Mikilvæg hvatning á miðri leið

Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við …
Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands.

„Þetta er mér mjög mikilvæg hvatning, ekki síst þar sem útgáfa verksins er aðeins hálfnuð núna og ég því á miðri leið. Jafnframt er það mikill heiður að hljóta þessa viðurkenningu,“ segir Aðalheiður Guðmundsdóttir, sem í dag hlaut viðurkenningu Hagþenkis fyrir framúrskarandi rit á árinu 2021.

Viðurkenninguna fær hún fyrir fyrstu tvö bindin í verkinu Arfur aldanna sem Háskólaútgáfan gaf út, en bindin tvö nefnast Handan hindarfjalls og Norðvegur. Fær Aðalheiður 1.250.000 krónur að launum.

Viðurkenning Hagþenkis var að þessu sinni afhent í 36. sinn, en hún hefur verið veitt árlega síðan 1987. Viðurkenningin telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna geta hlotnast. Öll fræðirit og prentuð námsgögn eða önnur miðlun fræðilegs efnis til almennings sem komu út á íslensku árið 2021 komu til greina við veitingu viðurkenningarinnar óháð útgefanda eða tilnefningum.


Aðalheiður er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands og var áður dósent í þjóðfræði við sama skóla. Helstu áherslur Aðalheiðar í kennslu og rannsóknum eru norrænar miðaldabókmenntir, bókmenntasaga, fornaldarsögur, þjóðkvæði og rímur, danssaga og saga galdurs. Eftir Aðalheiði liggja bækur á borð við Úlfhams sögu frá 2001 og Strengleika frá 2006, auk þess sem hún er einn af sex höfundum nýrrar bókmenntasögu, Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, frá 2021. Hún hefur sent frá sér fjölda fræðigreina um norrænar miðaldabókmenntir og skáldskap síðari alda.


Metnaðarfull og heildstæð nálgun

Að vanda stóð viðurkenningarráð Hagþenkis að valinu á verðlaunabók ársins, en í því sátu að þessu sinni Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Súsanna Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Í ávarpi sem Svanhildur flutti fyrir hönd ráðsins við afhendinguna fyrr í dag rifjaði hún upp að Aðalheiður hefði sinnt rannsóknum á fornaldarsögum og skyldu efni í um aldarfjórðung og öðlast ómetanlega yfirsýn um sögurnar og fyrri rannsóknir á þeim.

„Í ritinu Arfur aldanna setur hún sér það metnaðarfulla markmið að fjalla á heildstæðan hátt um uppruna fornaldasagna, efnivið, útbreiðslu og bókmenntaleg einkenni. Þetta er ekkert smáræði, því sögurnar draga langan slóða. Rætur þeirra liggja í sameiginlegum germönskum sagnaarfi sem rekja má aftur á þjóðflutningatímann í Evrópu og landfræðilega verður að ferðast bæði suður í álfu og langt í austurveg til þess að ná utan um dreifingu og þróun sagnaminna sem að endingu öðluðust framhaldslíf í íslenskum frásögnum.

Bækurnar tvær sem verðlaunaðar eru í dag, Handan Hindarfjalls og Norðvegur, fjalla einmitt um baksvið fornaldarsagnanna á meginlandi Evrópu annars vegar og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hins vegar. Í þeim opnar Aðalheiður lesendum sýn á fjölbreytt og heillandi samanburðarefni, allt frá króníkum á latínu og germönskum hetjukvæðum til útskurðar, vefnaðar og myndsteina. Hún dregur á ljósan hátt saman rannsóknir fyrri fræðimanna (ritaðar á ýmsum tungumálum) um leið og hún segir frá nýjum aðferðum til þess að nálgast þennan arf, til dæmis þeim sem taka mið af kenningum um minni eða um lifandi flutning og áhrif áheyrenda á sköpun söguefnis,“ sagði Svanhildur og minnti á að bindin tvö væru einungis fyrri hluti verksins Arfur aldanna.

„Í þeim tveimur bindum sem óútkomin eru ætlar Aðalheiður að færa sig til Íslands og fjalla um endursköpun þessa forna sagnaefnis á Íslandi, um heimsmynd sagnanna og bókmenntaleg einkenni,“ sagði Svanhildur og tók fram að hvatning væri mikilvægur þáttur í Viðurkenningu Hagþenkis. Sagði hún viðurkenningarskjal ársins því bæði vera „verðlaun fyrir afbragðsgóðar bækur tvær og brýningu um að láta ekki deigan síga“.

Ítarlega er rætt við Aðalheiði um viðurkenninguna á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, fimmtudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson