Kryddpíurnar: Trójuhestur femínismans

Mel C, Victoria, Mel B, Geri og Emma prýddu herbergisveggi ...
Mel C, Victoria, Mel B, Geri og Emma prýddu herbergisveggi og hjörtu allra ungra stúlkna á tíunda áratugnum.

 Ef minnið svíkur ekki eru Kryddpíurnar eina erlenda hljómsveitin utan Bítlanna (og hugsanlega „Rollinganna“) sem fengið hefur viðurkennt íslenskt nafn. Það gefur kannski einhverja vísbendingu um áhrif sveitarinnar, hér á landi sem og víðar, en með útgáfu fyrsta lags síns, „Wannabe“, slógu Kryddpíurnar einmitt fyrra met Bítlanna fyrir bestu innkomu bresks lags á bandarísku topplistunum.

Kryddpíurnar á hátindi ferilsins.
Kryddpíurnar á hátindi ferilsins. Skjáskot / Spice Girls

Það var þó löngu eftir að lagið skaut Kryddpíunum upp á stjörnuhimininn annars staðar í heiminum en í dag, 8. júlí 2016, eru einmitt 20 ár frá útgáfu lagsins í Evrópu. Hljómsveitin, þær Victoria Beckham (áður Adams), Melanie Brown, Melanie Chisholm, Geri Halliwell og Emma Bunton, munu ekki koma saman að nýju á tónleikum af þessu tilefni en það kemur þó ekki í veg fyrir að þessum tímamótum sé fagnað. 

Fyrr í vikunni birtu Sameinuðu þjóðirnar endurgerð á myndbandinu við „Wannabe“ undir merkjum Global Goals-verkefnisins. Myndbandið hefur hlotið verðskuldaða athygli en í því eru áhorfendur meðal annars hvattir til að ræða opinskátt um réttindastöðu kvenna með myllumerki gripnu út úr texta lagsins: #whatIreallyreallywant

Þessi femíníska tenging við vinsælustu stúlknasveit allra tíma er auðvitað ekki gripin úr lausu lofti og er í raun mjög viðeigandi. Það voru enda Kryddpíurnar sem gerðu einkunnarorðin „girl power“ vinsæl og að mörgu leyti voru þær eitt fyrsta svar tónlistariðnaðarins við þriðju öldu femínismans sem átti upphaf sitt á tíunda áratugnum.

En það er einmitt orðið iðnaður sem vert er að hafa í huga áður en framlag þeirra Victoriu, Geri, Mel C, Mel, B og Emmu er lofsungið í hæstu hæðir. Kryddpíurnar mörkuðu nefnilega upphafið á þeim markaðsvædda femínisma sem rutt hefur sér til rúms síðustu tvo áratugi og sitt sýnist hverjum.

Touch, Spice og Spice Girls

„Ert þú lífsklár, mannblendin, metnaðargjörn og getur sungið og dansað?“

Svona hljómaði hluti auglýsingarinnar sem birt var í breska bransatímaritinu The Stage í febrúar 1994 eftir söngkonum í nýja stúlknasveit. Um 400 mættu í prufurnar og eftir margar vikur af prufum voru þær Victoria, Mel C, Mel B og Geri valdar í lokahópinn ásamt Michelle Stephenson. Upprunalega var sveitinni gefið nafnið Touch en ekki löngu eftir að æfingar sveitarinnar hófust var Stephenson sparkað, þó að hún haldi því fram að hún hafi hætt af sjálfsdáðum. Í hennar stað kom Emma Bunton sem sögð er hafa lagt til nafnið Spice.

Stúlkurnar tóku að ókyrrast í æfingabúðum Bob Herbert, umboðsmannsins sem upphaflega setti hópinn saman, og í mars 1995 slitu þær samstarfinu við fyrirtæki hans, Heart Management, að sögn vegna þess að þeim fannst ekki hlustað nóg á þær hugmyndir sem þær höfðu fram að færa. Síðar í sama mánuði skrifuðu þær undir samning við umboðsmanninn Simon Fuller og í september voru þær komnar með plötusamning við Virgin Records en þá undir nafninu Spice Girls þar sem nafnið „Spice“ var þegar í notkun annars tónlistarmanns.

Fyrsta júlí 1996 var svo komið að formlegri útgáfu lagsins „Wannabe“ sem varð stærsti smellur sveitarinnar á stuttri starfsævi hennar.

 movies 1990s nostalgia spice girls iconic

Kynferðislega valdeflandi fjör

Sagan segir að það hafi tekið hálftíma að semja „Wannabe“ og klukkutíma að taka það upp. Victoria, sem er í dag langfrægust þeirra stallna (sem tískuíkon og hönnuður og fyrir hjónaband sitt við knattspyrnumanninn David Beckham) var fjarstödd þegar verið var að semja lagið og gaf álit sitt símleiðis. Litla gula hænan virðist hafa gefið lítið fyrir það framlag því niðurstaðan varð sú að Victoria var sú eina í hópnum sem ekki fékk sóló-línu í laginu.

Lagið sækir áhrif í hipphopp og rapptónlist en er þó í raun sannkallað gleðipopp. Það skar sig úr meðal hefðbundinna ástardægurflugna kvenna með því að setja vinasambönd kvenna í forgang og leggja áherslu á sjálfstæði ljóðmælenda.

Meðhöfundar stúlknanna, þeir Matt Rowe og Richard Stannard, sóttu innblástur í söngleikinn Grease við lagasmíðarnar, nánar til tekið í lögin „You‘re the one that I want“ og „Summer Nights“. Texti „Wannabe“ er í raun, hvort sem það var ætlunin eða ekki, eins konar andsvar við niðurstöðu Grease, þar sem þau Sandy og Danny breyta sér til þess að falla betur að hópum hins. Niðurstaðan er á endanum sú að Danny þarf ekki að breyta sér því Sandy rataði alla leið í leðurbuxurnar.

Viðlag „Wannabe“ gæti þannig verið andsvar Sandy við töffarastælum Danny þar sem hún segir honum að hún vilji „zigazig-ah“ og að ef hann vilji vera með henni þurfi hann líka að sýna vinum hennar virðingu.

„Slam your body down and wind it all around. 
Slam your body down and zigazig ah“

Texti „Wannabe“ verður seint álitinn djúpur eða flókinn en hann er þó merkilega merkingarþrunginn. Einhvern veginn tókst Kryddpíunum og félögum að gera texta sem er allt í senn kynferðislega valdeflandi fyrir konur, fjörlegur og með jákvæðum skilaboðum um vináttu.

„Skilaboðin sem ég heyrði voru skýr,“ skrifar baráttukonan Nimko Ali um það þegar hún heyrði lagið fyrst, 14 ára gömul. „Stelpur ganga fyrir – og samstaða kvenna var mikilvægari en nokkur karlmaður. Ég hoppaði samstundis á vagninn.“

Fjörið, vináttan og valdeflingin (í almennum skilningi) er síðan mjög vel þýtt yfir á hið sjónræna í myndbandinu við lagið þar sem stúlkurnar hrista upp í snobbaðri samkomu með dansi, daðri og djóki. Myndbandið á síðan óbeina tengingu við Free The Nipple-hreyfingu nútímans því það var bannað í nokkrum löndum í Asíu vegna stífra geirvartna Mel B.

Þarfnaðist kryddið karlmanna?

Stjörnur sem tengja sig við femínisma eru oft vændar um annarlegar ástæður, af femínistum jafnt sem þeim sem hafna jafnréttisstefnunni. Þannig hefur Beyoncé verið kölluð tækifærissinni vegna plötunnar Lemonade og vísunum stjarna á við Miley Cyrus og Nicki Minaj í rétt kvenna til eigin líkama er tekið sem undanbrögðum kapítalísks feðraveldis plötufyrirtækja, auglýsenda, umboðsmanna og annarra karla í lífi tónlistarkvenna.

Þarna eru Kryddpíurnar engin undantekning. Þær voru skapaðar af Bob Herbert, karlmanni, og Simon Fuller, karlmanni, er almennt eignaður heiðurinn af því að skjóta þeim upp á stjörnuhimininn. Helstu lagahöfundar þeirra voru karlmenn og topparnir í Virgin Records voru einnig nær örugglega karlmenn. Þegar þær stigu fram, með naflann úti og lærin með, þóttust því margir sjá að bak við allt þeirra „girl power“ stóðu glottandi gaurar með dollaramerki í augunum. Kryddpíurnar slógu enda ekki aðeins vinsældamet hvað varðaði tónlistina heldur einnig í auglýsingatekjum fyrir hinar ýmsu vörur.

Þar ber þó að benda á nokkrar staðreyndir. Í fyrsta lagi neituðu þær stöllur að viðurkenna vald Herbert og slitu sig í burtu frá honum. Í öðru lagi eru þær skráðar sem meðhöfundar allra laga sinna sem var alls ekki sjálfsögð venja á þessum tíma, nær óháð framlagi söngvara til lagasmíðaferlisins. Í þriðja lagi voru það þær, og þá sérstaklega Mel B og Geri sem kröfðust þess að „Wannabe“ yrði fyrsta lagið sem þær myndu gefa út og þær höfðu það í gegn þrátt fyrir mótbárur Fuller og Virgin. Að lokum má nefna að árið 1997 slitu þær samningi sínum við Fuller og ákváðu að taka stjórn Kryddpíanna í eigin hendur.

Það er því ekki hægt að fullyrða með nokkrum hætti að þær stöllur hafi verið viljalaus verkfæri feðraveldisins.

Magabolir og Buffalo-skór

„Femínismi er orðið skítugt orð. Stelpustyrkur (e. girl power) er bara „næntís“ leið til að segja það. Við getum gefið femínisma spark í rassinn.“

Þessu lýstu stúlkurnar yfir í bókinni Girl Power sem kom út árið 1997. Þær voru sum sé ekki yfirlýstir femínistar og skyldi engan undra. Í dag getur Beyoncé óhrædd dansað framan við risavaxið ljósaskilti með orðinu „feminist“ í hástöfum, vitandi að meginstraumurinn mun fagna henni. Þótt orðið sé umdeilt í dag var það enn meira svo á tíunda áratugnum og því ekki fýsilegur kostur fyrir Kryddpíurnar.

Hefðbundnir femínistar tóku Kryddpíunum heldur ekki fagnandi. Tónlist þeirra og skilaboð voru of froðukennd samsetning, sápukúla sem væri gerð til þess að springa og skaða málstaðinn. Ólík gælunöfn stúlknanna, Sporty, Baby, Ginger, Scary og Posh gáfu kannski óljósa hugmynd um fjölbreytileika en þegar nánar var á litið var um helberar staðalímyndir að ræða. Stórt spurningarmerki var sett við klæðaburð þeirra og þá kannski sérstaklega vegna hlutverks þeirra sem fyrirmyndir fyrir ungar stúlkur enda hafði hver einasta grunnskólastúlka í Vestur-Evrópu eignast magabol áður en æðið var úti. Og svo hjálpaði feimnin við fyrrnefnt orð auðvitað ekki.

„Hvað sem hugtakanotkun líður flögguðu Kryddpíurnar fána systralags, valdeflingar kvenna og kröftugs sjálfstæðis fyrir heila kynslóð kvenna, sýndu milljónum kvenna og stúlkna að þær gætu gert hvað sem þær vildu,“ skrifa Zoë Beaty og Kate Faithfull-Williams hjá vefmiðlinum Stylist og bæta við: „Jafnvel ef það fól í sér að klæðast þykkbotna skóm og magabol.“ 

Kryddpíurnar tóku þannig skömmina gagnvart kvenlíkamanum, sem styrkst hafði að nýju frá hippaárunum, og  sneru henni upp í skemmtun, ekki fyrir karla heldur fyrir konurnar sjálfar, eigendur líkamanna. Lítum aftur til skrifa Nimko Ali.

„Hugmyndin um hvernig konur ættu að vera á almannavettvangi hafði alltaf verið til staðar – kynþokkafullar, ekki of háværar, ekki of hljóðlátar heldur, ekkert vesen. Kryddpíurnar brutu reglurnar. Þegar þær stilltu sér upp fyrir myndatökur þurftu þær ekki að vera kynþokkafullar, þær gátu verið skemmtilegar, háværar og klikkaðar.

„Friendship never ends“

Skilaboð stúlknanna um vináttu ofar öllu öðru héldu því miður ekki lengi. Geri Halliwell yfirgaf sveitina í maí 1998 vegna ósættis innan hópsins og sundraðar féllu Kryddpíurnar niður vinsældalistana þar til hinar fjórar ákváðu að leggja upp laupana í desember árið 2000.

Þær hafa komið saman tvisvar sinnum síðan þá, á tónleikaferðalagi árið 2007 til 2008 og árið 2012 á Ólympíuleikunum í London. Mörgum þætti eflaust viðeigandi að Kryddpíurnar kæmu aftur saman í tilefni af tvítugsafmælinu og Geri, Mel B og Emma hafa sýnt því áhuga. Victoria og Mel C eru hins vegar mótfallnar slíkum áformum og nú virðist staðan vera þannig að hugsanlega munu Kryddpíurnar eiga endurkomu á næsta ári án Snobb- og Sportkryddsins.

Vináttan sem áður var virðist hafa farið forgörðum.
Vináttan sem áður var virðist hafa farið forgörðum.

„Friendship never ends,“ sungu stöllurnar fyrir tuttugu árum og nú virðist sá frasi kannski orðin tóm. En glamúr og gleði Kryddpíanna, sem greinarhöfundur Irish Independent kallar „Trójuhest fyrir femínisma“, hefur haft víðtæk femínísk áhrif á skemmtanaiðnaðinn sem og á þá kynslóð stúlkna sem frelsaði naflann á skólalóðinni.

Það frelsi lifir enn, í tísku, fjöri og geirvörtum. Þegar upp er staðið var sápukúla þeirra Emmu, Victoriu, Mel C, Mel B og Geri kannski einmitt kryddið sem vantaði í tilveruna.

mbl.is