„Við söknum hennar enn alla daga og eru jólin áminning um það að njóta fjölskyldunnar“

Kvikmyndir eru ómissandi þáttur af jólunum segir Ása Baldursdóttir.
Kvikmyndir eru ómissandi þáttur af jólunum segir Ása Baldursdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri í Bíó Paradís, verður að komast í bíó á milli jóla og nýárs. Henni finnst einnig nauðsynlegt að komast á gott jólaball í desember. Í fyrra var hún stödd í Noregi í aðdraganda jóla og þefaði uppi frábært jólaball.

„Ég elska að fara út í snjó, bæði í göngutúra og út að leika. Við eigum smábörn sem elska snjókarla, snjókast og í raun og veru allt sem því fylgir þegar fer að snjóa. Svo að þegar það hefur komið fyrir að það stefni í rauð jól eða snjóleysi í desember þá finnst mér það miður. Skemmtilegar samverustundir með fjölskyldunni og snjór, það er alveg pottþétt jóló.

Og svo er það jólatónlistin. Ég er alveg mest í svona Bing Crosby og Ellu Fitzgerald en það er líka hressandi að hlusta á jólaindítónlist, hljómsveitir sem koma með sínar útgáfur af jólalögum. Ég verð að viðurkenna að það er einn útvarpsþáttur sem kemur alltaf á óvart, það er Straumur í umsjá DJ Óla Dóra. Hann fjallar oft um frábærar útgáfur indí- og „alternative“ banda á jólatónlist,“ segir Ása um það sem kemur henni í jólaskap.

Ævintýraheimur kvikmynda hluti af jólunum

Aðventan snýst að stórum hluta um kvikmyndir hjá Ásu. Hún ætlar að skella sér á jólapartísýningar í Bíó Paradís annaðhvort með vinum eða fjölskyldu. „Við ætlum að byrja með The Holiday, sem mörgum finnst alveg ómissandi í aðdraganda jólanna. Svo fengum við fyrirspurnir um að sýna Love Actually og ég hugsaði með mér, jú auðvitað þurfum við að sýna hana líka! Geggjað stefnumót við vinkonuhópinn þar sem við fáum okkur glögg og hlæjum saman.“

Love Actually er uppáhaldsjólamynd margra.
Love Actually er uppáhaldsjólamynd margra.
The Holiday er notaleg jólamynd.
The Holiday er notaleg jólamynd.

Hvaða jólamynd minnir þig á jól æsku þinnar?

„Við horfðum alltaf á mynd á jólunum sem er ekki eiginleg jólamynd nema í okkar fjölskyldu þá, E.T. Hún lætur manni líða svo vel og það líður alveg úr manni jólastressið enn þann dag í dag. Við horfðum sem börn alltaf á þessa mynd í náttfötunum á jólunum eða á milli jóla og nýárs. Það var alltaf ævintýri að vera með fjölskyldunni uppi í sófa, með sæng að borða mandarínur og horfa á E.T.!

Myndin er í mínum huga systurmynd Galdrakarlsins í Oz (The Wizard of Oz) sem er líka geggjuð og við horfðum oft á hana líka um jólin þegar E.T. þurfti hvíld. Það að komast aðeins í ævintýraheim kvikmyndanna var alltaf partur af jólunum en ég verð að viðurkenna að við horfðum eiginlega aldrei á eiginlegar jólamyndir.“

E.T. var jólamynd í fjölskyldu Ásu.
E.T. var jólamynd í fjölskyldu Ásu.

Hvaða jólamynd ertu spenntust fyrir að horfa á í desember?

„Ég verð sérstaklega að mæla með myndinni Four Little Adults sem við köllum á íslensku Pólíjól sem við frumsýndum í Bíó Paradís hinn 30. nóvember. Myndin fjallar um miðaldra par sem ákveður að opna hjónaband sitt eftir að upp kemst um framhjáhald eiginmannsins. Ég var svo heppin að sjá þessa stórkostlegu grátbroslegu mynd í Gautaborg fyrr á árinu og upp spannst mikil umræða á meðal áhorfenda eftir myndina um fjölkæra einstaklinga og hvernig nútímasambönd hafa þróast.“

Pólíjól í ár.
Pólíjól í ár.

Ása kann líka að meta klassískar jólamyndir og mælir með Home Alone-tvennunni, Die Hard-myndunum og Nightmare Before Christmas sem er einmitt 30 ára í ár. „Ég hlakka sérstaklega til á annan í jólum þegar við sýnum It's a Wonderful Life í Bíó Paradís, að mínu mati ein af allra bestu jólamyndum allra tíma. Við erum með dagsýningu á myndinni, klukkan þrjú, svo að þetta skemmi ekki fyrir jólaboðunum um kvöldið, svo að öll fjölskyldan geti notið. Myndin, sem er svarthvít og hluti af kvikmyndasögunni, er samt einhvern veginn tímalaus.

Myndin fékk gagnrýni á sínum tíma fyrir að vera of hugljúf og að hún ætti frekar heima á sviði leikhússins en bíótjaldsins, það er að segja að hún væri of óraunsæ mynd af lífinu. Því er ég ekki sammála, því myndin er barns síns tíma og ég er mjög mikill málsvari þessara hugljúfu mynda sem urðu til á þessum tíma, auðvitað var hlutverk konunnar annað og sem betur fer eigum við meira jafnrétti í dag þó svo að enn sé langt í land.“

It's a Wonderful Life er klassík.
It's a Wonderful Life er klassík.
The Nightmare Before Christmas er 30 ára í ár.
The Nightmare Before Christmas er 30 ára í ár.

Dásamlegt að vera í sveitinni á jólunum

Hvaða jólahefðir ert þú með?

„Jólahefðirnar okkar eru fjölbreyttar, ég til dæmis þarf alltaf að komast í bíó á milli jóla og nýárs. Ég elska að fara í listræn bíóhús í Evrópu en þar sem við erum oftast heima þá fer ég í önnur bíó en Bíó Paradís. Það er svo sannarlega hefð. En við í fjölskyldunni förum alltaf á jólaball, til dæmis í fyrra þá vorum við stödd í Bergen í Noregi í aðdraganda jóla. Þá dró ég bara fjölskylduna mína með á jólaball með Íslendingasamfélaginu í Bergen, þar sem mætti íslenskur jólasveinn, sungin voru jólalög á íslensku og þetta var alveg stórkostlega fyndið því Íslendingarnar þarna höfðu aldrei séð okkur fyrr! En við tókum háfstöfum undir og vorum hrókur alls fagnaðar. Bróðir minn, sem er sex árum yngri en ég, var alveg dreginn út á dansgólfið þar sem hann dansaði allan tímann með börnunum. En ég reyni svona að koma öllu liðinu í klippingu, ungum sem öldnum, í fjölskyldunni. Það er hefð sem ekki má svíkja.“

Hver eru eftirminnilegustu jól sem þú hefur upplifað?

„Eftirminnilegustu jólin mín voru þegar mamma mín var enn á lífi og ég upplifði fyrstu jólin með syni okkar Hólmsteini. Það voru dýrmæt jól, bæði fyrir mig og hana. Við söknum hennar enn alla daga og eru jólin áminning um það að njóta fjölskyldunnar og þeirra sem þér þykir vænt um, ef kostur er.

En skemmtilegustu jól sem ég átti og eftirminnilegustu sem barn voru einhvern tíma á níunda áratugnum. Þá vaknaði ég einhvern tíma upp við þrusk, jólaljósin á jólatrénu voru þau einu sem voru kveikt í stofunni. Nema hvað, ég sé að pabbi minn er að stumra yfir myndbandstækinu og hann segir mér að hann sé að fara að horfa á upptöku af körfuboltaleik sem hann missti af í aðdraganda jólanna. Við pabbi áttum gæðastundir alla nóttina þar sem ég var að sortera körfuboltaspjöld í plastmöppur og pabbi horfði á alls konar upptökur af körfuboltaleikjum. Í minningunni var þetta alla nóttina, en hefur eflaust verið klukkutími, en hver veit. Minningin er allavega æðisleg.“

Hvað ætlar þú að gera um jólin?

„Maðurinn minn er að vinna um jólin, svo við erum enn að rökræða hvernig þau verða. Ég hugsa að niðurstaðan verði að við verðum heima hjá okkur á Kársnesinu í Kópavogi, bjóðum nánustu fjölskyldu og brunum svo í sveitina á milli jóla og nýárs til að fagna nýu ári með snillingunum á Hurðarbaki í Borgarfirði. Ég á dásamlega tengdaforeldra sem börnin okkar geta ekki beðið eftir að hitta, alltof langt síðan við fórum í sveitina. Það að vera í sveitinni um jólin er dásamlegt. Að fara út í náttúruna í gönguferð, klappa dýrunum og leyfa litlu börnunum að leika sér úti. Og svo er náttúrlega mesta sportið að fara í traktorinn hjá afa sínum, gefa rúllur eða skoða silfurskeiðarnar hennar ömmu í búrinu.“

Það þurfa allir að sjá Home Alone.
Það þurfa allir að sjá Home Alone.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinnan göfgar manninn en það er fleira sem gefur lífinu gildi. Gefðu þér tíma til að sinna þeim og þá muntu fyllast þreki til að glíma við verkefni vinnunnar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinnan göfgar manninn en það er fleira sem gefur lífinu gildi. Gefðu þér tíma til að sinna þeim og þá muntu fyllast þreki til að glíma við verkefni vinnunnar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar