Barnið væntanlegt í lok apríl eða byrjun maí

Meghan, hertogaynja af Sussex, og Harry Bretaprins, ræða við fólk ...
Meghan, hertogaynja af Sussex, og Harry Bretaprins, ræða við fólk í bænum Birkenhead í dag. AFP

Meghan, hertogaynja af Sussex, og eiginmaður hennar, Harry Bretaprins, eiga von á því að barnið þeirra, sem Meghan ber undir belti, komi í heiminn annaðhvort í lok apríl eða í byrjun maí. Meghan greindi frá þessu í dag aðspurð í heimsókn til norðvesturhluta Englands.

Hertogaynjan sagðist enn fremur vera komin sex mánuði á leið. Þetta er haft eftir Kim Thompson sem var ein þeirra sem ræddi við Meghan og Harry í heimsókn þeirra.

Meghan var einnig spurð að því, samkvæmt frétt AFP, af hinni níu ára gömlu Kitty Dudley í heimsókn í grunnskólann hennar í bænum Birkenhead, hvort hún vissi hvort barnið þeirra Harrys væri drengur eða stúlka og sagðist hún ekki vita það.

Meghan og Harry gengu í hjónaband í maí á síðasta ári og tilkynntu síðan í október að þau ættu von á sínu fyrsta barni. Þá var tilkynnt að barnið myndi fæðast næsta vor. Talsmenn hirðarinnar hafa aldrei tjáð sig nánar um tímasetninguna.

Meghan og Harry ræða við fulltrúa góðgerðarsamtakanna Tomorrow's Women Wirral ...
Meghan og Harry ræða við fulltrúa góðgerðarsamtakanna Tomorrow's Women Wirral í dag. AFP
mbl.is