„Stærsta áskorunin“

„Þegar við hættum að læra nýja hluti, þroskast og stækka …
„Þegar við hættum að læra nýja hluti, þroskast og stækka sem manneskjur þá erum við í ákveðnum skilningi þegar byrjuð að deyja. Ég ætla ekki að vera lifandi dauð, heldur vil ég lifa lífinu lifandi,“ segir Charlotte Bøving. Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir

„Ég hafði ekki ætlað mér að gera fleiri einleiki, en síðan kom sú hugmynd til mín að gera einn einleik í viðbót sem fjallaði um dauðann og ég vissi strax að ég yrði sjálf að leika hann,“ segir Charlotte Bøving sem í gærkvöldi frumsýndi nýjasta einleik sinn, Ég dey, á Nýja sviði Borgarleikhússins. Ég dey er þriðji einleikurinn sem Charlotte skrifar og leikur, en árið 2002 setti hún upp Hina smyrjandi jómfrú og 2010 Þetta er lífið – og nu er kaffen klar sem báðar hlutu afar góðar viðtökur. 

„Dauðinn sem umfjöllunarefni hefur verið mér hugleikinn um nokkurt skeið,“ segir Charlotte og rifjar upp að Grímuverðlaunasýningin Lífið – stórskemmtilegt drullumall hafi upphaflega átt að fjalla um dauðann en þróast yfir í að vera fjölskyldusýning um hringrás lífsins. „Ég hef í gegnum tíðina oft valið mér viðfangsefni sem enginn annar er að fjalla um,“ segir Charlotte og nefnir í því samhengi sýninguna Mamma mamma sem hún leikstýrði hjá leikhópnum Opið 2008 og fjallar um móðurhlutverkið og Suss! sem hún leikstýrði hjá leikhópurinn RaTaTam 2016 og byggðist á reynslusögum þolenda, gerenda og aðstandenda um heimilisofbeldi. Í báðum sýningum tók Charlotte þátt í handritaþróuninni, enda þykir henni fátt meira spennandi en að vinna sýningar frá grunni.

„Þegar ég er að skapa sýningar hef ég lítinn sem engan áhuga á línulegri framvindu. Mér finnst miklu meira spennandi að vinna með ólík brot sem ég set saman til að skapa heildstæða upplifun fyrir áhorfendur,“ segir Charlotte og bætir við að sér þyki mest heillandi að fást við stórar spurningar.

„Besta leiðin til að fjalla um alvarleg viðfangsefni er með …
„Besta leiðin til að fjalla um alvarleg viðfangsefni er með húmor. Ég sprella því heilmikið á sviðinu með tilheyrandi leikorku. Á sköpunartímanum var ég nánast eins og barn að leik sem henti á loft ólíkum hugmyndaboltum,“ segir Charlotte Bøving. Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir

Eins og barn að leik

Að sögn Charlotte byggist Ég dey, líkt og flestar fyrri sýningar hennar, á mikilli rannsóknarvinnu þar sem lagt var upp með eitt lykilþema. „Þegar ég byrjaði að rannsaka dauðann fór ég óhjákvæmilega líka að skoða fortíðina og hugsa um þær manneskjur í mínu lífi sem ég hef þegar kvatt. Börn eru oft upptekin af dauðanum, en síðan hættum við að hugsa um dauðann meðan við erum sem uppteknust af lífinu, erum að stofna fjölskyldu, byggja upp starfsframa og koma undir okkur fótunum. Um miðjan aldur fara margir að velta fyrir sér tilgangi lífsins og þá óhjákvæmilega reikar hugurinn líka að endalokunum. Ótti okkar við dauðann birtist í því að við viljum fæst eldast með tilheyrandi hrukkum og færnimissi,“ segir Charlotte og áréttar að Ég dey sé engan veginn hugsuð sem þung eða dramatísk sýning þó að dauðinn sé til umfjöllunar.

„Besta leiðin til að fjalla um alvarleg viðfangsefni er með húmor. Ég sprella því heilmikið á sviðinu með tilheyrandi leikorku. Á sköpunartímanum var ég nánast eins og barn að leik sem henti á loft ólíkum hugmyndaboltum. Ég er því að leika mér með ólíka þætti og samtímis að bjóða upp á nokkurs konar bland í poka sem veitir innsýn í þetta þema. Í sýningunni skoða ég dauðann frá ýmsum hliðum og lífið með augum hans. Meðal þeirra spurninga sem ég velti fyrir mér er af hverju dauðinn er svona mikið tabú og hvers vegna við hræðumst hann svona mikið. En ég skoða líka hvernig hann geti styrkt okkur í lífinu. Leiðarstef sýningarinnar er að best sé að gera hlutina núna því við erum hvort eð er að deyja,“ segir Charlotte kímin og tekur fram að heilmikill kærleikur sé einnig í sýningunni.

Vil lifa lífinu lifandi

Í kynningu á sýningunni kemur fram að Charlottu hyggist ögra bæði sér og áhorfendum með því að framkvæma fimm atriði á sviðinu sem hún hafi aldrei þorað að gera áður. „Þetta verður að öllum líkindum minn síðasti einleikur. Þarna gefst mér því tækifæri til að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður og taka útkomunni af æðruleysi. Ég vona það geti veitt öðrum innblástur að sjá mig, 55 ára gamla konu, framkvæma eitthvað nýtt og hvatt fólk til að prófa eitthvað nýtt. Að ákveðnu leyti má sjá stöðnun í lífinu sem táknrænan dauða. Þegar við hættum að læra nýja hluti, þroskast og stækka sem manneskjur þá erum við í ákveðnum skilningi þegar byrjuð að deyja. Ég ætla ekki að vera lifandi dauð, heldur vil ég lifa lífinu lifandi,“ segir Charlotte og tekur fram að það liggi í eðli hennar að vera sífellt að ögra sér og læra eitthvað nýtt. „Eitt af því sem mig hefur lengi langað að prófa er að flytja lag sem búið er til á sviðinu frá grunni með hljóðlykkjum,“ segir Charlotte sem unnið hefur að útfærslunni í samvinnu við tónlistarmanninn Gísla Galdur.

Þú segir að þetta verði sennilega þinn síðasti einleikur. Ætlar þú að hætta að leika á sviði og snúa þér í auknu mæli að leikstjórn?

„Í ákveðnum skilningi er ég líka að stýra þessari sýningu því ég vel samstarfsfólk mér til liðs og skapa hugmyndaheim verksins sem er venjulega á verksviði leikstjórans,“ segir Charlotte sem fékk til liðs við sig Unni Elísabetu Gunnarsdóttur sem sér um sviðshreyfingar, Þórunni Maríu Jónsdóttur sem hannar leikmynd og búninga, Garðar Borgþórsson sem hannar lýsingu, Steinar Júlíusson sem hannar myndbönd, Gísla Galdur sem sér um tónlist, Grétu Kristínu Ómarsdóttur sem er dramatúrg og Benedikt Erlingsson sem með-leikstýrir verkinu.

„Þar sem ég er sjálf að flytja verkið þarf ég eðlilega einhvern til að horfa á heildarmyndina úr sal sem getur gefið ábendingar um hvað betur megi fara í tímasetningum, orkustigi og breytingum á dýnamík. Stærsta áskorunin hefur samt verið að læra allan þennan texta á íslensku og flytja hann eins málfræðilega rétt og hægt er,“ segir Charlotte á lýtalausri íslensku og rifjar upp að hún hafi verið 34 ára þegar hún fluttist til Íslands og lærði fyrst tungumálið.

„Af þeim sökum tekur það mig miklu lengri tíma að komast að innihaldinu til að miðla því. Ég vissi fyrirfram að þetta yrði stærsta glíman,“ segir Charlotte og tekur fram að hún hafi á þeim árum sem hún hafi búið og starfað hérlendis ekki sóst eftir því að leika stórt hlutverk á sviði. „Vegna þess að ég vissi hversu tímafrekt og erfitt það yrði að læra allan textann á íslensku. En vegna þess hversu mikilvægt mér finnst að miðla efninu í Ég dey þá var ég tilbúin að leggja þessa miklu vinnu á mig,“ segir Charlotte og bætir kímin við: „Ef ég freistast til að gera enn einn einleikinn þá verður hann á dönsku!“

Endalausar breytingar

Charlotte segist sem leikstjóri bera mikla virðingu fyrir leikurum sem leggja mikið á sig til að skila hlutverkinu sem best og miðla efni sýninga. „Þetta er svo hrikalega mikil vinna og í raun ógerningur að leggja svona mikið á sig ef ástríðan er ekki fyrir hendi,“ segir Charlotte sem á undanförnum árum hefur leikið bæði í kvikmyndum og í sjónvarpi ásamt því að leikstýra og skrifa verk.

„Mér finnst ofboðslega gaman að leikstýra, búa til hugmyndaheim verksins og skrúfa stykkið saman. Ég er oftast að vinna sýningar frá grunni út frá rannsóknarspurningu og tek þátt í því að skrifa verkið á þróunarferlinu. Ég upplifi sýningar oft eins og púsluspil sem raða þarf saman án þess að vera með mynd fyrir framan sig sem leiðbeinir hvar hvert púsl eigi að rata. Og þegar allt gengur upp þá er gaman. Ég upplifi þetta ferli sem nærandi.“

Höfðar þá ekki til þín að setja upp fyrirfram skrifuð verk?

„Jú, ef ég fæ að leika mér með efniviðinn í góðum félagsskap skapandi fólks. Oft þegar ég fæ tilbúin leikrit í hendur þá sé ég ekki alveg hvað ég eigi að gera við efniviðinn því þetta sviðsetur sig sjálft að mínu mati. Það kitlar mig því ekki – nema að um sé að ræða verk sem mér finnst aðkallandi að setja á svið. Ég get sem dæmi nefnt að mig hefur lengi dreymt um að gera sýningar hérlendis fyrir aldurshópinn 10-17 ára, sem er að mestu afskiptur í íslensku leikhúsi dag. Ég hef séð mjög góðar sýningar í Danmörku fyrir þennan aldur þar sem unglingunum gefst færi á að spegla sig í efniviðnum og myndi langa til að setja þau verk upp hérlendis en það er ekki hægt af fjárhagslegum ástæðum því það er enginn til í að kaupa leikhúsmiða á sýningar fyrir unglinga,“ segir Charlotte og bendir á að ein þeirra áskorana sem felst í því að skapa sýningar frá grunni sé hversu tímafrekt og þar af leiðandi kostnaðarsamt það er.

„Stóru leikhúsin þora oft ekki að taka áhættuna á slíkum sýningum. Og styrkirnir sem sjálfstæðu leikhópunum stendur til boða eru ekki háir og því krefst það mikillar vinnu fyrir lítinn pening að vinna sýningu frá grunni með tilheyrandi rannsóknarvinnu og handritaþróun. En á móti kemur að við fáum mikla útrás fyrir sköpunargleði okkar og kraft í slíkum sýningum. Leikhúsvinnan hentar ekki öllum þar sem maður þarf að þola það að starfa í kaosi sköpunarinnar án þess að verða óttasleginn. Þetta minnir sum part á lífið, því við reynum flest að búa til skýra umgjörð um lífið til að þurfa ekki að upplifa kaosið sem býr að baki, því þegar upp er staðið vitum við ekkert nema lífið felur í sér endalausar breytingar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður við stjórnendur, foreldra og yfirboðara eru beinskeyttar og ákafar í dag. Alls kyns spennandi tækifæri til vaxtar eru fyrir hendi núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes