Síðasti Jedi-riddarinn lítur dagsins ljós

Stjörnustríðsheimurinn tók á móti gestum sem mættu á frumsýningu myndarinnar ...
Stjörnustríðsheimurinn tók á móti gestum sem mættu á frumsýningu myndarinnar í Los Angeles í gær. AFP

Stormsveitarmenn og alls kyns verur úr stjörnustríðsmyndunum í yfirstærð tóku á móti gestum nýjustu stjörnustríðsmyndarinnar, The Last Jedi, sem frumsýnd var í Los Angeles í gærkvöldi.

Í frétt BBC kemur fram að frumsýningin var tileinkuð leikkonunni Carrie Fisher, sem fer með hlutverk Leia í myndinni, en hún lést í desember í fyrra, 60 ára að aldri.

Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar, Rian Johnson, hélt ræðu til heiðurs Fisher í upphafi sýningarinnar þar sem hann hvatti áhorfendur til að skemmta sér konunglega „fyrir Carrie.“

Anthony Daniels og Rian Johnson, handritshöfundur og leikstjóri The Last ...
Anthony Daniels og Rian Johnson, handritshöfundur og leikstjóri The Last Jedi, á frumsýningu myndarinnar í gær. AFP

„Ég vil tileinka kvöldið Carrie, sem er þarna uppi núna og segir: „Fjandinn hafi það Rian, ekki dirfast til að gera þetta kvöld að alvarlegum virðingarvotti“,“ sagði Rian, sem fékk leikara myndarinnar upp á svið með sér.

The Last Jedi er áttunda myndin í Star Wars kvikmyndaröðinni og framhald myndarinnar The Force Awakens.

Verslunin Nexus stendur fyrir forsýningu á myndinni hér á landi á þriðjudagskvöld og búast má við því að margir gestir mæti í búningum.

mbl.is