Við ramman reip að draga

Væri þak á Ullevål-leikvanginum í Ósló hefði það svifið á …
Væri þak á Ullevål-leikvanginum í Ósló hefði það svifið á brott þegar þýska grjótmulningsvélin Rammstein heillaði 30.000 tónleikagesti vægast sagt upp úr skónum í gærkvöldi. Greinarhöfundi lá við hjartsláttartruflunum af áþreifanlegum bassadrunum. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Saga þýsku þungarokksveitarinnar Rammstein nær 25 árum á þessu ári og er óhætt að segja að margt vatnið hafi runnið til sjávar síðan þeir Richard Z. Kruspe, Oliver Riedel og Christoph „Doom“ Schneider komu saman í Berlín árið 1994, sameinaðir í þeirri vitrun að skapa nýjar víddir í iðnaðarrokki, bornar uppi af gítar- og hljómborðsleik. Eftir að þeir Till Lindemann, Paul Landers og Christian „Flake“ Lorenz bættust í hópinn varð til heilsteypt hljómsveit sem óhætt er að kalla helstu postula þýsku tónlistarstefnunnar Neue Deutsche Härte, hinnar nýju þýsku hörku, sem tók að ryðja sér til rúms á árunum upp úr 1990.

Tónleikagestir steyttu hornin sem enginn væri morgundagurinn og hefur tilefnið …
Tónleikagestir steyttu hornin sem enginn væri morgundagurinn og hefur tilefnið sjaldan verið ríkulegra í norsku höfuðborginni. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Ekki leið á löngu uns lagið Du Hast af plötunni Sehnsucht frá 1997 stimplaði sig rækilega inn í íslensk eyru þegar útvarpsstöðin X-ið var nánast með það á endurvali í spilaranum hjá sér árið 1998 og tengir margur málmhausinn minningar sumarsins 1998 við þetta lag (að minnsta kosti sá sem hér skrifar).

Allir voru kátir í Höllinni

Hlutirnir gerðust hratt næstu misseri og áður en hendi varð veifað voru sexmenningarnir, sem allir eru fæddir innan vébanda Þýska alþýðulýðveldisins heitins, eða Austur-Þýskalands, á leið til tónleikahalds í Laugardalshöll föstudaginn 15. júní 2001, aðeins nokkrum mánuðum eftir útgáfu plötunnar Mutter sem óhætt er að telja til höfuðverka sveitarinnar og á ekki síður þátt í minningum undirritaðs frá sumrinu 2001 en Du Hast tengist 1998.

Sól tér sortna, sígur fold í mar. Óneitanlega kemur Völuspá …
Sól tér sortna, sígur fold í mar. Óneitanlega kemur Völuspá fyrst upp í hugann þegar eldsúlurnar stíga til himins á tónleikum Rammstein sem þó var sannarlega ekki eina sjónarspilið í gær. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Væg múgæsing greip um sig á Íslandi og hurfu miðabirgðirnar á tónleikana sem dögg fyrir sólu. Sveitin brást af þýskri kurteisi við kalli þessu og bætti þegar við aukatónleikum daginn eftir. Líklega seldist einnig upp á þá. Höfundur þessara lína upplifði í fyrsta og eina sinn á tónleikunum 15. júní að missa tvö kílógrömm líkamsþyngdar á einum rokktónleikum, njóta ekki fullrar heyrnar á ný fyrr en á miðvikudegi vikuna eftir og tónleikamiðinn, sem samkvæmt áralangri venju hefði átt að enda í tónleikamiðasafninu (á tíma þegar tónleikamiðar voru enn listaverk og minjagripir, ekki strikamerki og QR-kóðar), kom í formi pappakvoðu upp úr buxnavasanum og endaði feril sinn sem blautkennd sletta á vegg Laugardalshallar.

Aukasviðið tekið í notkun en Rammstein-liðar fóru víða um leikvanginn …
Aukasviðið tekið í notkun en Rammstein-liðar fóru víða um leikvanginn á tónleikum sínum í gær, ýttu meðal annars risastórum barnavagni um sviðið og flutu á gúmmíbátum yfir pupulinn. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

En kveðjum nú nostalgíska nautnaþoku aldamótanna. Í gær voru þeir Rammstein-liðar mættir til Óslóar og eftirvæntingin ekki minni en á Íslandi sumarið 2001. Talsmaður tónleikahaldarans Atomic Soul, Mark Vaughan, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að aldrei hefði hraðar selst upp á tónleika á Ullevål-leikvanginum sem tekur 31.000 manns þegar öllu er tjaldað. Vaughan nefndi 15 mínútur sem táknar þá að um það bil 2.000 miðar hafi selst á mínútu. Af áðurnefndri rausn blés Rammstein þá til aukatónleika, ekki alveg strax reyndar, en í Þrándheimi 26. júlí 2020. Uppselt um leið og sala hófst 26. júní nú í sumar.

200 manns, 60 vörubifreiðar

Í ljósi breyttrar heimsmyndar og hryðjuverkaógnar var fátt til sparað við öryggisgæslu í gærkvöldi, fjöldi lögreglumanna með skammbyssur og heyrnarhlífar utan við og inni á leikvanginum, eitthvað sem ekki sást á tónleikum AC/DC hér í höfuðstaðnum sumarið 2015, og líklega á annað hundrað dyra- og öryggisverðir. Ekki var starfslið hljómsveitarinnar fámennara, 200 manns fylgdu henni til upp- og niðursetningar risasviðs og almenns græjuburðar en útbúnaður sveitarinnar kom á vettvang með 60 vörubifreiðum.

Lögreglan á staðnum. Lögreglumaðurinn hægra megin kaus að sýna sem …
Lögreglan á staðnum. Lögreglumaðurinn hægra megin kaus að sýna sem minnst af sér á myndinni, hinn brosti sínu blíðasta. Með heyrnarhlífar á Rammstein-tónleikum, er það ekki á pari við koffínlaust espressó? Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Upphitunarsveitin var sannarlega græðlingur af meiði annarrar tónlistarstefnu en aðalnúmer kvöldsins en þar var á ferð franska píanótvíeykið Duo Jatekok sem lék þekkta Rammstein-slagara á slaghörpu sína, þar á meðal einmitt hið afskaplega viðeigandi Klavier (Píanó). Þær Naïri Badal og Adélaïde Panaget sitja þar við sama píanóið og töfra fram ýmsar perlur fjórhent. Þær fylgja Rammstein allt Evrópuferðalagið og lauk upphitun þeirra í gær með því að gripið var fram í fyrir þeim í miðju verki Georg Fridrich Händel, Music for the Royal Fireworks frá 1749 með gríðarháum sprengingum.

Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu. Stúlkan lengst til hægri heilsaði greinarhöfundi og …
Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu. Stúlkan lengst til hægri heilsaði greinarhöfundi og spurði á nokkuð lýtalausri íslensku „Halló, ert þú íslenskur?“ Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að um var að ræða hina hálfíslensku Maríu Lovísu Sigurðardóttur sem var ferskleikinn uppmálaður. „Mig langar að læra meira í tungumálið,“ sagði hún að skilnaði og fer greinilega létt með. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Þegar í kjölfarið ruddust Þjóðverjarnir fram á svið sitt með opnunarlagið Was Ich liebe af nýju plötunni en svo tók við akkúrat hæfileg blanda af gömlu og nýju efni með vopnabraki og gný miklum (lagalisti þessara tónleika er neðst í umfjölluninni).

Barnavagn, leðurblökur og gúmmíbátar

Sprell verður alltaf hluti af sviðsframkomu Rammstein eins og margir Íslendingar þekkja og er þar fátt heilagt, hvort heldur sem er risastór getnaðarlims-froðubyssa (lagið Pussy), sjálfshýðingar, læknastofubúnaður eða logandi risavængir. Í gær var lagið Puppe af nýju plötunni flutt með fulltingi risastórs barnavagns sem rúllaði yfir sviðið og brann að lokum til ösku en þar á eftir svifu þúsund svartar flygsur í einhvers konar leðurblökulíki yfir sauðsvartan pupulinn sem hresstist mjög, og var þó varla á hressleikann bætandi.

Þetta er ekki bjórlíki í glerlíki sem gert var frægt …
Þetta er ekki bjórlíki í glerlíki sem gert var frægt í Áramótaskaupinu 1985 heldur svartar flygsur í leðurblökulíki sem fylgdu laginu Puppe. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Hinn ótrúlega sérstaki hljómborðsleikari sveitarinnar, Christian „Flake“ Lorenz, hljóp svo á hlaupabretti á sviðinu við undirleik hins fornfræga Links 2-3-4 við slíkar bassadrunur að undirritaður skynjaði nánast byrjandi hjartsláttartruflanir og að lokum skirrðust liðsmenn sveitarinnar ekki við að sigla fáklæddir á gúmmíbátum yfir áhorfendaskarann.

Það gefur á bátinn við Grænland. Þeir Rammstein-menn hentu sér …
Það gefur á bátinn við Grænland. Þeir Rammstein-menn hentu sér um borð í tvo gúmmíbáta og sigldu fáklæddir um áheyrendur sína. Ekki það að neitt sem þessir menn taka upp á komi manni á óvart lengur... Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Þegar rauðar ljóssúlur teygðu sig til himins skildu viðstaddir án tafar hvað var í vændum, óumdeilanlegt höfuðverk plötunnar Rammstein, þeirrar fyrstu sem sveitin sendir frá sér í áratug, lagið Deutschland sem í huga höfundar gengur næst Mjallhvítaróperunni Sonne af gömlu góðu Mömmuplötunni frá 2001.

Ekkert daður lengur

Í Deutschland eru Rammstein-liðar ekki lengur að daðra við nasismann og Þýskaland Hitlers eins og svo oft hefur verið einhvers konar útópískur leyniþráður í verkum þeirra, sýnilegur en samt torgreinanlegur. Deutschland er hreint uppgjör við nasismann enda vísunin í viðlaginu skýr, „Deutschland, Deutschland über allen...“ (ekki alles eins og í þjóðlaginu frá 1922 (þó sömdu 1797)). Kristalsnóttin, fangabúðir, stormsveitarbúningar, helförin og hakakrossar, dimmri fortíð hinna þýðversku er bókstaflega nuddað framan í þá...fast.

DEUTSCHLAND!!! Það er bara ekki annað hægt en að öskra …
DEUTSCHLAND!!! Það er bara ekki annað hægt en að öskra með þessu lagi, mesta stórvirki Rammstein síðan Sonne árið 2001 að mati þess sem hér drepur niður penna. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Þungamiðja myndbandsins við lagið er hin ákaflega heillandi þýska leikkona Ruby Commey, Berlínarbúi, fædd 1991. Commey er svört á litinn og túlkar í myndbandinu holdgerving þýskrar þjóðar, Germaníu, sem þýskir myndlistarmenn hafa oftast túlkað sem ljósrauðhærða svipmikla valkyrju klædda brynju og sveiflandi atgeir. Í myndbandinu birtist Germanía meðal annars íklædd einkennisfatnaði nasista, með lepp fyrir auga, reykjandi sígarettu á meðan hún stjórnar hengingu manna í röndóttum fangabúningum, sem liðsmenn Rammstein leika auðvitað. Mætti giska á að sá yfirskeggjaði hringsnerist í gröf sinni fengi hann að sjá hugsjónir sínar svo gerlega fótum troðnar og er lítill harmur að kveðinn.

Gull af manni.
Gull af manni. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Einn mesti tónspekingur Íslands gagnrýnir

Ágætur samstarfsmaður, Arnar Eggert Thoroddsen, blaðamaður á Morgunblaðinu, nýbakaður doktor í félagsfræði frá Edinborgarháskóla með áherslu á íslenska tónlistarframleiðslu og líklega eitt mesta núlifandi átorítet íslenskt um tónlist, skrifaði fyrr í sumar hljómmikla gagnrýni um nýju plötuna og segir þar meðal annars (og missir síst þess er skotið var til):

„Fyrsta myndbandið við þessa plötu er við lagið „Deutschland“. Ég man í svipinn ekki eftir annari eins „við erum mættir!“ yfirlýsingu og það myndband er. Það er STÓRT á allan hátt. Níu mínútur, starfsmenn við það skiptu hundruðum (sjá langan upplýsingalista í lokin) og myndbandið gríðarlega umfangsmikið og metnaðargjarnt. Saga gervalls Þýskalands undir, takk fyrir, og byrjað í myrkustu miðöldum. Búningaskipti og senur í tugatali og Auschwitz, staður sem hvað mest bannhelgi er yfir í opinberri þýskri umræðu, er m.a. afgreiddur. Í miðið er Germanía sjálf, svört, og eru það gríðarlega sterk skilaboð frá sveitinni sem hægt er að tengja inn á sögulega, aríska tilburði, mismunun o.s.frv.“

„Geislandi stórmennskubrjálæði“

Tónleikarnir hérna í Ósló í gær voru eitt sjónarspil frá a til ö og ekkert til sparað að gera nánast öllum skynfærum tónleikagesta kirfilega til hæfis. Gagnrýnandi norska dagblaðsins VG gaf sex af sex mögulegum í gagnrýni sinni í dag undir yfirskriftinni „Geislandi stórmennskubrjálæði“ (n. Strålende stormannsgalskap). Þessi sveit, með sinn húmor, hávaða og hispurslausu framkomu hefur ekki slegið feilpúst í aldarfjórðung og þessir drengir eru áratugum yngri en Rolling Stones sem enn eru á sviði. Megi Rammstein halda áfram að gleðja heiminn meðan moldir og menn lifa. Ellefu af tíu mögulegum fyrir gærkvöldið.

Laginu Engel skilað á stórkostlegan hátt, þúsundir farsíma hafa nú …
Laginu Engel skilað á stórkostlegan hátt, þúsundir farsíma hafa nú leyst kveikjara níunda áratugsins af hólmi á tónleikum enda að bera í bakkafullan lækinn að tendra meiri elda en Rammstein-menn gerðu. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

Lagalisti á Ullevål Stadion 18. ágúst 2019:

  1. Was ich liebe 
  2. Links 2-3-4
  3. Tattoo
  4. Sehnsucht
  5. Zeig dich
  6. Mein Herz brennt
  7. Puppe
  8. Heirate mich
  9. Diamant
  10. Deutschland (endurhljóðblöndun eftir Richard Z. Kruspe)
  11. Deutschland
  12. Radio
  13. Mein Teil
  14. Du hast
  15. Sonne
  16. Ohne dich
  17. B-Stage
  18. Engel (á píanó)

Uppklapp 1:

  1. Ausländer
  2. Du riechst so gut
  3. Pussy

Uppklapp 2:

  1. Rammstein
  2. Ich will

(Uppklöpp komu þó út eins og fimm uppklöpp þar sem sveitin lét áheyrendur bíða vel milli laga).

„Takk fyrir okkur Noregur!“ Líklega skiptu þeir þýsku um föt …
„Takk fyrir okkur Noregur!“ Líklega skiptu þeir þýsku um föt sex sinnum á tónleikunum og hér er lokabúningurinn. Einhverjum kemur væntanlega í hug sveit úr hverrar brunni þeir félagar hafa dregið eitthvað af vatnsbirgðum sínum, Kraftwerk. Vituð ér enn, eða hvat? Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson