„Kameran er svo grimm“

„Ég sá alltaf fyrir mér Jóhann Sigurðsson og Eddu Björgvinsdóttur sem foreldrana og var mjög glöð þegar það gekk eftir. Ég var lengi að velta fyrir mér hverja ég ætti að fá til að leika aðalhlutverkið, þ.e. Sögu, vegna þess að það mæðir mikið á henni. Hún er í öllum senum og hlutverkið krefst mikils,“ segir Tinna Hrafnsdóttir leikstjóri kvikmyndarinnar Skjálfta sem frumsýnd verður í vikunni. 

Finna þar réttu týpuna með réttu útgeislunina

„Þegar þú færð leikara í prufur og velur úr þá snýst þetta mjög um að finna réttu týpuna sem hefur réttu útgeislunina og réttu elementin fyrir hlutverkið. Mér fannst mjög mikilvægt að leikkonan sem léki Sögu væri móðir sjálf, því drifkraftur persónunnar er barnið hennar. Það er lykillinn að því að hún nær að vinna sig út úr þeim aðstæðum sem hún er að kljást við. Að þekkja af eigin raun þá tilfinningu sem er sú sterkasta sem til er, sem er móðurástin, var fyrir mér nauðsynleg forsenda fyrir því að leikkona gæti túlkað Sögu. Móðurhlutverkinu fylgir líka ákveðin reynsla og þroski, sem ég vildi geta séð í andlitinu, augunum og sálinni,“ segir Tinna og rifjar upp að fyrir tilviljun hafi þær Aníta Briem báðar leikið í sjónvarpsþáttaröðinni Ráðherranum. 

Aníta Briem í hlutverki sínu sem Saga í kvikmyndinni Skjálfti …
Aníta Briem í hlutverki sínu sem Saga í kvikmyndinni Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. Ljósmynd/ Lilja Jónsdóttir

„Ég fékk Anítu í prufu sem hún rúllaði upp. Það sem hún hefur sem listamaður er að hún hefur mjög gott aðgengi að einlægninni og getur verið alveg sönn og laus við alla tilgerð og hvílt í því sem hún er. Það er einstakur hæfileiki að hafa. Við unnum mjög vel saman og náið,“ segir Tinna og tekur fram að hún leikstýri mikið. 

Samtalið er svo mikilvægt til að skapa

„Ég vinn með öðrum leikurum eins og ég vil að sé unnið með mér. Ég kann þetta tungumál og veit hvað er hægt að fara fram á. Ég legg mikið upp úr því að það myndist þetta traust sem þarf,“ segir Tinna og tekur fram að í sinni leikstjórnarvinnu fari hún á dýptina í persónusköpun og eigi góð samtöl við leikara sína um persónuna, bakgrunn hennar og hvaða hlutverki tilteknar senur myndarinnar þjóna. „Samtalið er svo mikilvægt til að skapa gagnkvæman skilning. Leikarar vilja leikstjórn og fá að vita hver sé listræna sýn leikstjórans þannig að við getum öll verið að róa í sömu átt.“

Vildi komast inn í sálina á Sögu

Athygli vekur að Tinna notar mikið af nærmyndum í kvikmynd sinni og því liggur beint við að spyrja hvað valdi. „Mér fannst skipta máli að við kæmumst inn í sálina á aðalpersónunni,“ segir Tinna og tekur fram að það felist ákveðin áskorun í því að nota nærmyndir. 

„Kameran er svo grimm að hún fangar allt. Hún sér um leið og fókusinn er farið eitthvað annað hjá leikaranum,“ segir Tinna og tekur fram að hún þekki það af eigin raun sem kvikmyndaleikkona. 

Aníta gerir þetta listilega vel

„Saga er svo berskjölduð í myndinni og sögunni hennar Auðar Jónsdóttur. Af því að Saga er að kljást við hluti sem fara alveg inn að kviku lagði ég mikla áherslu á Aníta yrði ekki sminkuð þannig að hún væri ekki með neina grímu. Þá hjálpuðu nærmyndirnar að fanga innri líðan hennar, baráttu og umrótið innra með henni. Aníta gerir það listilega vel að fanga upplifanir, líðan og hugsanir Sögu með örlitlum núönsum sem kameran pikkar upp í þessum miklu nærmyndum.“

Viðtal við Tinnu Hrafnsdóttur má sjá í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson