Opinberun Hannesar

Hannes Óli á æfingu á Litla sviðinu.
Hannes Óli á æfingu á Litla sviðinu. Ljósmynd Owen Fiene

Hvernig myndi maður bregðast við ef í ljós kæmi að faðir manns væri í raun ekki karl heldur kona? Ef hann segðist hafa upplifað sig sem konu nær allt sitt líf? Leikarinn Hannes Óli Ágústsson þekkir þar vel til því faðir hans, Ágúst Már Grétarsson, tilkynnti eiginkonu sinni til 30 ára og tveimur börnum, þegar hann var kominn á miðjan sextugsaldur, að hann væri í raun kona. Ágúst fór í kynleiðréttingu og varð Anna Margrét, 57 ára að aldri.

Hannes Óli í hlutverki sínu.
Hannes Óli í hlutverki sínu. Ljósmynd Owen Fiene

Í fyrra kom út bók eftir Bryndísi Júlíusdóttur, Hún er pabbi minn, þar sem Anna segir frá ævi sinni. Annað kvöld verður svo frumsýndur nýr einleikur um sama efni, Hún pabbi, á Litla sviði Borgarleikhússins eftir þær Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur og Köru Hergils, sem jafnframt er listrænn stjórnandi sýningarinnar. Pétur Ármannsson er leikstjóri og Högni Egilsson semur tónlistina. Í verkinu segir Hannes Óli þessa merkilegu sögu sína og föður hans.

Handritið lengi ofan í skúffu

Kara segir leikverkið í raun hafa komið á undan bókinni. „Þegar við fengum leyfi Önnu Margrétar fyrir því að segja þessa sögu á sviði og vorum að sækja um listamannalaun nefndi hún í framhjáhlaupi að hún ætti handrit að bók. Þetta handrit var víst búið að liggja ofan í skúffu í einhvern tíma,“ segir Kara. Leikverkið hafi í kjölfarið tekið breytingum og kastljósinu verið beint að hlið Hannesar Óla. Verkið fjalli um hvernig það sé að vera aðstandandi, hvernig samband þeirra feðga hafi verið í gegnum tíðina, hvort það hafi breyst og hvernig sé að eiga samskipti við einhvern sem hafi átt sér leyndarmál svo lengi.

-Þetta er einleikur en hver er frásagnaraðferðin? Er Hannes Óli að tala á sviðinu út frá eigin brjósti eða bregður hann sér í mörg hlutverk?

„Þetta er bara allt beint frá Hannesi, Hannes er bara Hannes á sviðinu en svo notum við ýmsar aðferðir. Við vísum t.d. í poppkúltúr, Hannes er mikið bíónörd og við nýtum okkur það. Hann segir söguna að hluta út frá poppkúltúr og svo notum við líka bókina örlítið, Hannes les upp úr henni,“ segir Kara.

Opinberun Hannesar.
Opinberun Hannesar. Ljósmynd Oven Fiene

-Þið eruð þá væntanlega að fjalla í leiðinni um ýmislegt sem tengist umfjöllunarefninu, hlutverk kynjanna og kynrófið t.d.?

„Algjörlega. Við reynum að normalísera það að maður þurfi ekki að gegna sínu kynhlutverki með einhverjum utanaðkomandi þáttum eins og útliti eða klæðaburði. Við setjum hann ekki í hlutverk hennar, hann er ekki í dragi. Hún tjáir sig í gegnum bókina en annars er þetta upplifun Hannesar og sýn hans á þetta allt saman.“

-Hefur Hannesi reynst erfitt að leika í þessu verki?

„Það er örugglega mjög krefjandi að opinbera líf sitt á sviði en Hannes er bara svo opinn og „líbó“ maður að það var eiginlega erfiðara að fá einhverja dramatík út úr honum en hitt. En jú, auðvitað hefur þetta verið áfall fyrir fjölskylduna og það er alveg ástæða fyrir því að við erum ekki að segja sögu heillar fjölskyldu heldur bara hlið Hannesar. Það vilja ekki allir setja sína sögu á svið.“

Opinberun Hannesar - Hún pabbi.
Opinberun Hannesar - Hún pabbi. Ljósmynd Owen Fiene

Hvatt til umræðu

-Markmiðið hlýtur líka að vera að vinna gegn fordómum?

„Jú, algjörlega, og við lögðum upp með að normalísera þetta ástand í stað þess að dramatísera það. En auðvitað er það hvatinn að svona sýningu að hvetja til umræðu þannig að fólk sjái allar hliðar málsins,“ svarar Kara. Spurð hvort Anna Margrét hafi verið sátt upphaflega við að gerð yrði leiksýning um hana segir Kara að hún hafi verið það, enda hafi hún sjálf veitt fjölmiðlum viðtöl vegna bókarinnar. „Hún er búin að vera ótrúlega hjálpleg í díalóg, við höfum farið oft að hitta hana og rætt málin fram og til baka,“ segir hún. „Það er oft svolítið tabú að tala um fyrra líf hjá transfólki, maður á ekki að tala um gamla nafnið og fólk vill oft ekki sýna myndir en hún hefur verið eins og opin bók með allt, sem gerir þetta ferli miklu auðveldara. Við getum talað svolítið frjálslega um þetta og auðvitað líka af því að Hannes er sonur hennar og hefur leyfi til að tala um þetta.“

Opinberun Hannesar - Hún pabbi.
Opinberun Hannesar - Hún pabbi. Ljósmynd/ Owen Fiene

Kara segir að lagt hafi verið upp með ýmsar hugmyndir í sköpunarferlinu og verkinu leyft að breytast og þróast. „Ef upp kom hugmynd sem hópnum líkaði vel prófuðum við að elta hana og af því þetta er svo lifandi efni hef ég oft sagt að við séum búin að gera 17 sýningar og þetta er sú nýjasta,“ segir hún og hlær en viðtalið er hægt að lesa í heild í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson