við svo­lítið smeyk við að snúa aft­ur með börn­in aft­ur til Ítal­íu þar sem börn­in eru í raun tveim­ur árum á eft­ir í flest­um bók­leg­um fög­um.


Fyr­ir utan skóla­starfið upp­lifa þau að börn hér al­ist upp við meira frelsi og sjálf­stæði en á Ítal­íu, bæði í leik og skóla­starfi en einnig sjálf­stæði og skipu­lagi við tóm­stund­ir og fleiru sem snýr að skipu­lagi eig­in lífs. Þau telja þetta langoft­ast vera já­kvætt en í stöku til­fell­um þó vera á mörk­um þess að vera eðli­legt fyr­ir hluti sem treysta ætti ung­um börn­um fyr­ir. „Ég meina, það eru tak­mörk fyr­ir því hvað er hægt að treysta níu, tíu ára göml­um börn­um fyr­ir að gera ein og við, full­orðna fólkið, ber­um ábyrgð á þeim þegar upp er staðið,“ seg­ir Sara.
Þau hafa upp­lifað heil­mik­inn stuðning í skóla­kerf­inu þó svo börn­in fái ekki sér­staka ít­ölsku­kennslu eins og þau höfðu von­ast til í fyrstu. Þau nefna sem dæmi að þau hafi alltaf fengið túlk í for­eldraviðtöl­um bæði leik- og grunn­skóla því þótt flest­ir tali ágæta ensku er mik­il­vægt að skiln­ing­ur sé full­kom­inn þegar for­eldr­ar og kenn­ar­ar ræða stöðu barns­ins og við barnið. Þau telja næsta víst að ís­lensk­ir inn­flytj­end­ur til Ítal­íu hefðu ekki fengið sams ­kon­ar stuðning og þau hafa þó fengið hér­lend­is.


Varðandi upp­lif­un­ina al­mennt, fyr­ir utan börn­in og skól­ann, kom þeim það á óvart hversu hug­ar­farið er um margt líkt með þess­um ann­ars ólíku þjóðum, hug­ar­far sem kristall­ast í hinu klass­íska „þetta redd­ast“-viðmóti. Sara seg­ir að þegar þau hafi verið að und­ir­búa flutn­ing­inn til Íslands hafi þau hugsað með sér að nú væru þau að flytja til Norður­land­anna sem væru jú í fyr­ir­mynd annarra landa ver­ald­ar í sam­bandi við sam­fé­lags­lega upp­bygg­ingu, stefnu­festu og reglu­verk. Hlut­irn­ir hlytu að vera í föst­um skorðum á Íslandi. Héldu að Ísland væri eins og hin Norður­lönd­in, allt svo pottþétt!

„Ah! Þið hélduð sum­sé að þið væruð að flytja til Svíþjóðar?“

Sara skelli­hlær og seg­ir „Já ein­mitt! Við vor­um að flytja til Norður­land­anna og bjugg­umst við að allt myndi ganga eins og smurt. All­ir myndu standa í röð í búðum og fara eft­ir regl­um. En svo kom það mér virki­lega óvart hvað það er margt líkt í menn­ingu þjóðanna. En svo er allt hér eft­ir sömu „þetta redd­ast“-formúl­unni og á Ítal­íu sem kannski hef­ur gert okk­ur kleift að búa hér í fimm ár. Sum­ar regl­ur eru til, bæði hér og þar, en það er ekki alltaf bara ein leið til að leysa mál. Ég held að þessi sveigj­an­leiki sem við upp­lif­um hér hafi hjálpað okk­ur mikið að búa hér. Ef ég miða við suma er­lenda koll­ega mína á Veður­stof­unni verða þeir sum­ir tölu­vert pirraðir stund­um yfir því hvað hlut­irn­ir eru óljós­ir hér og regl­urn­ar ekki alltaf skýr­ar en ég segi bara; tja, mér finnst þetta bara ágætt svona,“ seg­ir Sara og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert