Ljónatemjari hins óvænta

Werner Herzog.
Werner Herzog. mbl.is/Árni Sæberg

Werner Herzog, einn virtasti og áhrifamesti kvikmyndagerðarmaður sögunnar, er einn af heiðursgestum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem hófst í fyrradag. Fimm verka hans, þar af þrjár heimildarmyndir, verða sýnd á hátíðinni og mun hann sitja fyrir svörum að loknum sýningum á tveimur þeirra, auk þess að bjóða upp á meistaraspjall.

Herzog er með endemum afkastamikill og fjölhæfur listamaður, hefur gert tugi kvikmynda og heimildarmynda sem einkennast m.a. af ljóðrænum og óhefðbundnum tökum hans á viðfangsefnum sínum. Hann leikstýrði sinni fystu stuttmynd, Herakles, árið 1962 en fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Lebenszeichen, eða Lífsmörk, var frumsýnd árið 1968 og hlaut hann fyrir hana Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín sama ár. Voru það fyrstu verðlaunin af ótalmörgum sem Herzog hefur hlotið og hann er hvergi nærri hættur, orðinn 75 ára.


Herzog fæddist í München árið 1942 en ólst upp í afskekktu fjallaþorpi í Bæjaralandi og vissi ekki af tilvist kvikmynda fyrr en hann var orðinn ellefu ára. Hann stundaði nám í sagnfræði og þýskum bókmenntum í München og Pittsburgh og var einn af fremstu kvikmyndagerðarmönnum Nýju þýsku kvikmyndastefnunnar, var þar í hópi manna á borð við Volker Schlöndorff og Rainer Werner Fassbinder. Þessir leikstjórar höfðu úr litlu fjármagni að spila og einkenndist stíll þeirra af þátttöku viðfangsefna í heimildarmyndargerðarformi, sem var á sama tíma undir handleiðslu eða undir áhrifum leikstjórans sjálfs. Þessir leikstjórar áttu til að fara með viðfangsefni sín í óvæntar áttir og ögra þeim, hvetja eða brjóta niður, segir á vef RIFF. Þessi stíll var einkum áberandi í heimildarmyndum en var einnig beitt í kvikmyndum.





Óbilandi þrautseigja
Ein þekktasta kvikmynd Herzog, Fitzcarraldo frá árinu 1982, verður sýnd á RIFF en hún er líklega þekktasta dæmið um þrautseigju hans og hversu langt hann er tilbúinn að ganga þegar kemur að listrænni sköpun og sýn. Það tók um fimm ár að klára kvikmyndina sem var tekin upp í regnskógum Perú án leyfis yfirvalda. Í henni segir af ræningjabaróninum Brian Sweeney Fitzgerald sem einsetur sér að byggja óperuhús í miðjum Amazon-regnskóginum. Til að fjármagna bygginguna hyggst hann sölsa undir sig gúmmískóg en til þess þarf hann að flytja mörg hundruð tonna gufuskip, með aðstoð frumbyggja, yfir bratta hæð.

Herzog vildi ekki beita kvikmyndabrellum við gerð myndarinnar, lét byggja tvö gufuskip og fékk aðstoð frumbyggja við að flytja annað þeirra yfir hæð í skóginum og gekk það ekki áfallalaust fyrir sig. Fræg eru átök Herzog og aðalleikara myndarinnar, Klaus Kinski, á tökustað en Kinski var þekktur af æðisköstum sínum (sjá næsta myndband). Herzog hlaut verðlaun sem besti leikstjórinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1982 fyrir kvikmyndina sem þykir mikið þrekvirki.





Fjölhæfur listamaður
Herzog hefur komið víða við því auk þess að skrifa handrit og leikstýra kvikmyndum og heimildarmyndum hefur hann skrifað fjölda handrita og bóka og leikstýrt óperum, auk þess að bregða sér af og til í hlutverk leikara. Þannig hefur hann ljáð persónu í einum þáttanna um Simpson-fjölskylduna rödd sína og leikið illmenni í kvikmyndinni Jack Reacher á móti Tom Cruise. Þá hefur hann vakið athygli hin síðustu ár sem álitsgjafi og greinandi og má m.a. nefna áhugaverða greiningu hans á myndbandi við lag Kanye West, „Famous“, sem vakti mikla athygli í netheimum.


Herzog hefur tvisvar verið tilnefndur til Gullpálmans, fyrir Woyzeck árið 1979 og Where the Green Ants Dream árið 1984, og hlaut sína fyrstu Óskarsverðlaunatilnefningu árið 2007 fyrir heimildamyndina Encounters at the End of the World sem fjallar um lífið á suðurskautinu. Ein af þekktustu heimildarmyndum hans, Grizzly Man, var frumsýnd tveimur árum fyrr og vakti hún mikla athygli fyrir efnistök Herzog en í henni segir af lífi Timothy Treadwell sem kallaður var Bjarnarhvíslarinn en hann og unnusta hans voru drepin af birni árið 2003.




Starfar með Gorbatsjof
„Ég fékk mjög ungur áhuga á kvikmyndagerð, 15 eða 16 ára og ég vissi að ég yrði að framleiða myndirnar líka því enginn vildi framleiða þær. Þannig að ég fór að vinna næturvaktir í stálverksmiðju sem logsuðumaður en á daginn var ég í skóla,“ segir Herzog, spurður að því hvenær áhugi hans á kvikmyndagerð hafi kviknað. Þannig hafi hann safnað fé til að framleiða sínar fyrstu stuttmyndir. „Ég hef ekki stoppað síðan. Í gær og fyrradag var ég að mynda í Moskvu með Mikhail Gorbatsjof.“
–Máttu segja frekar frá því verkefni?
„Við vitum ekki enn hvert það mun leiða okkur,“ svarar Herzog. „Mér var bara boðið til Rússlands og ég greip tækifærið. En þú ert s.s. að ræða við mann sem var að mynda í gær,“ segir Herzog til frekari áherslu á því hversu lengi hann hefur verið að, 56 ár eða þar um bil.
–Þetta er langur starfsferill …
„Ég hef aldrei átt mér starfsferil því starfsferill felur í sér ákveðið skipulag, að maður hafi stjórn á því sem maður er að gera en hana hef ég aldrei haft,“ svarar Herzog. Verkefnin streymi til hans linnulaust. „Ég ætti núna að vera að skrifa handrit að kvikmynd eða þremur kvikmyndum en ég hef þann háttinn á að fylgja þeirri hugmynd sem sækir ákafast að mér.“

Gæti orðið dreki eða ljón
Herzog hefur gert um 70 myndir á ferli sínum, auk þess að spreyta sig sem leikari í fjölda kvikmynda og segir hann glottandi að hann sé góður í að leika illmenni. „Ég var reyndar að leika í mjög kostnaðarsamri Hollywood-mynd, einni af þessum ævintýramyndum sem kostar líklega um 200 milljónir dollara að framleiða. Ég fer með lítið hlutverk í henni,“ segir Herzog og að dulnefni myndarinnar sé Mary Lou. „Þetta er ein af þessum miklu vísindaskáldskaparfantasíum,“ upplýsir hann en segist annars lítið mega tjá sig um myndina. „Þetta var allt unnið með „motion capture“ aðferðinni og ég gæti orðið dreki, ljón eða maður,“ segir hann kíminn og hreyfir handleggina líkt og hann sé kominn með vængi. Herzog segist hafa orðið heillaður af því að leika fyrir framan græn tjöld, klæddur sérstökum búningi, á móti ímynduðum leikurum sem léku sinn hluta atriðisins sex vikum fyrr. „Þetta er ný vídd fyrir mér,“ segir Herzog um þessa upplifun sína.
–Leikreynslan hlýtur að koma sér vel þegar þú ert að stýra leikurum?
„Það er gott eða auðvelt fyrir mig því ég skil hina hliðina en ástæðan fyrir því að ég geri svona lagað er einföld: ég ann öllu sem viðkemur kvikmyndum; að leikstýra, skrifa handrit, klippa, framleiða eða leika, nefndu það bara. Þetta er það sem ég geri.“

–Það hefur þá aldrei hvarflað að þér að gera eitthvað annað?

„Nei, mér þætti gaman að geta leikið á selló en það er orðið of seint. Mér þætti gaman að vera stærðfræðingur en það er of seint því allar stórkostlegar uppgötvanir í stærðfræði hafa ungir menn gert, á aldrinum 14 til 24 ára,“ svarar Herzog.

Hér má sjá Herzog í hlutverki illmennis í Jack Reacher:





Hver leikari hefur sínar þarfir
–En talandi um leikara, heldurðu að þú hafir lagt mjög hart að þeim sem þú hefur leikstýrt?
„Það fer eftir hverjum leikara fyrir sig, við hvern þeirra þarf að tala sérstakt tungumál. Sumir hafa þurft á aga að halda og þrýstingi, aðrir hafa þurft að finna fyrir því að þeir væru í öruggum höndum og stundum er maður með tvo eða þrjá leikara í sama atriði sem eru með þrenns konar ólík viðhorf. “
–Þú þarft þá að vera hálfgerður sálfræðingur og leikstjóri í senn?
„Nei, ég þoli ekki sálfræði,“ svarar Herzog og brúnin þyngist á honum. „En „ svo og brúnin léttist.
–Christian Bale lék í kvikmynd þinni Rescue Dawn og sagði í viðtali að hann hafi eina stundina langað að drepa þig og þá næstu að faðma þig.
„Það var nú afar sjaldan þannig. Við gerð þessarar myndar urðum við fórnarlömb svikahrappa og kl. 5 að morgni þurfti ég að útvega flutningabíla því enginn í taílenska flutningafyrirtækinu sem vann fyrir okkur hafði fengið greidd laun og þeir yfirgáfu svæðið. Við áttum ekki einu sinni peninga fyrir bensíni og þegar þú ert leikari og vilt komast á tökustað kl. 7.30 getur auðvitað komið upp ágreiningur. En okkur Bale gekk mjög vel að vinna saman og þær vikur sem við vorum við tökur í Taílandi lenti okkur aðeins tvisvar saman og það örstutt,“ svarar Herzog.




Mýtur á netinu
–Fyrst þú minnist á þetta þá verða oft til á netinu gróusögur um stirð sambönd leikara og leikstjóra…
„Já og maður getur ekkert gert við þeim. Eitt sinn öskraði Bale á ljósamann sem var fyrir honum á meðan hann var að leika, var að setja upp einhvern ljósabúnað. Upptaka af þessu reiðikasti Bale fór á netið, um 60 sekúndna löng. Árum saman, kvikmynd eftir kvikmynd, hefur hann verið hið mesta ljúfmenni í tökum, fagmannlegur og velviljaður, örlátur og tiginmannlegur en netið og almenningur býr til svona mýtur og maður getur ekki breytt því eða forðast þær. Mér er alveg sama um þær og sé þær ekki því ég á t.d. ekki farsíma.“
–Nú gerðir þú heimildarmynd um netið en þú átt ekki farsíma og notar ekki netið, skv. minni eftirgrennslan.
„Jú, ég nota netið. Ég nota tölvupóst á netinu, vinn varla neitt lengur á pappír og stundum tala ég við nána ættingja á Skype því ég er oft mörgum tímabeltum frá þeim,“ segir Herzog. Þá noti hann netið til að afla sér lítilvægra upplýsinga en í flóknari rannsóknum nýti hann aðra miðla.



Ein vika er nóg
–Af síðustu myndum þínum að dæma virðist þú vera að kanna hvaða merkingu það hefur að vera mennskur, frummennskuna, t.d. þeirri sem þú gerðir um elstu hellamálverk sem fundist hafa á jörðinni.
„Það hef ég alltaf gert. Alltaf. Sú mynd fjallar um vakningu mannssálarinnar fyrir 30 eða 40 þúsund árum og í myndunum mínum um dauðarefsingu lít ég inn í myrkustu hyldýpi mannssálarinnar. Allt sem ég hef gert, t.d. kvikmyndin um Kaspar Hauser, allar myndirnar sem ég hef gert, eru eins að þessu leyti.“
–Mig langar að ræða við þig um kvikmyndaskólann sem þú stofnaðir, Rogue Film School, fjögurra daga námskeið með fyrirlestrum sem þú heldur. Nú fer fólk í margra ára nám í kvikmyndagerð, telur þú það nauðsynlegt?
„Nei, á einni viku getur þú lært allt sem þú þarft að læra til að geta gert kvikmynd. Restina getur enginn kennt þér og jafnvel í Rogue Film School kenni ég ekki, að því undanskildu að kenna fólki að dírka upp lása og falsa skjöl. Ég lýk því á fyrstu klukkustundinni og það sem eftir er fjalla ég um mikilvægi sjálfstrausts, ákveðinn lífsstíl og leið til að búa til kvikmyndir og þetta snýst um ljóðlist. Þess vegna eru Eddukvæðin skyldulesning á námskeiðinu.“



Leiðarvísir fyrir ráðvillta
„Með þessum skóla er ég að reyna að svara, með skipulegum hætti, mikilli spurn ungra kvikmyndagerðarmanna eftir leiðsögn frá mér,“ heldur Herzog áfram. „Þú getur ekki ímyndað þér hversu margir þeir eru og mér fannst ég bera skyldu til þess að verða við þeim óskum á skipulagðan hátt. Og vel á minnst, Rogue Film School er ekki eina svarið því ég hef gefið út 500 blaðsíðna bók sem heitir A Guide for the Perplexed [Leiðarvísir fyrir ráðvillta, þýðing blaðamanns] en titlinum stal ég af miðaldaheimspekingnum Mimonides,“ segir Herzog og hlær innilega. „Þetta er svo fallegur titill! Og það má líka sækja masterclass-námskeið hjá mér á netinu, á vegum fyrirtækis sem er með fjölda slíkra námskeiða. Þú getur t.d. lært tennis af Serenu Williams,“ bætir hann við. „Þetta er sex klukkustunda námskeið og það er ekkert bull, frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu.“
–Og það er engin afsökun til fyrir því að gera ekki kvikmynd?
„Hárrétt,“ svarar Herzog.. „Ég er ekki bara að segja frá heldur hef ég upplifað það sem ég er að tala um og þannig öðlast ákveðna stöðu og rétt til að tjá mig um hvað hægt er að gera og hvernig. Ég er ekki kennari en hef áunnið mér þessa stöðu.“

Fimm verk eftir Herzog verða sýnd á RIFF: 

Úr Aguirre, reiði guðanna. Klaus Kinski með ónefndum apa.
Úr Aguirre, reiði guðanna. Klaus Kinski með ónefndum apa.

 

Aguirre, der Zorn Gottes/ Aguirre, reiði guðanna
Spænski rannsóknarrétturinn leitar að hinum goðsagnakennda El Dorado. Heill her hverfur sporlaust í frumskóginum. Saga um völd og geðbilun. Kvikmyndin er frá árinu 1972 og með aðalhlutverk í henni fara Klaus Kinski, Helena Rojo, Del Negro, Ruy Guerra og Peter Berling.
Fitzcarraldo
Sagan um Sweeney Fitzgerald, mjög staðfastan mann sem er harðákveðinn í að byggja óperuhús í miðjum frumskógi. Kvikmyndin er frá árinu 1982 og með aðalhlutverk fara Klaus Kinski, Claudia Cardinale, José Lewgoy og Miguel Ángel Fuentes.
Grizzly Man/Bjarnarmaðurinn
Heimildarmynd frá árinu 2005. Líf „bjarnarhvíslarans“ Timothy Treadwell var flækja af eldheitum umhverfis-aktívisma, hugmyndafræðilegum hálfsannleika og hreinum og beinum lygum, segir um myndina á vef RIFF. Þegar hann dó skyndilega í október árið 2003 fór sannleikurinn að koma í ljós. Það sem fáir vissu var að stór hluti lífs hans var uppspuni.
Into the Inferno/Inngangur í helvíti
Rannsókn Herzogs á virkum eldfjöllum um allan heim en hann myndaði m.a. á Íslandi við Lakagíga, árið 2015. Heimildarmynd frá árinu 2016.
Lo and Behold, Reveries of the Connected World/Og sjá! Dagdraumar um hinn tengda heim
Heimildarmynd frá árinu 2016. Könnun Werners Herzog á netinu og hinum tengda heimi. Myndin fjallar um tækni og internetið, vélmenni og gervigreind, samband okkar við tæknina og hvernig börnin okkar munu – kannski – ekki þurfa á öðrum að halda eftir nokkrar kynslóðir af því þau hafa vélar.
Sýningatíma myndanna og frekari upplýsingar um hátíðina má finna á vefsíðu hennar á slóðinni riff.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta við vin gæti fengið þig til að breyta markmiðum þínum eða framtíðaráformum lítilsháttar. Komdu hugmyndum þínum á framfæri.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta við vin gæti fengið þig til að breyta markmiðum þínum eða framtíðaráformum lítilsháttar. Komdu hugmyndum þínum á framfæri.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Loka