Fyrsta breiðskífan í heimsfaraldri

Hljomsveitin RYBA var að gefa út sína fyrstu breiðskífu. Heimir …
Hljomsveitin RYBA var að gefa út sína fyrstu breiðskífu. Heimir Gestur Valdimarsson forsprakki hljómsveitarinnar er efst til vinstri. Ljósmynd/Heimir Gestur Valdimarsson og Margrét Rósa Dóru-Harrysdóttir.

Íslenska rokkhljómsveitin RYBA gaf út breiðskífuna Phantom Plaza á föstudaginn. Tónlistarmaðurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Heimir Gestur Valdimarsson stofnaði RYBA þegar hann var í kvikmyndatökunámi í Póllandi. 

Heimir segir að vissu leyti skrítið að gefa út plötu þegar ekki er hægt að halda útgáfutónleika en hann er ánægður með að platan er komin út. Lögin á plötunni voru tilbúin í fyrravetur en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn.

Var fastur í Svíþjóð

Heimir er búsettur í Malmö með kærustu sinni Elísabetu Birtu Sveinsdóttur sem syngur einnig í hljómsveitinni. Hann festist Svíþjóð í mars en kom heim í sumar og vann þá hörðum höndum við að klára plötuna. Á meðan hann og Elísabet Birta sátu föst í Malmö gerðu þau EP-plötu undir nafninu AfterpartyAngel. 

„Ég er aðallega ánægður með að hún sé komin út. Það vill svo til að það er absúrd staða. Það er bara þannig. Auðvitað vill maður bara halda áfram og halda tónleika en það er ekkert hægt að gera,“ segir Heimir sem situr þó ekki aðgerðalaus í Malmö. „Það er hægt að semja og vinna í tónlist eða gera tónlistarmyndbönd. Maður verður bara að vinna öðruvísi.“

Nú þegar byrjuð á næstu plötu

„Þessi plata er samin yfir langt tímabil þar sem ég bjó í Póllandi í þrjú ár og flutti svo til Íslands,“ segir Heimir en RYBA þýðir fiskur á pólsku. RYBA var upphaflega stuttmynd sem Heimir gerði í Póllandi en þróaðist seinna í tónlistarverkefni. Þegar Heimir flutti heim til Íslands eftir námið í Póllandi safnaði hann saman góðum vinum sem mynda nú hljómsveitina. 

Hljómsveitin RYBA gefur út plötuna Phantom Plaza.
Hljómsveitin RYBA gefur út plötuna Phantom Plaza. Ljósmynd/Aðsend

Platan heitir Phantom Plaza en ákveðin draugastemning ríkir á plötunni sem samin var á rúmlega tveggja ára tímabili. 

„Þetta eru lög sem pössuðu saman og mynduðu einhverja heild. Þessi lög sýna flestallar hliðarnar á RYBA. Á þessari plötu blanda ég saman tónlistarstefnum eins og pólsku fólk-rokki, klassík, post-pönki, elektróník og hipphoppi.“

RYBA byrjaði sem hugarfóstur Heimis en er í dag hljómsveit þar sem allir vinna saman. Hljómsveitin er nú þegar byrjuð að vinna að tónlist fyrir næstu plötu. Auk Heimis eru Andri Eyjólfsson, Baldur Hjörleifsson, Elísabet Birta Sveinsdóttir, Kormákur Jarl Gunnarsson, Laufey Soffía og Sigurður Möller Sívertsen í hljómsveitinni. 

Plötuna Phantom Plaza má nálgast á Bandcamp og Spotify. Einnig er hægt að hlusta á hana í spilaranum hér fyrir neðan. mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú freystast til að gefa upp á bátinn þann sjálfsaga sem þú hefur tamið þér en nú er einmitt tíminn til að þrauka. Verrtu bara eins og þú átt að þér og þá muntu sjá hverjir eru vinir þínir.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú freystast til að gefa upp á bátinn þann sjálfsaga sem þú hefur tamið þér en nú er einmitt tíminn til að þrauka. Verrtu bara eins og þú átt að þér og þá muntu sjá hverjir eru vinir þínir.